11.06.1918
Sameinað þing: 3. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1282 í B-deild Alþingistíðinda. (1407)

62. mál, styrkur til að kaupa björgunarbát

Matthías Ólafsson:

Eins og hv. þm. er kunnugt, þá var sá galli á till. þessari, eins og hún kom fyrst frá hæstv. Ed., að eftir orðalagi hennar gátu komið beiðnir um styrk til björgunarbáta úr mörgum áttum, eða með öðrum orðum, að tala styrkþega var óákveðin. Þessi galli var mjög óheppilegur fyrir landssjóð og ófær í alla staði, þar sem engin reynsla er fengin um það, að hve miklu haldi þessir björgunarbátar komi, eða hvernig þeir sjeu hagfeldastir hvað gerð, útgerðarstaði og annað snertir. Til Alþingis hefir ekki borist beiðni um þetta nema úr einum stað, nefnilega Vestmannaeyjum. Þar hefir fiskifjelagsdeildin sjálf, eða fjelag, sem hún hefir myndað innan sinna vjebanda, ákveðið að leggja fram fje í þessu skyni. Þegar erindi þetta barst fjárveitinganefndinni, þá var henni þegar ljóst, að hvergi er meiri þörf slíkra framkvæmda en einmitt í Vestmannaeyjum, og því fanst nefndinni rjettast að binda fjárveitinguna eða styrkinn við Vestmannaeyjar. Það gat líka farið svo, ef það var ekki gert, að einhverjir menn hefðu hafist handa og heimtað styrkinn og orðið á undan Eyjabúum með fjársöfnun, undirbúning og styrkbeiðni sína, en þó eru harla litlar líkur fyrir því, því að málið er svo mikið undirbúið hjá Eyjabúum, og jeg tel víst, að þeir haldi því áfram. Þess vegna tel jeg, að það hafi í raun og veru enga þýðingu, þótt brtt. á þgskj. 334 verði samþykt.

Í tilefni af ummælum háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.) um veiðitíma björgunarbáta vil jeg taka það fram, að það er ætlunin, að um þetta verði tekið fram í reglugerð þeirri, er stjórnarráðið setur um björgunarbátana. Það liggur í hlutarins eðli, að björgunarbátinn verður að nota sem allra minst til annars en björgunar á meðan á veiðitímanum stendur, en eins og háttv. þm. hljóta að vita, þá er veiðitími hjer syðra á hættulegasta tíma ársins, og því brýn þörf björgunarbáta, en þegar aðalveiðitíma er lokið fyrir Suðurlandi og við Faxaflóa, þá hefst sumarvertíðin og síldarveiðin fyrir Norðurlandi, og mætti þá leyfa notkun bátsins við þær veiðar, en notkun hans til veiða, meðan á veiðitíma stendur verður að vera sem allra minst, helst engin.

En þar sem frsm. háttv. Ed. (K. D.) hefir tekið fram, að nefndin þar ætlist til, að styrkur sje að eins veittur til eins báts, þá finst mjer, að samþykkja megi brtt., því að hún hefir engin raunveruleg áhrif.