23.08.1917
Neðri deild: 41. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 127 í B-deild Alþingistíðinda. (3784)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Atvinnumálaráðherra (S. J.):

Það eru ekki mörg atriði í þessum kafla fjárlaganna, sem ná til þeirrar deildar í stjórnarráðinu, sem jeg er einkum bundinn við. Það eru að eins póstmálin og vegamálin, sem heyra þar undir.

Fjármálaráðherrann (B. K.) hefir þegar getið þess, að stjórnin hafi stigið á fremsta hlunn með fjárveitingar til póstmálanna, og lagt til, að til þeirra yrði veitt það mesta, sem hún gat gert sjer von um, að þingið mundi vilja samþykkja. Það þykist jeg og vita, að þegar háttv. nefnd ber saman tillögur póstmeistara og fjárveitinguna til póstmála á núgildandi fjárlögum, þá muni hún sjá og kannast við, að hjer er um óvenjulega hækkun að ræða á einu fjárhagstímabili. Ekki virðist nefndin þó yfirleitt hafa farið eftir tillögum forstöðumanna hinna stærri stofnana landsins, svo sem símastjóra og vitamálastjóra. Ef fjárveitinganefnd tæki þá stefnu, að fara að mestu eftir tillögum þessara manna, þá ætti það eftirleiðis að geta verið bending fyrir stjórnina. En varla verður hægt að sjá, að þetta hafi vakað fyrir nefndinni að þessu sinni.

Þótt jeg taki það fram, að hækkun á launum póstmanna ætti að verða meiri en venja hefir verið til, ef farið er eftir tillögum háttv. nefndar, segi jeg þar með engan veginn, að hún sje ofmikil, en stjórnin leit svo á, að við það mætti una að sinni, sem hún lagði til, einkum með hliðsjón af dýrtíðaruppbót þeirri, sem þessir menn fá, eins og aðrir, og víst er um það, að ýmsir aðrir starfsmenn þjóðarinnar eru ekki betur settir en þessir menn.

Um vegamálin get jeg í flestu verið nálægt skoðun háttv. nefndar, sjerstaklega af því, að hún fylgir þeirri skoðun, sem nú er með rjettu alment ríkjandi, þeirri skoðun, að þingi og stjórn beri á þessum tímum að stuðla af fremsta megni að því, að sem flestir geti haft atvinnu, og að þessu stefna tillögur hv. nefndar yfirleitt. Ef vegamálin eiga að komast í gott horf, má ekki gleyma að hlynna að sýsluvegunum; hjeruðin sýna það best með tillögum sínum til þessara vega, hve ant þeim er um að fá þá og hve nauðsynlega þau telja þá.

Það er eitt orð hjá háttv. nefnd, sem jeg vil vekja athygli á; hún vill breyta nafni landsverkfræðingsins og nefna hann vegamálastjóra. Mjer er kunnugt um, að ýmsir vilja fá greind sem mest í sundur störf verkfræðinganna, vilja fá sjerstakan vitamálastjóra, eins og þegar er að miklu leyti orðið; einnig sjerstakan mann til að sjá um hafnargerðir og standa fyrir þeim málum, sem þær snerta. Þetta getur nú alt verið eðlilegt. En jeg bið menn að gæta þess, að hingað til hefir landsverkfræðingurinn haft fleiri störfum að gegna fyrir stjórnina en þeim, sem talist geta til vegamála; og nú þessa dagana er landsverkfræðingurinn að vinna eitt slíkt verk fyrir landsstjórnina. Gæti þessi breyting á nafninu leitt til þess, að hann legði þann skilning í það, að á sjer hvíldi ekki skylda að vinna að öðrum verkfræðingsstörfum fyrir stjórnina en þeim, sem heyra vegamálunum til.

Háttv. þm. S.-Þ. (P. J.) sagði, eins og rjett er, að fjárlaganefndir hefðu að undanförnu heldur viljað klípa af en hitt, en mjer skildist á orðum hans, að nú hefði fjárveitinganefndin tekið upp nýja reglu; nú hafi hún viljað fara vægilega í þær sakir og áætla útgjöld heldur ríflega. Verður við það skiljanlegri sá mismunur, sem er á áætlunum háttv. nefndar og áætlunum stjórnarinnar, í fjárlagafrv. hennar. Jeg segi ekki, að þetta sje lakari regla en sú, sem fylgt hefir verið, heldur tel jeg það einmitt heppilegra, að útgjöldin fari ekki mikið fram úr áætlun, þegar öll kurl koma til grafar.

Jeg ætla ekki að blanda inn í þær umræður, hvernig eigi að skilja 1. gr. í nál. háttv. fjárveitinganefndar, en jeg held þó, eftir því sem við alþýðumennirnir erum vanir að lesa og skilja, geti jeg ekki annað en hallast heldur að skilningi hæstv. forsætisráðherra en skýringu þeirri, er háttv. þm. S.-Þ. (P. J.) vildi gefa á orðalagi hennar. Það er sagt í nál., að sú aðferð, er stjórnin hefir, sje ekki til annars en að villa mönnum sýn, og þetta stendur í næstu setningu eftir að nefndin hefir sagt, hvernig hún lítur á, að stjórnin hafi skilað þessu úr hendi sjer. Jeg hygg, að menn alment muni skilja þessi orð á sama hátt og jeg. Háttv. fjárveitinganefnd getur náttúrlega verið í sínum góða rjetti, en mjer finst þetta vera óþarflega harðlega orðað og einkennilegt, ef nú á að fara að draga hjer fjöður yfir.