01.09.1917
Neðri deild: 49. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 675 í C-deild Alþingistíðinda. (2970)

86. mál, innheimta og meðferð á kirknafé

Gísli Sveinsson:

Mjer virðist frv. það, sem hjer liggur fyrir, alls ekki vera óþarft, og eftir því, sem jeg veit best, er það borið fram fyrir beiðni ýmsra utan af landi og óskum frá þeim, sem kunnugir eru því, hvernig framkvæmdirnar hafa verið með þessi lán og hvernig meðferð fjárins hefir verið varið, og jeg fyrir mitt leyti hefi leitað álits kunnugra manna. Jeg furða mig því mjög á þessu nefndaráliti og þeirri niðurstöðu, sem nefndin hefir komist að, og skilningi hv. nefndar á lögunum frá 1890. Það kemur hvorki fram í nefndarálitinu nje hjá hv. frsm. (Sv. Ó.), hvort nefndin hefir leitað sjer upplýsinga hjá rjettum hlutaðeigendum. Hún þykist hafa rannsakað öll gögn í máli þessu, en það virðist ekki rjett, þegar litið er til niðurstöðunnar, sem hún kemst að. Það er alkunna, að því er svo varið með þessi lán, að þau eru alls ekki trygð sem skyldi, og landssjóður ábyrgist þau ekki. Þess vegna hefir þess verið óskað af forráðamönnum ýmsra þeirra kirkna, sem fje eiga í þessum sjóði, að landssjóður ábyrgðist lánin, þar eð líka kirkjurnar eru skyldaðar til að láta fje sitt í þennan sjóð, en bannað að hafa það á betri vöxtum eða á tryggari stöðum. Meðan þjóðfjelagið heldur uppi þjóðkirkju og ábyrgist hana, er rjett, að landssjóður ábyrgist það fje, sem kirkjurnar eiga í kirknasjóði, og hefir ákvæði um það átt að standa í lögunum frá 1890. En þau lög verða ekki skilin svo, að landssjóður haft þá skyldu, því að í 4. gr. þeirra stendur, að stiftsyfirvöld, eða stjórnarráðið nú, ábyrgist sjóðinn, en með því er að eins átt við reikningsskil, því að vitanlega getur biskup eða stiftsyfirvöld ekki borið ábyrgð á því fje, sem tapast

Jeg sje ekki, að eftir orðanna hljóðan sje hægt að halda því fram, að landssjóður eigi að bera ábyrgðina. Til þess að fylla í þessa gloppu, sem er á lögunum, er þetta frv. borið fram. Jeg hefi líka fyrir mjer orð sjálfs skrifstofustjórans, sem um þessi mál fjallar, að ummæli 4. gr. laganna hafi ávalt verið skilin svo, að þau ættu að eins við reikningsskil sjóðsins, en ekki við það, að nein ábyrgð hvíli á landssjóði, þótt eitthvað tapist. — Þetta er ekki neitt einstaklingsmál, en snertir almenning. En jeg er hræddur um, að þeir, sem kirkjurnar eiga eða hafa umráð yfir þeim, geti tapað, ef ekki er betur um hnútana búið, þótt í nál. standi, að aldrei sje lánað úr sjóðnum nema gegn öruggri tryggingu. Fjeð er ekki veitt nema til kirkjubygginga, og í lögunum er engin heimild til að krefjast annarar tryggingar en þeirrar, sem kirkjurnar sjálfar veita. En hinn núverandi biskup, Jón Helgason, hefir lýst yfir því, að jeg hygg, að hann sjái sjer ekki fært að lána fje úr þessum sjóði nema

söfnuðurinn ábyrgist með kirkjunni. Eins og nú er og ef söfnuður leysist upp samkvæmt lögum, og kirkjan eyðist af einhverjum óhöppum, þá er það fje tapað, sem þar stendur. Það er því ekki að ófyrirsynju, að þetta frv. er komið fram, um aukna tryggingu fyrir kirknafjám. Af því, að mjer er kunnugt um þessi efni, þá vildi jeg láta þessar upplýsingar í tje, til þess að háttv. deildarm. þyrftu ekki að ganga eingöngu eftir upplýsingum nefndarinnar, sem vafalaust eru rangar og villandi.