04.07.1917
Neðri deild: 2. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 733 í B-deild Alþingistíðinda. (319)

8. mál, almennur ellistyrkur

Forsætisráðherra (J. M ):

Með því að atvinnumálaráðherrann er sem stendur bundinn í Ed., vil jeg leyfa mjer fyrir hans hönd að gera grein fyrir þessu frv., þótt jeg gæti látið mjer nægja að vísa til athugasemdanna við það.

Í þessu frv. er farið fram á litla hækkun á gjaldi hvers einstaks manns, svo að það verði hið sama og ætlast var til af landsstjórninni, er hún lagði hið upphaflega frv. til laganna fyrir Alþingi.

Eftir verkkaupi nú mætti gjaldið ef til vill vera enn hærra, án þess að ofþyngja nokkrum. Gjaldið er fært úr 1,50 kr. upp í 2 kr. fyrir karlmenn og úr 0,75 kr. upp í 1 kr. fyrir kvenmenn. Það, sem hjer munar mestu, er að landssjóðstillagið er tvöfaldað, svo að í stað 50 aur. kemur 1 kr. fyrir hvern mann gjaldskyldan. Jeg þykist geta sagt með vissu, að ellistyrktarsjóðurinn komi að miklum notum. Hjer í Reykjavík hefir hann verið mikils virði fyrir ellihruma fátæklinga, þótt styrkurinn sje lítill. Auðvitað verður hægt að úthluta miklu meiru fje árlega, ef frv. nær fram að ganga. Landssjóð munar auðvitað um 20 þús. kr., en þó ekki svo mikið, að vert sje að sýta það. Í stuttu máli, ef frv. nær fram að ganga, er bæði hægt að úthluta meiri styrk til fátækra gamalmenna, og sjóðurinn vex fljótar og getur því fyr orðið að verulegu gagni. Eftir 50—60 ár yrði sjóðurinn 5 milj. króna. Vona jeg, að háttv. deild taki frv. vel, og tel jeg rjett, að því verði vísað til allsherjarnefndar.