11.08.1917
Neðri deild: 31. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1229 í C-deild Alþingistíðinda. (3608)

152. mál, landsspítalamálið

Forsætisráðherra (J.M.):

Jeg get auðvitað ekkert um það sagt, hvort þeir menn, sem eru hvatamenn að þessari till., sjeu þeir menn, sem mestan áhuga hafa á þessu máli, eins og hv. frsm. (M.P.) komst að orði. En hitt veit jeg, að tillaga stjórnarinnar er fram komin eftir ósk Háskólans. Það er alveg rjett, að fjárveiting stjórnarinnar er sett alveg út í loftið; upphæðin var ekki nefnd í tillögum Háskólans, en eftir umtali við þann mann, sem mestan þátt átti í því, að málinu var hreyft, setti stjórnin þessa upphæð, 5.000 kr.

Eins og hv. frsm. (M.P.) tók fram þarf að rannsaka spítalastæði o. s. frv. En auk þess þarf að rannsaka fyrirkomulag á spítölum erlendis, og ef það á að vera til nokkurrar hlítar, þá hrökkva 500 kr. skamt; jafnvel ekki til lauslegs undirbúnings mundu þessar 500 kr. nægja.

Jeg þykist vita, að hv. nefnd hafi talað við þá menn, sem hún telur líklegasta til að skipa fyrirhugaða nefnd, og að þeir hafi sagst mundu takast starfið á hendur endurgjaldslaust, en þá væri rjettast, að þingið útnefndi þá. Jeg held, að hjer sje um afarmikið starf að ræða, enda ætlast nefndin til, að undirbúningurinn standi yfir í 4 ár, en þá er jeg líka hræddur um, að ekki sje rjett að heimta það, að það sje gert fyrir ekki neitt. En ef það er víst, að menn vilji taka þetta að sjer kauplaust, þá er rjett, að þingið nú nefni til mennina, þótt jeg efist um, að menn fáist til þess fyrir ekkert, og mjer þyki jafnvel rangt af þinginu að ætlast til þess. Það er ekki vant að heimta af mönnum slík störf kauplaust, og hjer er ekki meiri ástæða til þess en ella. Þess vegna þykir mjer rjettast að ætla nefndinni þóknun, og getur þingið, ef vill, fastákveðið upphæðina, ef það er hrætt um, að ella gangi ofmikið fje til þessa.

Jeg sje ekki, að þau rök sjeu fyrir hendi, að samþykkja beri till., eins og hún liggur fyrir, nema því að eins, að nefndarmenn hafi verið ákveðnir fyrirfram. Það gefur að skilja, að stjórnin getur ekki skipað mönnum að vinna kauplaust í nefndinni, nema þeir hafi lýst yfir því, að þeir muni gera það.