02.07.1918
Neðri deild: 61. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 109 í C-deild Alþingistíðinda. (1672)

107. mál, verðlagsnefndir

Frsm. (Sigurður Stefánsson):

Orsökin til þessa frv. er frv. á þgskj. 336, sem bjargráðanefnd fekk til meðferðar. Þótti henni full þörf á að breyta töluverðu um þessar verðlagsnefndir, og hefir þess vegna lagt til frv. á þgskj. 410. það er aðgætandi, að þótt verksvið þessara verðlagsnefnda hafi verið töluvert hingað til, þá er orðin sú breyting á verslun landsins, að verksvið hennar hlýtur að verða töluvert minna en áður.

Bjargráðanefndin fekk þær upplýsingar, að verðlagsnefnd sú, sem setið hefir hjer að störfum, hafi gert töluvert, en hitt duldist henni ekki, að verk hennar hafa borið lítinn árangur, í samanburði við peninga þá, sem gengið hafa til að launa henni. Þessi verðlagsnefnd mun hafa kveðið upp 10 úrskurði um verðlag á vörum, en þessir úrskurðir hafa flestir verið numdir úr gildi, svo að jeg held, að nú standi ekki nema tveir þrír af þeim.

Það, sem nefndin átti erfiðast með, var að laga útsöluverð kaupmanna. Þar átti hún við mikla erfiðleika að stríða, enda varð árangur hennar tiltölulega lítill, þegar litið er á verðlag á þeim vörum. Hins vegar upplýstist það, að nefndin hefði með samtali sínu við kaupmenn getað þokað nokkru til um verðlag á útlendum vörum, þótt ekki kæmi til úrskurðar hennar.

Bjargráðanefnd leit svo á, að þó að nefnd þessi hafi haft töluvert starf með höndum, þá hafi árangurinn af starfi hennar ekki orðið að sama skapi. En nú víkur talsvert öðruvísi við, því að með þessum nýja viskiftasamningi, sem gerður er við Bandamenn, er sú breyting á orðin, að stjórnin hefir tekið í sínar hendur öll innkaup á útlendum vörum, og getur því sett verð á þær. Að þessu leyti er því verkefni verðlagsnefndar horfið að mestu, og þá um leið ástæðan til þess að hafa hana í þjónustu landsins. Hvað verðlag hennar á innlendum vörum snertir, þá hefir það ekki borið þann árangur, sem hefði mátt vænta, og er það að segja, að á því eru allmikil vandkvæði. Verðið fer, eins og kunnugt er, allmikið eftir eftirspurn og framboði á vörum, og því óhægt fyrir nefndina áð ráða miklu um það. Af þessu hefði mátt ætla, að bjargráðanefnd hefði verið á sama máli og við flm. þessa frv., og jeg verð að segja það að þótt jeg gengi inn á þessa braut, þá hefi jeg ekki sjeð brýna þörf á að hafa verðlagsnefnd og allra síst verðlagsnefnd, sem alt landið kostaði, en hitt get jeg þó fallist á, sem fram kom í nefndinni, að nema ekki þessi lög úr gildi án þess, að nokkuð kæmi í staðinn. Því þótti rjett að koma fram með frv. á þgskj. 410, þó þannig breytt, að skipun á verðlagsnefnd fer fram eftir till. hlutaðeigandi bæjarstjórnar. Nefndinni þótti ekki rjett að banna algerlega að setja verðlagsnefndir þar, sem það var vilji hlutaðeigandi kaupstaðar að fá nefnd skipaða til þess að ákveða verð á vörum, með því að þótt gæti nauðsyn á því. En auðvitað er það, að þetta er einkum sett með tilliti til Reykjavíkur, og enda líkast, að þar verði helst þörf á slíkri nefnd. Maður getur t. a. m. hugsað sjer, að brauðgerðarmenn vildu setja svo hátt verð á brauðið, sem almenningur þó lifir mestmegnis af hjer í kaupstöðunum, og af því geti það verið rjett, að bæjarstjórn hafi heimild til að snúa sjer til landsstjórnarinnar um skipun á slíkri nefnd; hjer er því sá mikli munur á þessu frv., ef það verður samþ., og hinu fyrra frv., að stjórnin skipar þá nefndirnar eftir ósk og till. bæjarstjórna, en þar sem þetta frv. er, eins og það nú kemur orðað frá nefndinni, bundið við óskir um skipun frá kaupstöðunum, þótti nefndinni rjett, að bæirnir kostuðu þessar verðlagsnefndir. Þetta frv., sem nefndin hefir komið með, er að eins heimildarlög fyrir landsstjórnina til að skipa þessar nefndir, þegar bæjarstjórnum, í hinum einstöku kaupstöðum, þykir þörf á því. Að frv. þetta geti haft svo mikinn kostnað og útgjöld í för með sjer, þykir ekki ástæða til að ætla; finst nefndinni það ekki líklegt, þegar tekið er tillit til þess að nefndirnar verða kostaðar úr bæjarsjóði; hjer er því farið bil beggja og reynt að gera báðum til hæfis.

Það var upphaflega meiningin, að verkefni slíkra nefnda yrði að líta eftir verði bæði á útlendum og innlendum vörum, en eftir umr. hjer í þessari hv. deild í gær virðist svo sem deildin vilji kasta þeirri áhyggju upp á stjórnina, og hefir stjórnin látið sjer það vel líka, þar sem hún greiddi atkv. á móti þeirri till., að veita stjórninni heimild til að ákveða verð í heildsölu, hefir sjálfsagt talið sig hafa heimild til þess án nýrra heimilda. Vona jeg, að allir sjái, að þetta frv. hefir mikið við að styðjast, og að engum þyki hjer órjettur ger, því að hjer er stjórninni að eins veitt heimild til að koma í veg fyrir það, að seljendur í kaupstöðunum beiti ósanngirni. Að þetta nái mikið til sveitanna þarf ekki að óttast, vegna þess, að rannsókn á starfi verðlagsnefndar hefir sýnt það, að hún getur mjög litlu um það ráðið; vona jeg því, að hv. deild samþ. þetta frv., en ef það verður felt, þá mun jeg halda mjer við hið upphaflega frv.

Hvað því viðvíkur, að rjettara væri að víkka nokkuð verksvið nefndanna, þannig að verðlagsnefndin hjer yrði t. d. ekki eingöngu bundin við Reykjavík, heldur gæti verksvið hennar með reglugerðarákvæði náð til umhverfis bæjanna, eða nærliggjandi sveita, þá lætur nefndin ekkert álit uppi um það að sinni.