22.08.1917
Neðri deild: 40. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 970 í C-deild Alþingistíðinda. (3306)

56. mál, einkasala á sementi

Einar Jónsson:

Úr því að háttv. fjárhagsnefnd hefir komist að þeirri niðurstöðu, að rjett sje að fella frv., þá vil jeg ekki verða til þess að vekja þrætur um það. Hitt þykir mjer þó undarlegt, að nefndin skuli setja sig á móti því, sem sanngjarnt er og rjett að mínu áliti, því að með einkasölu þessarar vöru ætti að fást trygging fyrir betra verði og meiri gæðum. En nú hefir fjárhagsnefnd komist að þessari niðurstöðu, að taka að eins einkasölu á steinolíu í þetta sinn, en ef til vill, þegar ró er komin á og næði, mun mega búast við, að næst komi einkasala á kolum og síðan á sementi; með því að jeg býst nú við, að margir muni greiða atkvæði með áliti nefndarinnar, þá ætla jeg að gera mig rólegan með úrskurð hennar og taka hjer með frv. aftur, í þeirri föstu von, að einkasala á sementi verði heimiluð á næsta þingi og gagnið, sem af því mundi leiða, komi landi og alþjóð að gagni sem allra fyrst. Þetta er eitt af þeim málum, sem ekki þola bið. Hefi jeg áður fært ástæður fyrir því.