14.08.1917
Neðri deild: 33. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1150 í B-deild Alþingistíðinda. (792)

18. mál, húsaleiga í Reykjavík

Jörundur Brynjólfsson:

Mjer virðist helst, sem háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) sje ekki nógu kunnugur húsaleigumálum hjer í bæ. Þessi lög eru ekki til orðin vegna alls þorra húseigenda, heldur vegna þeirra einna, sem braska með hús sín. Það er auðvitað rjett, að lögin gætu að nokkru, litlu, leyti skert hag hinna, sem þau eru ekki gerð með tilliti til. En við það verður að una. Lögin sjálf bæta ekki úr húsnæðiseklunni, en þau setja hömlur við, að húsnæði sje misbrúkað, við að leigan sje óhæfilega há, eða húsnæði sje látið standa autt. Þau hindra alt húsabrask. Því verður ekki neitað, að lögunum fylgja nokkrir ókostir, en kostirnir og nauðsynin á lögunum eru svo yfirgnæfandi, að þau verða að teljast fyllilega rjettmæt. Þau gætu verið bagaleg þeim, sem eru nýbúnir að kaupa hús með okurverði, en það er ekki hægt að gera neinar undantekningar vegna þeirra, því að þá yrðu lögin í heild sinni gagnslaus. En þess ber líka að gæta, að húsaleigunefndinni er fengið allmikið vald til að dæma um og úrskurða margt það, er þessum lögum viðkemur, svo að jeg hygg, að hún geti á marga lund hagað svo framkvæmd laganna, að vel viðunandi verði.

Háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) sagði, að það væri hart, að menn gætu ekki notað sín eigin herbergi til að reka sína eigin atvinnu í. Jeg skal viðurkenna, að það er svo. En jeg held, að þetta tilfelli komi sjaldan fyrir. Ef eitthvert verkstæði hættir vinnu, svo að jeg taki dæmið sem hann tók, þá myndast þar húsnæði, sem hægt er að taka til íbúðar. Þá gæti nefndin stilt svo til, að höfð væru herbergjaskifti. (G. Sv.: Eftir ákvæðum frv. má hún það ekki). Raunar eru ákvæði frv. um þetta nokkuð óljós, en jeg sje þar ekkert, sem banni nefndinni að fara svona að.

Jeg vona, að frv. verði samþ. Það er áreiðanlegt, að það mun koma að afarmiklum notum.