02.07.1918
Neðri deild: 61. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 115 í C-deild Alþingistíðinda. (1675)

107. mál, verðlagsnefndir

Hákon Kristófersson:

Jeg get verið sammála hæstv. atvinnumálaráðh. um það, að eftir því, sem mjer skilst, er það tilætlunin eftir frv., að valdsvið verðlagsnefnda nái að eins til þeirra bæja, sem hafa bæjarrjettindi, en ekki til smærri kaupstaða úti um land.

Þegar verðlagsnefndin var upphaflega skipuð, var ætlast til, að valdsvið hennar næði yfir alt landið. Jeg vil á engan hátt draga það í efa, að starfi nefndarinnar hafi verið þann veg háttað, að hún hafi ætlað að gera sitt hið besta. En annaðhvort hefir verkið verið erfitt eða skortur á afskiftasemi hennar, því að mjer er ekki kunnugt um, að hún hafi neitt skift sjer af vöruverði úti um land, allra síst á þann hátt, að þau afskifti hennar hafi á nokkurn hátt verið til bóta. Hæstv. atvinnumálaráðh. benti á, að nefndin hefði haft áhrif á vöruverð kaupmanna. Verið getur, að hún hafi haft einhver slík áhrif hjer í Reykjavík, en mjer er ekki kunnugt, að hún hafi þokað niður vöruverði hjá kaupmönnum úti um land. Og svo hygg jeg, að einnig megi segja um verð hjer í Reykjavík. Þetta mun því vera tilgáta hæstv. atvinnumálaráðh.

Framsm. (S. St.) benti og á, að nefndin hefði kveðið upp 10 úrskurði og að eins 3 af þeim væru enn í gildi. Ef það er rjett, sem hv. þm. Borgf. (P. O.) sagði, að starf nefndarinnar hefði kostað 9.000 kr., þá hefir hver núgildandi úrskurða kostað 3.000 kr. þeir verði því að vera mikils virði, ef þeir eiga ekki að vera of dýru verði keyptir.

Jeg verð að halda því fram, að verðlagsnefndir sjeu ekki að eins nauðsynlegar í bæjarfjelögum, heldur og í sveitarfjelögum og kauptúnum. En fram hjá þeim gengur frv. Framsm (S. St.) gat þess að vísu, að verksvið nefndarinnar ætti að vera að hafa eftirlit með smásöluverði kaupmanna, en mjer skilst, að eftir frv. nái valdsvið þeirra ekki út fyrir þá bæi, sem þær eru skipaðar i. Hann sagði og, að engin þörf væri að hafa slíkar nefndir í sveitum. En mjer virðist auðsætt, að ef þeirra er þörf þar sem verslun er rekin í stærri stíl, þá sje sú nauðsyn engu síður brýn á þeim stöðum, sem verslunin er minni.

Hæstv. atvinnumálaráðh. gat þess, að nefndin hefði haft áhrif á vöruverðið. Það getur verið rjett, þó að mjer sje ekki kunnugt um það, að hún hafi einhverju um þokað í svo smáum stíl, að þess hefir ekki gætt, og er því ekki teljandi. Ef reynsla undanfarinna ára sýnir, að áhrifa verðlagsnefndarinnar hafi eigi gætt og að vörubjóðendur hafi sett verðið á vörurnar eftir vild sinni, þá er ekki hægt að vænta þess, að þetta verði neitt öðruvísi í framtíðinni. Mjer virðist þetta gefa fremur góðar vonir en áreiðanlega vissu, sem hægt sje að treysta.

Samkvæmt þessum skoðunum mínum get jeg ekki verið með frv., nema því að eins, að 1. gr. verði víðtækari, nái út fyrir þá staði, sem þar er bent á.

Jeg óttast, að vöruverðið geti orðið of hátt víðar en hjer í Reykjavík. En mjer er kunnugt um, að hjer gengur það sumstaðar fram úr hófi, þrátt fyrir vald dýrtíðarnefndarinnar. En jeg get því miður eigi nefnt þess dæmi, vegna persónulegra ástæðna.

En ef valds verðlagsnefndar gætir ekki og hún hefir engin áhrif á vöruverðið, þá virðist, að verðlagsnefndin sje að eins nafnið eitt, og framkvæmdir hennar sjeu fáum sýnilegar.