14.09.1917
Neðri deild: 60. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 954 í C-deild Alþingistíðinda. (3283)

160. mál, lántaka til að kaupa og hagnýta fossa

Frsm. (Gísli Sveinsson):

Það voru að eins örfá orð fyrir eigin reikning, en ekki nefndarinnar. Jeg vildi beina lítilli fyrirspurn til hæstv. landsstjórnar, ef hún vildi svo vel gera að svara. Það er öllum hjer í hv. deild vitanlegt, að á aukaþinginu í vetur kom fram þingsályktun frá mjer um, að stjórnin ljeti rannsaka eignarrjett landssjóðs til fossa og ýmsra annara verðmæta í landinu. Síðan þingsályktunin var gerð hefir komið hreyfing á fossamálin hjer í landi, og er það vel farið. Jeg vildi nú spyrja hæstv. forsætisráðherra, hvað sjerstaklega landsstjórnin hefir gert út af þessari till.

Jeg hefi ekki fundið ástæðu til að bera fram sjerstaka fyrirspurn, en ætlaði að koma henni að í þessu náskylda máli.