31.07.1917
Neðri deild: 21. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 825 í C-deild Alþingistíðinda. (3127)

89. mál, forstaða verslunar landssjóðs

Forsætisráðherra (J. M.):

Hæstv. atvinnumálaráðherra er ekki viðstaddur sem stendur, en hann á hægast með að gera grein fyrir þessu máli. Jeg get með fáum orðum gert grein fyrir aðaldráttum málsins. Það var byrjað á undirbúningi undir ráðstafanir þær, sem nú eru komnar í framkvæmd, þegar fyrir þing. Nú er verslunarfyrirkomulagið þannig, að aðalráðstafanirnar heyra undir stjórnarráðið, en afgreiðsla öll og framkvæmdir eru lagðar undir atvinnumálaskrifstofuna. Það mun satt vera, að þetta hafi ekki verið komið ljóst fram, þegar tillagan var samin. En, eins og nú er komið, virðist hún eiga lítið erindi, og sama hvort hún er samþykt eða ekki, og jeg fyrir mitt leyti læt hana því afskiftalausa.