10.09.1917
Efri deild: 52. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 743 í C-deild Alþingistíðinda. (3061)

189. mál, frestun á skólahaldi

Eggert Pálsson:

Jeg stend ekki upp af því, að mjer komi þetta mál fremur við en öðrum hv. þm. En jeg kann illa við, að svo líti út, sem enginn vilji kannast við faðerni að frv. þessu.

Frv. þetta er fram komið af tveim orsökum. Í fyrsta lagi af því, að mörgum þm. virtist, að til vandræða horfði með kol í landinu, og á hina hliðina þótti viðsjárvert að stefna fólkinu saman í skólakaupstaðina.

Um kolavandræðin er það að segja, að engin vissa var fyrir nema fáeinum tonnum í landinu, 1800, að því er mig minnir. En hins vegar mundi þurfa 8—10 þús. smálestir til hitunar í landinu. Mörgum þm. virtist valt að reisa skólahald á ekki meiri kolaforða, eigi síst er þess, væri gætt, að brýn þörf væri á kolum handa þjóðinni, til þess að hún króknaði ekki úr kulda. Þó að það sje í sjálfu sjer gott, að börn njóti hita í skólum, þá lifa þau samt ekki á þeim hita einum saman, ef kuldi og kröm kreistir heimilin. Auk þess er brýn nauðsyn að geta flutt matbjörg kringum landið. En nú er verslunarlaginu svo háttað, að allar vörur, sem til landsins koma, eru fluttar til einnar hafnar. En hvaða stoð er fólki úti um land að þessari matbjörg, ef engin kol eru til í landinu, til þess að flytja hana hafna millum? Vjer verðum að sjá einhver tök á því að geta flutt vörurnar hjeðan smám saman, eftir að þær koma hingað. Þar að auki er þess að gæta, að skipin, sem hjeðan fara til Vesturheims, þurfa altaf meira eða minna á kolum að halda. Án kola verður engin matbjörg flutt til landsins, nje í kringum strendur þess.

Þannig horfði málið við, og horfir við enn þá. En nú er sagt, að von sje á kolum. Vonin er að vísu góð, en hún er þó engin vissa. Þingmönnum fanst ekki rjett að byrja skólahaldið á sama grundvelli sem engin hætta væri á ferðum. Þeir litu svo á, að vissara væri að hafa vaðið fyrir neðan sig. Að vísu voru þeir ekki allir sammála um tímatakmarkið. Jeg legg ekki heldur neina áherslu á það. En þeim kom saman um, að það væri óðs manns æði að byrja skólahald með þessar kolabirgðir, svo sem ekkert hefði í skorist Sumir vildu fresta skólahaldi til 1. des., en hinir voru fleiri, sem vildu fresta því til 15. febrúar. Mjer finst það ekki neitt stórkostlegur skaði fyrir þjóðina, saman borið við margt annað, sem yfir hana gæti dunið á þessum tímum, þó að skólahald falli niður eitt ár. Það er að vísu gott og blessað að geta haldið skólunum áfram, en á þessum tímum er margt nauðsynlegra.

Hæstv. forsætisráðherra hjelt því fram, að hyggilegast mundi að byrja skólahaldið þegar í haust, en hætta því síðan þegar fram á liði, ef útlitið versnaði. Hann um það. En jeg get samt ekki fallist á þessa skoðun, Jeg álít hyggilegast að sjá fótum sínum forráð. Jeg tel ekki hyggilegt að byrja nú skólahald, svo sem ekkert sje um að vera, eyða þessum 1800 smálestum á skömmum tíma, og standa svo eftir með tvær hendur tómar, og verða þá að loka skólunum. Hyggilegra líst mjer að byrja heldur skólahaldið síðar, þegar sú von, sem nú er um kolaviðbót, er orðin að vissu.

En svo er því á hinn bóginn haldið fram, að ekki sje nauðsyn á að loka öllum skólum. Þessu má kasta fram. En þá spyr jeg, komast menn þá ekki í vandræði með að ráða fram úr undantekningunum? Jeg veit, að einhver ráð verða ef til vill til þess að halda Mentaskólanum og barnaskólanum opnum. En ef þessum skólum verður nú leyft að halda áfram starfsemi sinni, hvað á þá að gera ef aðrir skólar beiðast sömu undanþágunnar? Það er ranglátt að leyfa barnaskóla Reykjavíkur að halda kenslu áfram, en banna barnaskólanum í Hafnarfirði sömu starfsemi. Hafnarfjörður á engu síður börn en Reykjavík, og væri því ekki nema sjálfsagt að veita honum sömu heimildina til þess að koma sínum börnum til mentunar. Ef jeg ætli að ráða, vildi jeg ekki veita öðrum sömu heimildina sem jeg bannaði hinum.

Þá hefi jeg lýst því, hvað fyrir mjer og öðrum vakti, sem standa á bak við þetta frv. Jeg sje ekki ástæðu til að rekja einstakar greinar frv. Brtt. hafa engar verið gerðar við frv. En hins vegar skal jeg endurtaka það, áður en jeg lýk máli mínu, að álitamál getur verið um tímatakmarkið. Það gæti komið til mála að hafa það eitthvað styttra, eins og sumir aðstandendur frv. hafa hallast að. En jeg álít, að ef á að takmarka skólahaldið, þá sje rjettara að gera það framan af vetri heldur en seinni part vetrarins, þegar svo væri komið, að segja mætti, að fokið væri í öll skjól.