11.06.1918
Neðri deild: 46. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1119 í B-deild Alþingistíðinda. (1190)

91. mál, almenningseldhús í Reykjavík

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg hefi ekki verið við þessar umr. og veit því ekki, hvað sagt hefir verið um málið, og skal ekki heldur fara mörgum orðum um það.

Jeg verð að segja, að jeg tel það mjög heppilegt, að háttv. bjargráðanefnd kom með þessa till. Jeg skal ekki um það deila, hvort betra sje að veita fjeð til utanfarar, eða til kaupstaðanna, til þess að setja á stofn fyrirmyndarstofnun í þessu tilliti. En það er mest um vert, að þingið sýni vilja til þess að hjálpa mönnum að bjarga sjer á einhvern hátt meðan dýrtíðin stendur, að það sjáist, að þinginu sje ljóst, hvað hjer þarf að gera, og að almenningi sje komið í skilning um, að hjer sje eitthvað það á ferð, er þarf sjerstakra ráðstafana.

En jeg held nú samt, að það sje ráð að láta einhvern mann fara utan til að kynna sjer fyrirkomulag almenningseldhúsa. Jeg varð dálítið hissa að heyra háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) tala um þetta fje sem bitling. Hvernig í ósköpunum er hægt að kalla annað eins bitling? Það er þó allsendis óvíst, hver þennan styrk á að hljóta, og áreiðanlega ekki búið að hugsa sjer, hver fyrir honum verður. Og þótt þinginu þyki sumir nokkuð örir á bitlinga, þá er það ótrúlegt, að nefndin sje að búa til bitling út í loftið, án þess að hugsa sjer nokkurn mann. Þetta er því nokkuð óheppilega til orða tekið, því að þótt háttv. þm. (Sv. Ó.) hafi ekki trú á því, að hægt sje að læra mikið annarsstaðar, sem menn kunna ekki hjer, þá ættu menn að skilja, að maður, sem utan færi, ætti hægast með að útvega verkfæri til þessara hluta, sem alls ekki fást hjer á landi. Það er svo að skilja, að fyrir einstaka menn, hvað þá heldur fjelög, er oft nauðsynlegt að senda menn til útvegunar á þeim verkfærum, sem með þarf og enginn vegur er annars að fá. Ef nokkur mynd á að vera á svona almenningseldhúsi, þá verður að fá frá útlöndum þau áhöld, er til þarf og hjer eru ekki til. Það er eðlilegt, að jeg sje sammála nefndinni, þar sem jeg í samtali við hana taldi æskilegt að gera eitthvað í þessa átt. Auðvitað kemur þetta að eins að gagni stærri kaupstöðum, svo að það er dálítil afneitun fyrir þá að fylgja því, sem ekki eru kaupstöðunum hlyntir.

Jeg hefði álitið, að í sambandi við þetta mál hefði vel mátt taka það til athugunar, hvort ekki væri hægt að hafa hjer, eins og alstaðar annarsstaðar, einhverja menn til að leiðbeina almenningi með notkun matvæla. Það hefir reynst mjög vel annarsstaðar að fá færa menn, t. d. lækna, til að gefa reglur um samsetning þeirra fæðutegunda, sem til eru í landinu, og skýt jeg því til háttv. nefndar, hvort hún vill ekki ekki hugsa eitthvað í þessa átt. Það þyrfti ekki að kosta neitt stórkostlega mikið. Jeg held, að þegar hafi verið gefnar út leiðbeiningar um notkun einnar vörutegundar, sem æskilegt væri að menn færðu sjer vel í nyt, þar sem hún hefir mikið af þeim efnum, sem mönnum eru nauðsynlegust. Á jeg hjer við síldina. Ef nefndinni sýndist þetta rjett, ætti hún að samþykkja eitthvað í því, og vona jeg, að það yrði ekki skorið niður fyrir nefndinni, þótt það kæmi fram í einhverju formi til upphvatningar. Það er nú þegar til dálítill vísir til almenningseldhúss, þar sem Samverjinn er. Það hefir sýnt sig að vera gott fyrirtæki. Þetta á að byggjast á öðrum grundvelli, en mun þó reynast gott fyrirtæki, ef því verður komið í kring. En ekki skil jeg í því, að þeir, sem kunna að verða valdir til að koma þessu fyrirtæki á stofn, sjeu líklegir til að nota fjeð til skemtiferðar út yfir pollinn.