04.08.1917
Neðri deild: 25. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1047 í C-deild Alþingistíðinda. (3425)

58. mál, ritsíma- og talsímakerfi

Frsm. (Þórarinn Jónsson):

Því er við að búast, að hv. þm. komi það undarlega fyrir, að jeg skuli hafa snúist svo við í þessu máli. En það vakti fyrir mjer, að fyrst og fremst bæri að líta á hag landssjóðs, þó svo, að ekki yrðu símalagningar alveg teptar yfirleitt. Nú segir landssímastjórinn, að tekjur landssímans muni ekki verða eins miklar í framtíðinni og þær voru áður, með því að nauðsynlegt sje að endurnýja staurana og línurnar, og gera miklu meiri endurbætur en áður hefir þurft, en meðan símakerfið er ekki í því lagi, að það komi að fullum notum, þá verði annað að bíða þessara endurbóta. Þetta verða hv. andmælendur að viðurkenna. Það er ekki rjett að spyrna á móti því, að landssjóður geti haft sem mestar tekjur, og símakerfið verði þannig úr garði gert, að það komi að fullum notum.

Jeg veit, að hv. þm V.-Ísf. (M. Ó.) og hv. þm. Stranda. (M. P.) eru svo sanngjarnir menn, að þeir muni líta á það, að með þessari breytingu, sem frv. fer fram á, er ekki að eins lagður á landssjóð rekstrarkostnaður stöðvanna, eins og hann hefir verið, heldur hlýtur hann að hækka töluvert, því að einmitt það, að sveitirnar hafa kostað stöðvarnar, hefir valdið því, að þær hafa haldið rekstrarkostnaðinum niðri. Þetta skiftir mjög miklu máli.

Jeg heyrði því miður ekki sumt af því, sem hv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) sagði, en það gerir ekki svo mikið til, því að aðalástæða hans og hv. þm. Stranda. (M. P.) er það ranglæti, sem átt hefir sjer stað um kostnað við rekstur stöðvanna og nefndin einnig viðurkennir, en vill þó ekki leggja til að afnema, til þess að ekki verði framið enn þá meira ranglæti, en símastjórnin hins vegar lýst yfir því, að hún ætli að taka að sjer rekstur stöðvanna smám saman. Auðvitað lítur hún á þetta með sínum augum, og tekur ef til vill eina stöð fram yfir aðra, en símastjórnin eru nú þessu máli einu sinni kunnugust, og ekki líkur til þess, að hún beiti ranglæti í þessu efni.

Það kvað nokkuð við annan tón hjá hv. 1. þm. S. M. (Sv. Ó.); honum þótti jafnvel fulllangt gengið í till. nefndarinnar. Jeg held, að hann hafi sett fullhátt kostnaðinn við stöðvarnar. Jeg þekki ekki til þess að minsta kosti, að kostnaður fari fram úr 75 kr., en er venjulega um 50 kr., enda liggur þetta í hlutarins eðli, að sveitarfjelögin setja stöðvarnar á þann stað, sem mest er óskað eftir þeim, og því minst gjald tekið fyrir að sinna þeim, en það gjald mundi vera sett hærra, ef landssjóður ætti í hlut. Þess vegna er ekki um líkt því svipaðan kostnað að ræða og hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó. ) nefndi.

Það, sem sami hv. þm. (Sv. Ó.) sagði um samninga milli landssímans og sveitanna, er alveg rjett. Slíka samninga er engan veginn girt fyrir, og mundu þeir helst eiga sjer stað hjá afskektum sveitum, sem hafa sterkan áhuga á að fá síma, en landssíminn hins vegar getur ekki vænst mikilla tekna af.

Hv. þm. Stranda. (M. P.) sagði, að hjer væri um sveitargjald að ræða, sem sje rekstrarkostnað sveitanna við stöðvarnar. Þetta er ekki alveg rjett, því að þótt sveitirnar jafni niður þessum kostnaði, þá er á það að líta, að þær hafa lagt í þennan kostnað með það fyrir augum, að gagn yrði að, og hið óbeina gagn getur verið margfalt meira en gjaldinu nemur. En menn hafa þá ekki mikla trú á símanum, ef menn sjá ekki, að hinn óbeini hagnaður er svo miklu meiri en kostnaðurinn.

Það er auðvitað alveg rjett, að hjer er ekki um samræmi að ræða, en eftir till. nefndarinnar og yfirlýsingu símastjórnarinnar má þó vænta þessa samræmis smám saman.

Jeg skal að endingu að eins geta þess, að minst var á það í nefndinni, hvort ekki væri rjett, að landssjóður tæki þegar að sjer allar 1. flokks stöðvar B, að öllu leyti, en frá því var horfið aftur.