24.07.1917
Sameinað þing: 2. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2329 í B-deild Alþingistíðinda. (3729)

Fráfall Skúla S. Thoroddsens, alþm.

Forseti:

Jeg hefi beðið háttv. þm. um að koma saman á þennan fund í tilefni af því, að jeg hefi þá sorgarfregn að flytja Alþingi, að alþingismaður Skúli Thoroddsen er látinn. Hann ljest í nótt, kl. 12 á miðnætti.

Hann var fæddur 24. mars 1890, sonur Skúla heitins Thoroddsens, alþingismanns. Hann tók stúdentspróf við lærða skólann 1908, heimspekipróf við Kaupmannahafnarháskóla 1909 og lauk embættisprófi í lögum við Háskóla Íslands árið 1914, og hefir verið yfirdómslögmaður síðan árið 1915.

Hann var kosinn á Alþing í kjördæmi föður síns við síðustu kosningar og sat því nú í annað sinni á þingi. Hann var yngstur allra þingmanna og hefir yngstur maður hlotið þingmannskosning hjer á landi.

Hann var efnismaður, og þótt lítt væri enn reyndur, bar sú reynsla þess vott, að hann mundi feta í fótspor föður síns og fyrirrennara um staðfestu og ættjarðarást og verða þjóðnýtur maður.

Vjer viljum allir biðja guð að blessa minningu þessa unga starfsbróður vors.

(Þingmenn tóku undir orð forseta með því að standa upp.)

Jeg vil láta þess getið, að oss forsetum hefir komið saman um, og væntum, að það sje með allra samþykki, að Alþingi kosti útför þessa þingmanns.

(Þingmenn guldu jákvæði sitt með því að standa upp.)

Deildarforsetar hafa beðið mig að geta þess, að þingfundir falli niður í dag, en verði haldnir á morgun með sömu dagskrám og í dag.