17.05.1918
Neðri deild: 25. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1049 í B-deild Alþingistíðinda. (1081)

55. mál, reglugerð fyrir sparisjóði

1081Atvinnumálaráðherra (S. J.):

Jeg held að háttv. flm. (St. St.) hafi misskilið mig, eins og hann sagði, að jeg hefði misskilið sig. Jeg skal ekki bera brigður á, að hann hefir leitast við að svara helstu atriðunum í hinum fáu orðum mínum, en hann hefir gert meira, því að hann svaraði því, sem jeg hefi aldrei tekið fram. Jeg var að benda á, að mál þetta ætti að koma fram í öðru formi. Og þar sem háttv. flutnm. (St. St.) gerði þá kröfu til mín, að jeg skildi hann, þá get jeg komið fram með þá sömu kröfu, að hann misskilji ekki orð mín. Og til þess að uppræta misskilning þann, er kendi í svarræðu hans, þá skal jeg endurtaka það, að jeg lagðist ekki á móti till. að efni, heldur að formi. Hann sagði, að tryggingin minkaði, ef reglugerðarákvæðunum væri breytt. Það kannast jeg ekki við að þurfi að vera rjett. Breytingin getur verið svo, að tryggingin þurfi ekki að minka. En jeg get ekki felt mig við till., eins og hún er orðuð. Og það hygg jeg óhrakið, að þegar nema á eitt atriði út úr stórri heild, sem margbúið er að ræða og sett er eftir mikla athugun, þá sje æskilegra, að þessi breyting sje ekki gerð í einum svip, heldur sje málið athugað betur en kostur er á í einni umr., þegar menn eru orðnir þreyttir og óstiltir. Er jeg þess vegna því meðmæltur, að málið sje athugað í nefnd, eða það afgreitt með rökstuddri dagskrá, sem og ef til vill er á leiðinni.