03.08.1917
Neðri deild: 24. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 860 í C-deild Alþingistíðinda. (3171)

53. mál, stimpilgjald

Fjármálaráðherra (B. K.):

Jeg er háttv. nefnd þakklátur fyrir það, hvað hún hefir bætt 7. grein frv. Jeg get algerlega fallist á breytingar hennar, þótt hún hafi ekki tekið tillit til bendingar minnar um framlengingarvíxlana. Jeg hefi það eitt að athuga við gerðir hennar, að jeg hefði kosið, að hún hefði gert framlengingarvíxla gjaldfrjálsa. En mjer finst þó ekki ástæða til að halda því atriði til streitu, fremur en háttv. frsm. (M. G.) gjaldskyldu sýningarvíxla. Það er nú eina atriðið, sem mjer og nefndinni ber á milli, að jeg vil, að víxlar, sem greiddir eru við sýningu, eða mjög fljótt eftir sýningu, sjeu undanþegnir stimpilgjaldi. Jeg hefi því komið fram með brtt. á þgskj. 263, sem gengur út á þetta. Jeg get ekki annað en borið þessa brtt. fram, þótt jeg geri hana ekki að verulegu kappsmáli. Því verður ekki neitað, að sýningarvíxlar eru í raun og veru borgun út í hönd, og því rjettmætt að setja þá á borð með tjekkum, eins og gert er í flestum öðrum löndum. Jeg er hræddur um, að þau lönd, sem skifti eiga við Ísland, kunni því illa, ef þungur skattur yrði lagður á þessa víxla. Það var ekki heldur alveg rjett athugað hjá háttv. frsm, (M. G.), að það væru efnamennirnir. Það eru oft og tíðum einmitt fátækir menn, sem ekki hafa lánstraust, og verða því að borga sína víxla strax. Annars held jeg þessu ekki til streitu. Vildi að eins benda háttv. deild á þetta, að erlendir viðskiftamenn kynnu að kunna því illa, ef gjald væri lagt á sýningarvíxla, og að það gæti komið nokkuð hart niður á fátækari kaupmenn. Meira hefi jeg ekki um þetta að segja.