25.06.1918
Efri deild: 50. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1132 í B-deild Alþingistíðinda. (1200)

91. mál, almenningseldhús í Reykjavík

Eggert Pálsson:

Það er að vísu yfir fáum að tala í þetta sinn, þó að jeg hins vegar vilji leyfa mjer að gera stutta athugasemd, ekki þó svo mjög gagnvart till., sem hjer liggur fyrir, því að jeg geri ráð fyrir, að henni verði vísað til fjárveitinganefndar, þar sem hjer er um fjárspursmál að ræða, heldur er athugasemdin almenns eðlis.

Sú hefir orðið raunin á um þetta þing, að inn á það hefir rignt till., sem miða að því að veita fje úr landssjóði til hins og þessa. í þingbyrjun var ákveðið, í því skyni að spara fje, að koma ekki með fjáraukalagafrv. á þessu þingi, heldur skyldu fjárbeiðnir koma fram í þingsályktunartill.formi, ef brýn nauðsyn væri. En nú eru þessar þingsályktunartill. orðnar svo margar, að sýnilegt er, að stór sparnaður hefði verið, að í stað þeirra hefði komið fram fjáraukalagafrv. Þingið er nú búið að standa í hálfan þriðja mánuð, og þingsályktunartill. hefir rignt niður allan þann tíma. Hafa eðlilega orðið um þær miklar umr. í báðum deildum þingsins, og þær þar af leiðandi kostað landssjóðinn mikið fje, án tillits til innihalds þeirra. Hefði fjáraukalagafrv. verið lagt fyrir þingið, hefði það tekið miklu minni umr. en allar þessar þingsályktunartill., sem verið er að koma með, auk þess sem líklegt er, að fjáreyðslan hefði ekki orðið eins mikil eins og með þessu móti, að vera að koma með eina og eina fjárveitingatill., og það fram á allra seinustu daga þingsins.

Um till., sem hjer liggur fyrir, vil jeg ekkert segja að svo stöddu, gef ekki um fyrirfram að binda atkv. mitt, og það því síður, sem jeg býst við, eins og jeg er þegar búinn að taka fram, að henni verði vísað í fjárveitinganefnd og hún athuguð þar.