07.08.1917
Efri deild: 24. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1110 í B-deild Alþingistíðinda. (738)

17. mál, slysatrygging sjómanna

Kristinn Daníelsson:

Jeg skal vera mjög stuttorður í þessu máli, og ætla jeg ekki að fara neitt út í þá stefnubreytingu, sem sagt er að nefndin hafi tekið með þetta frv. En jeg ætla að eins að lýsa yfir því, að jeg er samnefndarmanni mínum, háttv. þm. Ak. (M K.), sammála. Og jeg fæ ekki sjeð, að þessar brtt., sem nefndin hefir gert við frv., sjeu neitt sjerstaklega ægilegar, Menn hafa sjerstaklega gert ættmannarjettinn að umtalsefni, en jeg verð að lýsa yfir því, að mjer er það talsvert kappsmál, að það atriði verði ekki látið standa, eins og ákveðið er í frv. Jeg get ekki með nokkru móti felt mig við, að skaðabætur til foreldra sjeu bundnar því skilyrði, að þau hafi verið á framfæri hins látna manns. Mjer stendur það fyrir minni, er bátur fórst á Dýrafirði fyrir nokkrum árum, og druknaði þar meðal annara ungur maður, sem var yndi og eftirlæti foreldra sinna. Foreldrarnir voru farnir að eldast, en höfðu þó haft ofan af fyrir sjer til þessa dags, og áttu aðalstoð í þessum syni sínum, þótt ekki gæti talist, að þau væru á framfæri hans. Þessir foreldrar hefðu engar bætur fengið samkvæmt þessu frv.

Sama er að segja um það órjettlæti, að systkin skuli ekki fá bætur hvort fyrir annað. Jeg get minst á dæmi það, er 17 ára drengur fórst suður í Garðsjó fyrir nokkru. Hann átti enga að nema systur sína og fóstru, og var nú kominn á þann aldur, að hann var farinn að hjálpa þeim. Þessi systir hefði heldur ekkert fengið eftir bróður sinn samkvæmt frv.

Þessi dæmi, sem mjer er kunnugt um, hafa valdið því, að jeg verð að vera samdóma meðnefndarmönnum mínum í því, að rjett sje að færa skaðabótaákvæði frv. út. Hins vegar má geta þess, að þau tilfelli eru ekki mörg, að menn láti eftir sig systkin, en ekki foreldra, svo að jeg held, að þetta síðara atriði, sem jeg hefi drepið á, muni naumast geta skift miklu máli fyrir tryggingarsjóðinn.