17.08.1917
Efri deild: 33. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 693 í C-deild Alþingistíðinda. (2987)

124. mál, löggæsla

Atvinnumálaráðherra (S. J):

Jeg verð að láta það álit mitt í ljós að mjer finst þetta frv. ekki aðgengilegt, eins og það liggur fyrir. Jeg get ekki skilið 1. gr. frv. öðruvísi en svo, að landsstjórnin verði að skipa menn í þessi störf, og það að líkindum menn til viðbótar lögregluþjónum kaupstaðanna, sem þegar eru fyrir. Hversu margir þeir menn eru nú veit jeg ekki með vissu, en tel víst, að laun þeirra muni vega allmikið skarð í þær 10 þús. kr., sem hjer er verið að tala um, eða jafnvel nema meiru. Við þetta bætist svo eftir frv. allur launakostnaður þessara nýju fyrirhuguðu eftirlitsmanna.

Auk þess virðist mjer það athugavert að ljetta þessum kostnaði algerlega af kaupstöðunum, því að vitanlega hefði þar mátt fara milliveg, ef mönnum hefði sýnst svo, vegna þess, að löggæslumenn þarf hver kaupstaður að hafa, og verða þeir því nokkuð í þágu kaupstaðanna. Hjer er auk þess um allmikla fjárupphæð að ræða, eins og jeg hefi þegar bent á, og landsstjórnin getur vart gert annað en

áætlað eitthvað meira og sett það í fjár. aukalög, þegar svo stendur á, að ekkert er í fjárlögunum. En mjer finst grundvöllurinn hjer vera sá, að hjer sje myndaður verulegur vísir til tollgæslu í landinu.

Það hefir verið mikið um það rætt á undanförnum þingum að reyna að komast hjá margbrotinni tollgæslu, enda hefir ekki enn verið lagt út í það að koma henni á. En sje þetta byrjunin til að koma á verulegri tollgæslu, þótt þess sje ekki getið þar beinlínis, þá er þetta lagafrv. að minni hyggju ekki nógu ítarlegt. Eins og málið liggur nú fyrir þá get jeg ekki annað en verið á móti því. En með því að háttv. 2. þm. G.-K. (K. D.) og háttv. flm. (M. T.) hafa lofað að koma með frv. í bættri og breyttri mynd næst, skal jeg ekki greiða atkvæði á móti því, að það fái að ganga til 3. umr., en jeg hygg, að það þurfi að taka miklum breytingum, til þess, að jeg geti fylgt því lengra.