08.08.1917
Neðri deild: 28. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1058 í C-deild Alþingistíðinda. (3436)

58. mál, ritsíma- og talsímakerfi

Frsm. (Þórarinn Jónsson):

Nefndin í máli þessu hefir athugað brtt. á þgskj. 315 sem háttv. þm. Stranda. (M. P.) talaði um, og hún játar það, að till. gengur í þá átt, sem nefndin vill að stefnt sje, þá átt, að landssjóður borgi meira af starfrækslukostnaði símastöðva en hann hefir gert hingað til. Þó hefir nefndin dálítið að athuga við tillöguna. Hún er hrædd um, að ef till. yrði samþykt, mundi það hamla því, að nýjar 3. flokks stöðvar yrðu reistar. Þær hafa altaf verið mestur þyrnir í augum símastjórnarinnar, og mundi henni þykja berast tækifæri upp í hendur að fara sjer hægt í að koma upp nýjum 3. flokks stöðvum, þegar sú kvöð er lögð á hana að kosta að allmiklu leyti rekstur þeirra. Hins vegar verður því ekki neitað, að mikið gagn er að stöðvum þessum, og því varhugavert fyrir þingið að gera nokkrar þær ráðstafanir, sem búast má við að tefji fyrir fjölgun þeirra, eða jafnvel taki fyrir hana með öllu. Nefndin telur það því mikið álitamál, að rjett sje að ganga að brtt. háttv. þm. Stranda. (M. P.); hitt muni vera rjettara að stiga sporið smærra að þessu sinni, og að hagfeldara muni vera fyrir alla málsaðilja að halda smáum skrefum að því marki, að landssjóður taki að sjer starfrækslu allra símstöðva í landinu. Samgöngumálanefnd Ed. er líka á þeirri skoðun, og það hefur styrkt nefndina í því, að rjettara muni að halda við till. hennar en hafna brtt. á þgskj. 315. Það er satt, sem háttv. þm. Stranda. (M. P.) sagði, að till. þær, sem nefndin og hann flytja, eigi að vera sterk bending til landsstjórnarinnar um það, hverja stefnu þingið vilji að hún taki í málinu, enda er sá aðaltilgangur okkar, sem óánægðir erum með það misrjetti, sem okkur finst ýmsir hafa verið beittir í símamálinu, þótt við hins vegar teljum ekki ráðlegt að fara lengra í áttina til að afnema misrjetti þetta en nefndin hefir farið, einkum þar sem landssímastjórinn hefir játað, að misrjetti þetta ætti sjer stað, því að fyrst að svo er, má vænta þess, að hann stuðli að því, að það hverfi svo fljótt, sem honum finnast nokkur tiltök til þess.

Þá er ekki heldur örgrant um það, að tekið yrði af stöðvunum eða sveitunum 5 aura gjald það, sem þær hafa hingað til fengið af símatekjunum til starfrækslunnar, og það því fremur, því meira sem landssjóði er ætlað að bera af rekstrarkostnaði stöðvanna.