17.08.1917
Efri deild: 33. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 696 í C-deild Alþingistíðinda. (2990)

124. mál, löggæsla

Kristinn Daníelsson:

Hæstvirtur atvinnumálaráðherra lagði á móti þessu frv. og tók það fram, að honum þætti það galli, að eftir 1. gr. frv. gæti stjórnin ekki annað en skipað þessa löggæslumenn, að því er mjer skildist, ótakmarkað. (Atvinnumálaráðh.: Nei, ekki ótakmarkað). En það er auðvitað, að stjórnin skipar þá ekki frekar en viðkomandi fjárveiting gefur tilefni til, og eftir samráði við ýmsa lögreglustjóra, þar sem þessum starfsmönnum yrði bætt við.

En þar sem hæstv. atvinnumálaráðherra mintist á, að hjer væri að tala um að ljetta nokkru af kaupstöðunum, þá er það alls ekki hugsunin, heldur að þetta sje viðbót við lögreglueftirlitið, sem fyrir er.

Hæstv. atvinnumálaráðherra tók það fram, að hjer gæti verið um allmikla fjárhæð að ræða, en jeg hygg, að það sje einnig ljóst, að hjer er ekki um aðra fjárhæð að ræða en þá, sem gefin er í fjárlögunum. Auðvitað gæti komið fyrir, að auka fjárveitingar þyrfti. Segjum t. d., að veittar væru 10000 kr. til þessa eftirlits. Verið gæti náttúrlega, að svo vantaði eitthvað á kostnaðinn við það eftirlit, sem ráðist hefði verið í, og þá yrði að grípa til fjáraukalaga, til þess að bæta það upp. En auðvitað er, að skipa verður eftirlitsmennina í samræmi við fjárveitinguna, sem fyrir liggur, og væri því um enga hættu að ræða í því efni.

Um galla þá, sem á frv. kunna að vera, er það að segja, að þá má athuga til 3. umr., og vona jeg, að háttv. þingdm. láti frv. ganga svo langt, að það verði gert.

Háttv, 1. þm. Rang. (E. P.) lagði mjög á móti frv. og kvartaði undan því, ef þetta frv. ætti að vera grundvöllur undir sjerstöku tolleftirliti hjer á landi. En þótt frv. þetta sje ófullkomið, þá gæti það þó verið góð byrjun til þess að fá hugmynd um það, hvað hægt væri að gera hjer á landi um tolleftirlit, og mætti setja þetta í samband við skiftingu bæjarfógetaembættisins hjer í Reykjavík.

Þá spurði háttv. 1. þm. Rang. (E. P.) um. hver ætti að meta þá þörf, sem talað væri um í 1. gr. frv. Mjer finst það liggja í augum uppi, að stjórnin á að meta hana í samráði við hina ýmsu lögreglustjóra.

Hvað þann lið í fjárlögunum snertir, sem ætlaður er til líkra útgjalda og þetta, þá hygg jeg, að ekkert hafi verið gert hjer enn, er geti hamlað því, að gott samkomulag um þau atriði geti fengist við stjórnina.

Háttv. þm. (E. P.) sagði, að þetta frv. væri svo meingallað, að hann gæti ekki greitt því atkv. sitt. Jeg var nú ekki viss um, hvort hann ætlaði að meina því að ganga til 3. umr., en mjer finst hann geta, þrátt fyrir þau orð, sem bann hefir viðhaft um frv., greitt því atkv. að þessu sinni.

Vil jeg endurtaka þá ósk mína, að frv. fái að ganga til 3. umr.