14.08.1917
Neðri deild: 33. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1153 í B-deild Alþingistíðinda. (795)

18. mál, húsaleiga í Reykjavík

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg ætla mjer ekki að tala mikið um einstök atriði í þessu máli. Jeg ætla ekki heldur að fara út í deilur við þá hv. þm., sem hafa talað hjer á móti þessum bráðabirgðalögum, en vildi að eins skjóta því til þeirra sömu háttv. þm., að þeir hefðu átt að kynna sjer betur ástandið hjer í bænum, eins og það var þegar verst gegndi, þegar fjölskyldur, ekki einungis svo að tugum skifti, heldur svo að hundruðum skifti, svo að segja lágu á götunni, og áttu hvergi höfði að að halla.

Ef þeir hefðu gert það, þá hygg jeg, að þeir hefðu komist að raun um, að hjer dugði ekkert kák, að það varð að taka til mjög strangra ráðstafana, og það væri ekki rjett að virða tillögur bæjarstjórnar vettugi í þessu máli, ef bæta ætti ástandið. Tillögur bæjarstjórnar fóru heldur lengra en niðurstaðan hefir nú orðið sú hjá háttv. Ed., og lagði jeg því til, að frv. væri samþ. óbreytt, eins og það kom þaðan.

Eins og liggur í hlutarins eðli, þá er borgarstjóri og bæjarfógeti þeir menn, sem kunnugastir eru ástandinu, eins og það er í bænum, og þar næst bæjarfulltrúar, og nú er það einróma álit þeirra, að þessar ráðstafanir sjeu nauðsynlegar, og því eru þessi lög orðin til. Að vera að tala um ranglæti í þessu sambandi finst mjer ekki vera ástæða til, því að aldrei yrðu mikil brögð að því, að það hlytist af lögunum, en þó að það kynni að koma fyrir, að einstaka maður yrði hart úti, finst mjer, að meira tillit verði að taka til heildarinnar en þeirra.