10.09.1917
Efri deild: 53. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 771 í C-deild Alþingistíðinda. (3075)

189. mál, frestun á skólahaldi

Forseti:

Mjer hefir borist eftirfarandi símskeyti, sem hv. þm. Ak. (M. K.) hefir verið sent. Hæstv. forsætisráðherra gat um þetta skeyti í ræðu sinni í dag, og vil jeg því, áður en það verður lagt fram á lestrarsal þingsins, lesa það upp.

Það er svo hljóðandi:

Hingað hefir borist símfregn, að Alþingi hefði meðferðis lagafrumvarp, er bannaði til 15. febr. í vetur alt skólahald, sem opinbers styrks nyti. Skólanefnd Akureyrar hefir löngu fastráðið að láta kenna alt skólaárið í öllum bekkjum barnaskólans, en nota til kenslunnar að eins 2 stofur, fækka kenslustofunum, námsgreinum og kennurunum. Hefti þingið þessar eða líkar ráðstafanir skólanefnda, er þær telja sjer fjárhagslega færar, lítum vjer svo á, að þingið geti það naumast, án þess að misbeita valdi sínu, og hafi slíkt gjörræði í frammi, að vjer teljum oss skylt að mótmæla því kröftuglega.

í skólanefnd Akureyrarkaupstaðar, 10/9 1917.

Geir Sæmundsson, Otto Tulinius, P. Pjetursson, Sigríður Jónsdóttir, Stefán Stefánsson.

Til Alþingis.