10.08.1917
Neðri deild: 30. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 984 í C-deild Alþingistíðinda. (3336)

98. mál, forkaupsréttur landssjóðs á jörðum

Benedikt Sveinsson:

Jeg felst á það, sem háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) sagði, að einlægast væri að hafa ein lög um forkaupsrjett jarða, en eigi þrenn.

Það er hið sama að segja um þetta frv. eins og um frv. um forkaupsrjett leiguliða, að það er ekki vel frá því gengið; þó hefir það tekið bótum í höndum háttv. nefndar, jafnvel þótt hún hafi gengið fram hjá ýmsu, sem betur þyrfti að athuga. Í 1. gr. stendur t. d., að landssjóður skuli jafnan hafa forkaupsrjett að jörð, sem er til sölu, og hvorki viðtakandi hennar nje hlutaðeigandi sveitarfjelag vill nota forkaupsrjett sinn. Hjer á að leggja sömu höftin á viðskiftafrelsi manna sem í frv. um forkaupsrjett leiguliða. Það getur verið hart fyrir mann, sem vill kaupa jörð, að mega ekki eignast hana, ef hag hans er svo farið, að hann getur ekki tekið jörðina til ábúðar þegar í stað.

Ákvæðið um kostnað, er leiðir af kaupunum, í 2. brtt. við aðra grein, er óljóst, og sjest ekki af því, hvort sölulaun eru fólgin í þeim kostnaði af kaupunum, sem mælt er fyrir að landssjóður skuli greiða.

Svo hefir nefndin tekið upp setningu, með orðabreytingu úr upphaflega frv. Þar stendur: „Seljanda er þó heimilt að selja öðrum, ef landsstjórnin vill ekki sinna því verði, sem boðist befir fyrir jörðina“. Í frv. er ekki gert ráð fyrir forkaupsrjetti landssjóðs fyrir lægra verð en aðrir bjóða í jörðina, og er því þessi setning óþörf.

Í 3. gr. stendur, að ef áður seldar þjóðjarðir eða kirkjujarðir eru keyptar, skuli kaupverðið greitt úr sjóðum þeim, sem andvirði jarðanna hefir áður runnið í. Hjer er það að athuga, að ekki er víst, að fje þeirra sjóða sje fyrir hendi. Það getur staðið í lánum, og verður þá að taka kaupverðið annarsstaðar. Þar að auki eru sjóðirnir ekki stórir, en jarðirnar hækka í verði, og mætti því búast við, að sjóðirnir yrðu brátt þurausnir, og þá þyrfti að verja öðru fje til jarðakaupanna. Hygg jeg því, að þessu ákvæði væri best að sleppa.

Þá er till. nefndarinnar um nýja 5. gr. Hvort það er nægileg trygging fyrir, að ekki verði farið í kringum þessi lög, að hreppstjórar sjeu skyldaðir til að hafa eftirlit með því, að fyrirmælum 1. gr. sje hlýtt, skal jeg ekki fara út í. En jeg er hræddur um, að ef frv. þetta verður að lögum, muni verða reynt að fara í kringum þau, og ekki síst vegna þess, að þau mundu hefta sölu og tefja, og gera mönnum ómögulegt að fá keypta jörð, nema þeir geti tekið við henni þegar til ábúðar. — Þykir mjer það undarlegt, að bændur hjer á þingi skuli gerast svo meinsamir, að girða fyrir það, að tvítugur bóndason geti sætt kaupum á jörð, að eins fyrir þann agnúa, að hann getur ekki sett þar bú þegar á næsta ári. En það getur þráfaldlega staðið svo á, að menn vilji eignast jörð og ætli sjer hana til ábúðar í framtíðinni, þótt þeir sjeu óviðbúnir að setjast á hana í næstu fardögum eftir að kaupin fara fram. Það er brýn nauðsyn að laga þennan stórgalla frv.

Yfir höfuð hygg jeg, að hefting sú á frjálsum viðskiftum, sem hjer kemur fram, eins og í ýmsum öðrum frv„ er þingið hefir nú til meðferðar, leiði af sjer ilt eitt. Auðsætt er það, að eignir hljóta að falla í verði, ef þetta verður að lögum. Seljandi getur ekki sint hæsta boði, ef það kemur frá manni, sem getur ekki flust á jörðina í næstu fardögum, og verður að láta hana gegn lægra verði. Auk þess verður hann að bíða alllengi eftir því að vita, hvort landssjóður ætlar að nota forkaupsrjettinn, og það getur orðið honum bagalegt.

Jeg geri því ráð fyrir, að háttv. flutningsmenn taki mál þetta út af dagskrá og nefndin athugi það betur.