17.04.1918
Efri deild: 3. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1387 í B-deild Alþingistíðinda. (1554)

Blaðamannavist

Á 3. fundi í Ed., sama dag, tilkynti forseti alt hið sama og ljet síðan svo um mælt:

Jeg vil leyfa mjer að geta þess, að frá nýstofnuðu blaðamannafjelagi íslenskra blaðamanna hefir forsetum borist erindi, þar sem blaðamenn kvarta yfir kjörum sínum hjer á þingi.

Það er kunnugt, að blaðamenn hafa orðið að hýrast uppi á hápöllum, þótt öðrum utanþingsmönnum hafi verið leyft að sitja í stofunum niðri, við dyrnar inn í þingsalina.

Það er því harla eðlilegt, að blaðamenn uni illa hag sínum hjer á þingi.

Alstaðar í öðrum löndum er blaðamönnum gert miklu hærra undir höfði en öðrum áhorfendum og áheyrendum. Og það á svo að vera. Blaðamenska er nú á dögum veglegt, vandasamt og ábyrgðarmikið starf; blaðamenn eru — eiga að vera — sannnefndir þjóðarfulltrúar á öllum mikilsverðum mannfundum.

Hjer á Alþingi hefir blaðamönnum aldrei verið fagnað svo vel sem skyldi, ekki neitt því líkt, sem tíðkast í öðrum löndum á löggjafarþingum. Þar er blaðamönnum sjeð fyrir sjerstökum, ágætum áheyrnarstofum. Hjer er því miður ekki svo húsum háttað, að þess hafi verið kostur.

En það er kunnugt, að deildarforsetum var í upphafi ætlað hvorum sitt herbergi, hjer í efri deild litla stofan að norðanverðu, í neðri deild litla stofan að austanverðu.

Og nú höfum vjer forsetar orðið ásáttir um það að ljá blaðamönnum þessar stofur okkar deildarforsetanna meðan á þingum stendur. Við getum ekki betur boðið.