24.06.1918
Neðri deild: 54. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 290 í B-deild Alþingistíðinda. (103)

4. mál, almenn dýrtíðarhjálp

Frsm. (Sigurður Stefánsson):

Það var víst síðastliðinn mánudag, sem málið var tekið út af dagskrá, að jeg held, eftir beiðni hæstv. fjármálaráðh. Jeg hafði ekkert á móti því þá, og hjelt, að það væri gert til þess, að koma með brtt., sem gengi eitthvað í áttina til samkomulags. En þessi von hefir brugðist. Alt til þessa hefir ekki bólað á neinni samkomulagstilraun, og verð jeg þó að álíta, að málið hafi ekki verið tekið út af dagskrá til neins annars en þess, að reyna að koma á samkomulagi.

Það er síður en svo, að meiri hluti bjargráðanefndar hafi neitt á móti því, að málinu sje frestað. Hann hefir fullan vilja á því, að komist verði að einhverri skynsamlegri niðurstöðu en útlit er fyrir að komist verði að nú. Ef það tækist, þá væri málinu góðu heilli frest að. En eigi það að takast, þá verður stjórnin að gera einhverja tilraun til þess að koma á móti nefndar meiri hl. í trausti þess, að hún ætli sjer að gera það, og geri það, get jeg fallist á, að málinu sje frestað. En það er líka það eina, sem jeg get fallist á í ræðum beggja hæstv. ráðh.

Hæstv. forsætisráðh. vildi byggja dýrtíðarstyrkinn á því, að þingið í fyrra fór einnig inn á þá leið, að veita dýrtíðarhjálp. Það er alveg rjett, að þingið í fyrra hjelt inn á þessa braut. En óvíst er hve margir þeir eru nú hjer í salnum, sem telja nú að t. d. niðurfærsla kolaverðsins hafi verið hyggileg ráðstöfun. Líklega eru þeir fleiri, sem telja, að dýrtíðarráðstafnir þær sumar, sem gerðar voru í fyrra, hafi reynst hið mesta óráð. Að því er lánin snertir, hefir reynslan sýnt, að þegar til framkvæmdanna kom, sá stjórnin sjer ekki fært að veita lán með svo góðum kjörum, sem lögin ákváðu. Hún hafði blátt áfram ekki fje handbært til þess. Það er síður en svo, að jeg lái stjórninni, þótt hún gæti ekki framkvæmt þau lög. En reynslan bendir þá til þess, að nú verði að taka upp aðra aðferð en þá var tekin. Um dýrtíðarkolin held jeg, að jeg verði að segja það, að líklega fengist nú ekki eitt einasta atkvæði með því, að veita þann afslátt aftur. En eftir ræðu hæstv. forsætisráðh. á að skoða dýrtíðarráðstafanirnar í fyrra að eins sem byrjun, og að nú sje sjálfsagt að halda lengra á þeirri braut. En það dugir ekki að halda áfram á einhverri braut, þótt byrjað sje á henni, ef reynslan sýnir, að brautin hafi verið óheppilega valin. Þá er að læra af reynslunni og reyna að finna aðra leið, sem líklegt er að reynist betur.

Mjer er með öllu óskiljanleg sú fjármálapólitík, að heppilegra sje að gefa en lána, þegar lánin koma þiggendum að sömu notum og gjafir, og líkur eru til að lánin geti orðið endurborguð fyr eða síðar. Jeg verð að játa, að mig brestur skilning til að skilja þá fjármálapólitík; sú ákvörðun í 5. gr. frv., að lánin megi veita úr landssjóði, virðist mjer vera óþörf og koma inn í frv. eins og „deus ex machina“, eða fjandinn úr sauðarleggnum. Því að þess ber að gæta, að í 7. gr. er einnig heimild til lántöku fyrir stjórnina, og jeg lít svo á, að sú heimild eigi ekki einungis við lánin, sem talað er um í 6. gr., heldur öll þau lán, sem lögin hljóða um.

Að hægra sje fyrir landssjóðinn, að gefa en lána, er mjer öldungis óskiljanlegt. Og vilji menn styðjast við þá reynslu, sem fyrir liggur frá 1880—88, þá var farin lánaleiðin í miklu verulegri neyð en nú er sjáanleg fyrir dyrum í nánustu framtíð, og kom hvergi að baga. Hitt væri ærinn skorbítur í fjárhag landsins, ef nú ætti að fara að búta 1/2 miljón niður í gjafir og strá þeim út um sveitirnar. Menn verða að líta á hag landssjóðs, líta á það, að hann hefir fje af mjög skornum skamti. Þótt auðugri þjóðir geti leyft sjer að veita verulega dýrtíðarhjálp, sem um munar, með gjöfum úr ríkissjóði, þá leyfir hagur landssjóðs það ekki. Það dugir ekki að vitna í aðrar þjóðir, sem hafa miklu meira fje handbært.

Jeg sje ekki heldur neina hættu á því, að dýrtíðarhjálpin verði frekar misbrúkuð þótt hún sje veitt sem lán, heldur en þótt hún sje gjöf, nema miklu síður.

Jeg verð að álíta, að það sje skylda þingsins, að ganga inn á einhverja aðra leið en það gekk inn á í fyrra. (Fjármálaráðherra: Það var lánaleiðin). Það var alt önnur lánaleið. Og geti landið fengið milj. kr. lán, til þess að úthluta sem styrk, þá efast jeg ekki um, að lánstraust þess sje svo gott, að það geti fengið 1 milj. kr. til þess að lána landsmönnum. En munurinn er sá, að láni landssjóður landsmönnum 1 miljón kr., til þess að afstýra neyð, getur hann vænst þess að fá meiri hluta þess fjár endurgreiddan, en veiti hann 1/2 miljón kr. styrk, verður það fje aldrei endurgreitt.

Það þótti því strax undarleg aðferð í frv. stjórnarinnar, er hún fer nú, eftir reynsluna frá því í fyrra, að bjóða út að fyrrabragði milj. kr. að gjöf, og það á því herrans fullveldisári 1918. Það er ófyrirsynju, að stimpla þjóðina með öreigastimplinum, í sömu andránni sem hún krefst þess, að henni sje fenging fullveldi mála sinna í hendur. Og enn undarlegra er, að sama stjórnin, sem ekki gat veitt lögákveðna hjálp í fyrra, sökum fjeleysis, skuli nú bjóða fram hallærisgjafir. Þetta væri verjandi, ef ástandið væri svo miklum mun verra, en í fyrra, að yfir vofði hallæri og mannfellir. En svo ilt er þó ekki í efni.

Jeg hygg, að jeg geti sagt fyrir hönd bjargráðanefndar, að hún hafi ekkert á móti því, að málinu sje frestað. En nefndin vonar þá, að hæstv. stjórn komi til móts við hana og reyni að lagfæra verstu misfellurnar á frv., sem eru svo miklar, að nefndin hikar sjer ekki við, að greiða atkvæði gegn því, verði þeim ekki kipt í lag.