18.07.1917
Neðri deild: 13. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 819 í C-deild Alþingistíðinda. (3118)

70. mál, einkasala landssjóðs á kolum

Jörundur Brynjólfsson:

Jeg skal reyna að vera stuttorður. Bæði er pappír og prentun dýr, og svo hefir frsm. (G. Sv.) drepið á sumt, er jeg vildi sagt hafa. Jeg skal að eins í fám orðum svara hæstv. fjármálaráðh. (B. K.)

Hann sagði, að öðruvísi væri um kolasöluna en steinolíuverslunina. Til dæmis um það, hve frjáls kolaverslunin er, skal jeg geta þess, að stundum þegar einstakir menn hafa fengið hingað kolafarma, hefir „Kol og salt“ keypt þá af þeim. Einn daginn í fyrravor var kolaverðið lækkað úr 11 kr. í 10, og hjelst það verð í 3—4 daga; þá var símað til flestra efnamanna, höfðingja og kaupmanna, að nú væri heppilegast að birgja sig. Þegar almenningur vissi um þessa lækkun á kolaverðinu og ætlaði að fara að fá sjer kol, voru þau komin í 12 kr. hjá sama fjelagi. Þetta er nú frjálsa samkepnin, sem við höfum átt við að búa hjer við Faxaflóa.

Jeg get ekki slept að mótmæla nokkrum fleiri atriðum í ræðu hæstv. fjármálaráðh. (B.K.). Hann drap á, að eini grundvöllurinn, sem hægt væri að byggja þessa einkasölu á, sje sá, að hagsmunir útgerðarmanna væru vel trygðir. Jeg veit, að ekki má þrengja kosti þeirra, og hefi jeg enga tilhneigingu til þess, en þó er annað, sem ekki ætti að taka minna tillit til í þessu efni, en það eru hagsmunir almennings. Það væri ekki heppileg einkasala, ef 100—200 manns á landinu græddu á henni, en 80—90 þúsundir töpuðu.

Jeg skal stuttlega minnast á mótmæli útgerðarmanna. Jeg get vorkent þeim, eins og kolamálum þeirra er nú komið. En úr því að þeir hafa sent mótmæli, verður að minnast á þá. Jeg tek jafnmikið tillit til mótmæla þeirra og ef olíufjelagið færi að mótmæla einkasölu á steinolíu. Það eru einmitt hluthafarnir í „Kol og salt“, sem hjer hafa skrifað undir.

Hæstv. fjármálaráðh. (B. K.) kvað einkasölu annara ríkja mestmegnis taka yfir ýmiskonar óþarfa, t. d. tóbak. Þetta er ekki rjett. Jeg skal nefna nokkur ríki, sem hafa kolaverslun og kolagröft með höndum: Þýskaland, Austurríki, Ungverjaland, Svíþjóð, Rússland, Holland, Victoria, Nýja Sjáland o. fl. Reynslan hefir orðið sú, að bæði ríkjunum sjálfum og almenningi hefir verið stórgróði að versluninni. Jeg skal að eins nefna Victoriaríkið; það rekur kolanámur í stórum stíl. 1913 voru tekjur af námunum 212274 sterlpd. en gjöldin 170659 sterlpd ; hreinn ágóði því 41615 sterlpd. = 749070 kr. Fyrir þessa kolaverslun ríkisins lækkaði kolaverð mjög mikið, og þó að þessi ríki hafi ekki einkasölu á kolum, þá hafa sum þeirra einkasölu á brýnum nauðsynjavörum, svo sem olíu, salti o. fl. Jeg skal svo ekki fara lengra út í kolaverslun annara ríkja, en margt mætti benda á því til sönnunar, að það borgi sig fyrir þjóðfjelagið að reka þessa verslun.