05.07.1917
Efri deild: 3. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1072 í B-deild Alþingistíðinda. (689)

12. mál, vegir

Atvinnumálaráðherra (S. J.):

Þetta frv. er ekki fyrirferðarmikið, hvorki sjálft nje greinargerðin, sem því fylgir, en hún er þó nokkuð ítarleg.

Frv. fer fram á tvær breytingar; önnur breytingin snertir flutningabraut í Húnavatnssýslu, en hin breytingin er breyting á þjóðveginum þar.

Ástæðan til þess, að farið er fram á fyrri breytinguna, er eiginlega sú, að hjer um bil samtímis, sem ákveðið var að hafa flutningabraut um Húnavatnssýslu á tilteknu svæði, þá var sýslufjelaginu skift í tvent, og eftir að ákvæðið var komið um, hvar flutningabrautin skyldi liggja, þá átti hún nær því alveg að liggja um austurhluta sýslunnar.

Í þessu frv. er farið fram á, að nokkur kafli flutningabrautarinnar liggi vestar, en verði ekki eins langur.

En viðvíkjandi breytingu á þjóðveginum, þá stendur sú breyting að nokkru leyti í sambandi við þetta.

Þessi nýi vegur verður lítið eitt lengri en gamli vegurinn, og hann getur staðið í sambandi við flutningabrautirnar. En aðalkosturinn við þessa breytingu er sá, að á nýja veginum er um miklu minni bratta að ræða heldur en á þeim gamla.

Um þetta mál, sjerstaklega færslu þjóðvegarins, hefir verið allmikið skrafað og ritað. Sýslunefnd Vestur-Húnavatnssýslu hefir haft málið til meðferðar, og hefir meiri hluti hennar fallist á þessa færslu vegarins, og landsverkfræðingurinn hefir ítarlega rannsakað það. Í stjórnarráðinu er hægt að fá rækilegar upplýsingar um málið.

Það var að vísu svo, að ekki var ágreiningslaust um færslu þjóðvegarins hjá Húnvetningum, en það atriði getur væntanleg nefnd athugað.

Jeg óska því, að frv. þetta nái fram að ganga, og að því, að lokinni þessari umr., verði vísað til samgöngumálanefndar.