27.08.1917
Neðri deild: 44. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1122 í B-deild Alþingistíðinda. (753)

17. mál, slysatrygging sjómanna

Jörundur Brynjólfsson:

Okkur kom saman um það, 4 mönnum í sjávarútvegsnefndinni, að bera fram þessa brtt., sem háttv. samnefndarmaður okkar, háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.), telur að muni verða að svo litlu liði, og færir það sem ástæðu fyrir áliti sínu, að menn muni fara á sjó ótrygðir eftir sem áður. Við skulum nú gera ráð fyrir, að þetta fari eins og háttv. þm. (M. Ó.) heldur. En það væri þó unnið við breytinguna, að útgerðin bæri þá ábyrgð á mönnunum, ef illa færi. Háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) gat þess, að breytingin gæti orðið til þess, að 2 menn yrði að borga út, í staðinn fyrir einn. Þetta getur auðvitað komið fyrir, en jeg skil ekki í, að hv. þm. (M. Ó.) sje á móti því, að eftirlátnum vandamönnum verði að ofurlitlu leyti bætt það tjón, er þeir verða fyrir með missi þeirra, sem slasast eða farast. Það má líka gera ráð fyrir því, að margir mundu, af þessum orsökum, borga í sjóðinn, sem ekkert yrði að, og er því alveg vansjeð, hvort sjóðurinn mundi tapa eða græða á breytingunni, og vonandi græðir hann á þessari breytingu. En hvort sem heldur er, þá álít jeg þinginu skylt að sjá um það á einhvern hátt, að menn fari ekki ótrygðir á sjóinn, svo að eftirkomendurnir eigi ekki á hættu að missa fyrirvinnuna algerlega bótalaust, og standa svo uppi allslausir.

Jeg skal játa það, að mjer þótti sumt í frv. ekki vera fullnægjandi, en jeg vildi þó ekki gera ágreiningsákvæði, til þess að stofna ekki öllu málinu í hættu.

Háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) talaði um, að sjómennirnir ættu líkt á hættu og útgerðarmennirnir og bæru líka líkt frá borði. Þetta er nú ekki nema að nokkru leyti rjett. Á bátum eru sjómennirnir venjulega ráðnir upp á hlut, og bera því oft nokkuð líkt frá borði og báteigandinn. En á stærri skipum bera útgerðarmennirnir miklu meira frá borði, og því til sönnunar skal jeg geta þess, að árið 1914 græddi eitt útgerðarfjelag 60 þús. kr. á hluta hásetanna einum saman. Þetta var nú eitt þilskipaútgerðarfjelagið, en um togarana er það að segja, að þar fá útgerðarmennirnir að kalla allan gróðann, því að þar er kaup hásetanna mjög lágt. Jeg lít svo á, að rjettast væri, að útgerðarmennirnir, og landssjóður má ske að einhverju leyti, greiddu alt vátryggingargjaldið, en hásetarnir ekki neitt, en jeg vildi ekki stofna frv. í voða með því að bera fram þá breytingu.

Háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) var á móti því, að landssjóður greiddi hluta af vátryggingargjaldinu. Jeg er þar alveg á öfugri skoðun; jeg álít landssjóði skylt að hlaupa þar undir baggann, því að það ætti að vera hans hagur að tryggja líf manna með því að sjá sæmilega fyrir eftirkomendunum.

Háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) sagði, að líkt væri um það, sem útgerðarmenn og hásetar ættu á hættu við sjávarútveginn. Útgerðarmenn legðu í hættu skip og veiðarfæri, en hásetarnir að eins sjálfa sig. Já, þeir leggja líf og heilsu í hættu, og ef til vill umsjá fyrir konu og börnum. Er það nú ekki nóg? Ættu þeir má ske í ofanálag að leggja með sjer fje? Mig undrar það, að hv. þm. (M. Ó.) skuli leggja þetta að jöfnu.

Jeg skal ekki deila frekar um þetta við háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.), en mannslífið met jeg meira en allmikið verðmæti dauðra hluta.