05.07.1917
Neðri deild: 3. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 826 í B-deild Alþingistíðinda. (415)

16. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis- og sýslumönnum landssjóðs

Jörundur Brynjólfsson:

Það kann að sýnast svo, sem að það sje ekki óeðlilegt, að stjórnin hefir lagt þetta frv. fyrir þingið, með því að kunnugt er, að verðfall peninga hefir stórum aukist í seinni tíð. En, eins og frv. liggur fyrir, getur það ekki talist rjettmætt, að það nái fram að ganga. Á síðasta þingi vanst ekki tími til þess að athuga málið, og því urðu málalokin þau, sem þau urðu. Ef undirbúningurinn hefði verið nægur, mundu úrslitin aldrei hafa orðið þessi. Nú leggur stjórnin fram frv. eftir sama mælikvarða. Nú er það játað, að hjer er um dýrtíðarhjálp að ræða, en fyrst að hjer er ekki beinlínis um uppbót á verðfalli peninga, án tillits til launahæðar viðkomanda, að ræða, þá hefði mælikvarðinn átt að vera sá, að veita fyrst þeim, sem þörf er á. Dýrtíðaruppbótin á síðasta vetri reyndist rúmlega 400 þús. kr., en þegar málið var á ferðinni á þinginu í vetur, var því haldið fram, að uppbótin mundi nema um 200 þús. kr. Ekki svo að skilja, að jeg sje beinlínis að ávíta fjárveitinganefnd fyrir þetta; henni verður má ske, eftir atvikum, ekki kent um, þótt bygt hafi verið á lauslegum áætlunum og óvarlega farið með fje landsins. Stjórninni hefir að vonum þótt þetta nokkuð mikill útgjaldaauki, og hefir nú reynt að draga saman seglin. Það er ekki nema eðlilegt, að reynt sje að skera við neglur sjer, eftir því sem hægt er. En jeg verð að líta svo á, að aðferðin sje óheppileg; það er lagt til sparnaðar þar, sem síst skyldi. Heilar stjettir manna eru teknar út úr, og þar á meðal þeir, sem lægst laun hafa. Ef á annað borð á að fara að skera við neglur sjer, þá ætti það helst að gera á þeim, sem geta bjargað sjer sjálfir. Það á við hjer sem annarsstaðar, að nauðsyn ber til að spara á þessum ófriðartímum, og þá er helst að spara við þá, sem einhvers eru megnugir. Efnamennirnir þurfa síst hjálpar við. Hálaunaðir embættismenn þurfa þessarar hjálpar síður en aðrir. Ef hjer væri um uppbót verðfalls að ræða, þá nær uppbótin mikils til ofskamt, því að verðfall peninga nemur orðið miklu meiru en þessi uppbót, sem stjórnin fer fram á. Hjer er því að eins um hjálp að ræða. Jeg get játað það, að lífsþarfir hinna lægra launuðu sjeu ef til vill minni en hinna, en ef litið er til þess, hvernig eigi að bjarga mönnum, þá verður að miða við minstu þarfirnar, hvað þurfi til þess að geta dregið fram lífið.

Jeg hefi þegar flutt frv. um að bæta verðfall alment, og jeg hefði óskað að geta gefið þar bendingar um, hvernig það yrði bætt þar, sem þörfin er mest. Hjer er ætlast til þess, að landssjóður greiði starfsmönnum sínum uppbót, en bæjar- og sýslufjelög sínum mönnum, en þegar ástandið er orðið svo, að allur almenningur getur ekki bjargað sjer, þá þrýtur bæjarfjelögin og sýslufjelögin, og þá er ekki annað að venda en í landssjóð.

Það var bent á það á síðasta þingi, að óþarft væri að greiða uppbót þeim, sem framleiðslu hafa, t. d. prestum, sem hafa bú, og margir eru stórríkir menn. Það sjá líka allir, hvílík fjarstæða slíkt er, borið saman við menn, sem hafa lág laun og lifa á handafla sínum.

Það hefir komið fram till. um að vísa frv. til fjárveitinganefndar; það er vitanlegt, að málið kemur mikið við þá nefnd, en nú liggur fyrir till. um skipun bjargráðanefndar, sem jeg tel víst að verði samþykt; undir hana eiga að heyra dýrtíðarmál, og virðist mjer þá þetta mál einnig mega teljast þar til. En með því að sú nefnd er ekki enn til, þá geri jeg það að tillögu minni, að frv. verði tekið út af dagskrá eða frestað umræðunni, þangað til þessi nefnd er komin á laggirnar.