21.05.1918
Neðri deild: 27. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 429 í C-deild Alþingistíðinda. (1890)

51. mál, námurekstur landssjóðs á Tjörnesi

Frsm. (Gísli Sveinsson):

Hæstv. atvinnumálaráðherra hefir nú komið fram með það, er hann vill láta um mælt um þetta mál. Ekki hefir hann gefið nein loforð um að tala frekar í þessu máli, og skal jeg síst lasta það. Mönnum mun samt þykja nógu lengi að verið frá þeirri hálfu, ekki meiri skýringar en hv. deild hefir fengið á þeim atriðum, er skýrsla nefndarinnar og ræða mín gaf tilefni til.

Hæstv. atvinnumálaráðherra gat þess, að í skýrslu nefndarinnar vantaði margt til þess, að menn gætu myndað sjer álit um málið í heild sinni. Þetta er að því leyti rjett, að enn vantar allmikið á það, að öll kurl komi til grafar frá stjórnarinnar hendi. Skýrsla nefndarinnar byggir á skilríkjum þeim, sem fyrir henni lágu, öllum samt, og er hún allítarleg um aðalatriðin. En af því að ýms skilríki vantar, ræðir skýrslan ekki nógu ítarlega um öll atriði, sem um er deilt.

Jeg hefi þegar getið um tildrög þessa máls og drepið á það, hvernig þær þingsályktunartill. voru vaxnar, er aukaþingið 1916—17 og þingið í fyrra samþyktu. Till., sem aukaþingið í hitt eð fyrra samþykti, lagði fyrir stjórnina að framkvæma ábyggilega rannsókn, eigi einungis á gæðum kola, heldur og á vinsluskilyrðum öllum. Þetta hefir hæstv. stjórn ekki uppfylt, hvernig sem á því stendur. Hæstv. atvinnumálaráðh. taldi erfitt að fá sjerfróðan mann frá útlöndum. En hann gat þess ekki, að stjórnin hafi gert aðrar tilraunir í því efni en að skrifa íslensku stjórnardeildinni í Kaupmannahöfn.

Þá er nú fram komið, að er umsjón námunnar var fengin í hendur verkfræðingi, er þekkingu hafði í þessum efnum, þá fyrst kom skriður á málið. Hæstv. atvinnumálaráðh. gat þess, að auk vegamálastjóra hafi Kirk verkfræðingur átt drjúgan þátt í að útvega námunni verkfæri og annað þess háttar. En það gerðist alveg nýverið. Og yfirleitt hefir nálega alt það verið framkvæmt nýlega, er til umbóta miðar. Það verður því ekki afsakað, sem ábótavant hefir verið um langan tíma, þótt nú fyrst sje ráðin einhver bót á því.

Þingsályktunartill. frá aðalþinginu 1917 gefur tilefni til þess að skilja vilja þingsins á þá leið, að vinna skuli innlent eldsneyti, afla surtarbrands og kola eftir því, er tiltækilegt sje. Stjórnin skilur þetta þannig, að hún skuli kaupa námuna á Tjörnesi og halda áfram rekstri hennar, hvernig sem gangi. Ekki get jeg skilið þingviljann svo, og ekki kom hann þann veg fram. Þó að þingið samþykti, að vinna skyldi innlent eldsneyti, var ekki hægt að skilja það svo, að stjórnin skyldi t. d. kaupa námuna, er hún þegar hafði leigt og átti kost á að fá leigða framvegis.

Hæstv. atvinnumálaráðh. taldi leiguna á námunni ekki háa, eftir því sem nú væri um að gera. Þetta má til sanns vegar færa, er litið er á það, hve dýrt alt er orðið. Jeg gat þess, að afstaðan væri þannig, af hálfu hreppsins, að ekki væri ástæða fyrir hann að okra meir á námunni gagnvart landssjóði en góðu hófi gegndi, þar sem landssjóður ætlaði að láta vinna námuna til gagns einkum fyrir þennan landshluta í heild sinni, og auðvitað sjerstaklega þann hrepp.

Og þegar þess er gætt, hvílíkan hagnað sveitin hefir af námurekstrinum, er það því meir áberandi, að hreppurinn skyldi leyfa sjer að níðast á landssjóði, og enn meiri furða, að stjórnin. skuli hafa látið það viðgangast. Þingeyjarsýsla hefir fengið langmest af þessum kolum af öllum sýslufjelögum utan Reykjavíkur; til Rvíkur komu 310 smál., en Þingeyjarsýsla fjekk 300 smál.

(Atvinnumálaráðherra: Þingeyjarsýsla fjekk að eins 4 smál. af dýrtíðarkolunum). Já, en það breytir ekki því, að kolanámið á Tjörnesi var svo bersýnilega í þágu hreppsins, að full ástæða var fyrir landsstjórnina að taka í taumana.

Það er enn þá óskýrt, hvað landsstjórnina rak til þess að kaupa námuna. Menn geta leitt getur að því. Ef til vill hefir verið hert á stjórninni, að hún skyldi kaupa, en stjórnin verið veil fyrir og látið til leiðast til kaupanna, þó að ekkert lægi formlega fyrir, er sýndi, að kaupin væru hentug eða nauðsynleg.

Það er rjett, að hið opinbera gerir iðulega tilraunir, sem búast má við að beri sig ekki, og menn hafa einnig verið við því búnir, að halli yrði einhver á þessari tilraun fyrst í stað. En hjer er um annað og meira að ræða en fyrstu tilraun. Í fyrsta lagi hefir stjórnin vanrækt að gera ábyggilega rannsókn á því, hvort reksturinn væri tiltækilegur eða gæti borgað sig. Og í öðru lagi er tíminn svo langur, að um tilraun getur ekki verið að ræða lengur en þá fram á mitt sumar í fyrra. Var þá nokkur reynsla fengin, sem stjórnin átti að vita deili á, og lítt afsakanlegt að halda vinnunni áfram í sama formi sem áður.

Þá vík jeg að vinnubrögðunum og verkstjóranum. Verkstjórinn var kvaddur hingað suður til þess að undirbúa vetrarvinnu. Það gat hann hvorki hjer nje gerði. Hið eina, sem hann gat gert, var að undirbúa veruna fyrir norðan, afla matvæla og þ. h. þeim mönnum, er norður áttu að fara. Jeg held því fram, að undirbúningur undir vetrarvinnu hefði að mestu átt að fara fram þar nyrðra. Það var vanrækt, og er verkstjóri kom norður með menn sína, var alt óundirbúið eða mjög lítt undirbúið.

Í námunni við hliðina á þessari var þessu öðruvísi hagað og náman og vinsla hennar um sumarið grandgæfilega undirbúin undir vetrarverk, jafnhliða kolaupptöku; fellur því mestallur hallinn á reksturinn fyrir 1. nóv.

Hæstv. atvinnumálaráðh. taldi stjórnina hafa notið aðstoðar vegamálastjóra í þessu máli. Það er þó óupplýst, hvort hann hafi haft, og enda fullyrt, að hann hafi ekki haft önnur afskifti af námunni en greinir í skýsrslu nefndarinnar. Hann hafði útvegað verkfæri og áhöld til námunnar erlendis, eða hjer heima, og líklega einu sinni ráðið nokkra verkamenn til námunnar, og enn í þriðja lagi, sem ekki er getið um í skýrslunni, aðstoðað verkstjóra við aðdrætti til vetrarins, þá er hann kom hingað suður. Það fer því fjarri því, að þetta gefi tilefni til að telja, að vegamálastjóri hafi haft nokkur afskifti af rekstri námunnar. Yfirstjórn fyrirtækisins var auðvitað hjá atvinnumáladeild stjórnarráðsins. Það var misskilningur hjá hæstv. atvinnumálaráðh., er hann taldi að jeg hefði álitið, að yfirstjórn fyrirtækisins ætti að vera fyrir norðan. Jeg er einmitt á því, að verkinu skuli stjórnað hjeðan úr Reykjavík, en að það eigi að vera undir hæfari og ábyggilegri stjórn en það var áður.

Jeg þykist hafa fært rök fyrir því, að þessi stjórn hafi hvorki reynst hæf nje ábyggileg, enda væri þess eigi að vænta. Það hafi verið óráð að láta stjórnarráðið fara með stjórn slíkra mála sem þessa. Því þótt stjórnarráðið sje vel skipað, hlýtur það ávalt að koma í ljós, að annað eins fyrirtæki, verklegs eðlis, er ekki vel komið í höndum þess.

Nú munu menn ætla, að jeg sje að afsaka stjórnina fyrir það, að svona illa tókst til. Engan veginn. Stjórnin hefði átt að sjá þetta þegar í upphafi. Enginn gat vænst annars en að stjórnin mundi taka þann upp, að fela hæfum manni yfirstjórn verksins. Þetta mál gat ekki heyrt undir stjórnarráðið á þann hátt, sem það var látið gera. Landsstjórnin veit ekki, hvernig á að stýra svona fyrirtæki. Það er afsakanlegt, en hitt er síður afsakanlegt, að hún skuli ekki vita, að hún á ekki að stjórna því beinlínis.

Hæstv. atvinnumálaráðherra ljet þess getið, að Tjörneshreppur hefði keypt námuna á 12.000 kr. Þetta getur vel verið. En fyrir nefndinni lágu ekki önnur gögn en afsal hreppsins fyrir eignarheimild sinni á námurjettindum í ½ jörðinni, er hann hafði keypt fyrir 5.000 kr. Af því rjeð nefndin, að kaupverðið, sem hreppurinn gaf, hefði verið nálægt kr. 10.000,00. Nefndin gat ekki farið eftir öðru en skilríkjum þeim, er hún hafði. En hinn hlutinn hefir þá verið dýrari, ef rjett er frá skýrt, og munarar minstu, hvort kaupverðið hefir verið 10 eða 12 þúsund kr.

Hreppurinn selur landssjóði svo að segja jafnskjótt námurjettindin fyrir kr. 18.000,00, og hefir hann því haft töluverðan hagnað af kaupunum, auk annara gjalda og beins og óbeins gagns af kolakaupum, vinnu o. fl.

Þá gat hæstv. atvinnumálaráðherra þess, viðvíkjandi verkstjóra þeim, er sendur var norður í haust, að vegamálastjóri hafi ráðið hann aftur. Jeg vil benda á, að þar er alt öðru máli að gegna. Því víkur öðruvísi við, þegar verkið er komið undir hæfa stjórn, er hefir vit á málinu, að trúa þeim manni fyrir undirumsjón með sjálfri vinnunni, sem við hana hefir verið riðinn um hríð, og það því fremur, sem nú er fenginn útlendur sjerfræðingur, að því er kalla má, er hefir stjórnað samskonar verkum erlendis, heldur en að fela yfirstjórn og einræði um tilhögun vinnunnar manni, sem áður hafði einungis verið verkstjóri undir öðrum.

Nú er ljóst, að það var óráð, enda þarf meira til þess að stjórna öðru eins verki en að hafa verið eitthvað við verkstjórn, undir annars manns yfirstjórn við alveg óskylt verk.

Það er því engin mótsögn, þótt hin nýja stjórn fyrirtækisins, vilji hafa þennan mann framvegis og treysti honum til þess að vinna undir sjer og öðrum sjerfræðingi í viðbót.

Jeg skal ekki fjölyrða neitt um ferð hæstv. atvinnumálaráðherra norður. Hann fór norður til námunnar, kannaði, að því er ætla má, staðhætti og afstöðu alla og rjeði ýmsa aðstoð til verksins. Menn hafa haft skiftar skoðanir um það, hve heppilegt þetta ferðalag hafi verið, en um það skal jeg ekki dæma. Það hefir verið fullyrt, að hann hafi fengið greiddan ferðakostnað norður. Fyrir nefndinni lá eigi annað en ávísun á fjárhæð úr landssjóði fyrir ferð hans.

Jeg tel sjálfsagt, að hann hafi ekki hirt sjálfur neitt af því, sem goldið var til þess kostnaðar, og fjarri sje það mjer að telja það eftir, því það er ekki sá hlutur, er neinu nemur, hver sem upphæðin hefir verið.

Þá talaði hæstv. atvinnumálaráðh. um skýrslu hr. E. G., og virtist mjer hann gera lítið úr henni og jafnvel virða hana vettugi. En einkennilegt er að heyra slíkt af vörum hæstv. atvinnumálaráðherra, þar sem þó er kunnugt, að þessi maður er og hefir verið einskonar trúnaðarmaður stjórnarinnar í þessu og jafnvel fleiru; hann er svo mikill trúnaðarmaður hennar, að eftir að hann hefir gefið út þessa skýrslu sína, þá er nú lýst yfir því af hæstv. atvinnumálaráðherra, að þessi maður eigi að athuga eða yfirskoða reikningana, sem liggja hjá vegamálastjóra. Jeg skal minna á það í þessu sambandi, að vegamálastjóri hefir gert upp reikningana eftir fylgiskjölunum, alt frá upphafi, en hversu ábyggileg þessi uppgerð er get jeg ekki sagt um annað en að menn vita áreiðanlega um allar höfuðupphæðir, m. a. samkvæmt skýrslum að norðan. En þó að nú einhverju kynni að muna, þá skakkar aldrei svo miklu, að þessi útkoma raskist til nokkurra muna ef hallinn verður þá ekki meiri en nú er gert upp.

Þá vil jeg minnast á, að hæstv. atvinnumálaráðherra gat þess, að nú mundi vera búið að taka upp, ekki um 1.400 smálestir, heldur nálægt 2.000 smál., en hann gleymdi að geta um, hversu mikið hefði kostað að taka þá viðbót upp, enda er viðbúið, að halli hafi orðið á því verki.

Jeg fór lítið út í skýrslu hr. E. G. í fyrstu ræðu minni, en að gefnu tilefni frá hæstv. atvinnumálaráðherra vil jeg nú drepa á hana nánar. Hann færir sem rök fyrir máli sínu, að frá 8. okt. til 13. okt. f. á. sje ekkert unnið í námunni og næstu viku sáralítið, og ber verkstjórinn hjer fyrir sig „vöntun á sprengiefni, híbýlagerð og að ótíð hafi tafið útskipun“. Við þetta atriði gerir E. G. þá athugasemd, að sprengiefnabirgðir hafi verkstjóri sjálfur best þekt, og sje um að kenna fyrirhyggjuleysi hans, híbýlin hafi átt að gera um sumarið o. s. frv. Hann álítur, að hægt sje að vinna í námunni og láta aðra menn fást við byggingarnar. Svo heldur hann áfram, að um útskipun geti ekki verið að tala í hafnleysum þar, sje veður svo ilt, að kol verði eigi flutt til sjávar.

Þetta eru hans orð um þau atriði.

Enn fremur segir: „Afhendingarskýrslan er hvað eftir annað skökk og eitt sinnið um 24,5 smálestir“. Telur hann munu vera ,stórkostlegt ólag á bókfærslunni“ eða hún sje „alls engin“, o. s. frv.

Þetta er nokkuð af inntakinu í rökfærslu þessa manns. Að hún sje óábyggileg skal jeg ekki um segja, en hún staðfestir þó það, sem nú er upp komið, að eftirlitið hefir ekki verið sem allra best. pað ber líka vott um eftirlitsleysi, að þessi maður er ekki fenginn til að fylgjast með rekstrinum fyr en Komið er fram í nóv. f. á. og þá sýnilegt, að stjórnina vantar skýrslu um ástandið þar norður frá. Nú hefir það heyrst á hæstv. atvinnumálaráðh., að hr. E. G. hafi gefið aðra skýrslu, sem ekki sje samhljóða hinni fyrri. Það er auðvitað á hans ábyrgð og stjórnarinnar. En svona skýrslugjafir frá sama manninum, sem ekki ber saman, þær sýna eða gefa í skyn, að hann eigi ekki að vera sá trúnaðarmaður stjórnarinnar, sem hann hefir verið. Jeg býst annars við, að útkoma síðari skýrslunnar sje ekki mjög frábrugðin hinni fyrri, þó að rökin sjeu önnur.

Hæstv. atvinnumálaráðh. taldi svo, að þessi halli væri ekki annað en reikningshalli, sem gæti breyst við endurskoðun. Jeg býst nú raunar við, að stjórnin geti orðið mjer sammála um, að ekki sje að vænta betri útkomu síðar. Að skýra svona mikinn halla sem pappírshalla eingöngu, það tel jeg með öllu ókleift og, eins og sakir standa, óleyfilegt. Og jeg hygg, að þetta hafi stórmikla þýðingu í þá átt að sýna, hvernig getur farið fyrir slíkum málum sem þessu í höndum núverandi landsstjórnar.

Þá talaði hæstv. atvinnumálaráðherra um það, að ekki hefði verið hægt frá upphafi að selja kolin hærra verði en 35 kr., vegna þess að þar hefði verið flokkur fyrir, sem lofað hafði svo og svo miklum kolum, en ekki efnt það, með því að stjórnin yfirtók verkið. Þetta sannar ekki neitt, því að þótt svo hefði verið, þá var þó altaf hægt og alt að einu, að inna af hendi þau loforð, sem gefin kunna að hafa verið. Jeg hygg miklu fremur, að ástæðan hafi verið sú, að landsstj. hafi ekki haft neina hugmynd um, hvernig sakirnar stóðu, og hafi því látið alt arka að auðnu. Þá heyrðist mjer það sömuleiðis á hæstv. atvinnumálaráðherra, að hann vildi efast um, að meira hefði verið gefandi fyrir kolin heldur en það, sem þau voru seld fyrir. En hvað viðvíkur þessum kolum og gæðum þeirra, þá hafa þau verið rannsökuð, og hefir það komið á daginn, samkvæmt fullyrðingum sama hæstv. ráðherra, að þau væru bærileg, saman borin við annað innlent eldsneyti. En reynslan hefir þó orðið sú, að þessi kol hafa ekki reynst vel, og stafar það líklega m. a. af því, að illa hefir verið vandað til þeirra, þau hafa verið alt of illa aðskilin, og er þetta eitt af því, sem kemur fram í skýrslu E. G. Aftur á móti hafa það sagt mjer menn, sem reynt hafa kolin úr Hringversnámunni, að þau hafi verið miklu betur aðskilin og þar af leiðandi betra eldsneyti heldur en landssjóðskolin. Jeg fór að reyna að komast að því, hvernig á því mundi standa, að landssjóðskolin væru svona miklu ver hreinsuð heldur en Hringversnámukolin, og sagði mjer þá maður, sem nokkra þekkingu hefir á þessum málum, að ein af ástæðunum gæti verið sú, að verkstjóri landssjóðs hefði verið ráðinn að nokkru leyti upp á „premiu“. Og það er hægt að hugsa sjer, að kolin sjeu ekki sem best vönduð, þegar manninum, sem um það á að sjá, er borgað sjerstaklega fyrir hverja smálest, sem upp er tekin, hvernig sem kolin eru, svo að alls kostar ósennileg er tilgátan ekki, og gæti gefið landssjórninni bendingu um að víkja frá þessu „premíu“-kerfi sínu sem allra fyrst.

Þá er það óneitanlega áberandi við ráðningu þessa verkstjóra, með hversu góðum kjörum hann er ráðinn, og það er einkennilegt, að ekki skuli hafa verið hægt að fá hann eða neinn annan sæmilegan mann með viðunanlegri kjörum, sjerstaklega þó yfir veturinn. Það liggur nú líka í augum uppi, að æfi hans við þessa verkstjórn hefir ekki verið eins bágborin og hæstv. atvinnumálaráðherra vildi gefa í skyn. Jeg get fallist á, að æfi verkamannanna hafi ekki verið sem ákjósanlegust að sumu leyti, en enginn getur talið mjer trú um, að verkstjórinn hafi staðið holdvotur í margra stiga frosti við námuvinnu, enda mun annað um það atriði kunnugt, ef menn vildu út í það fara.

Jeg hygg, að nefndin fari rjett með, þar sem hún telur kaup hans með öllum fríðindum 8.000 kr., eða ekki fjarri því, og það er heldur ekkert eins dæmi nú á tímum, þótt stjórni borgi undirtyllum svona vel, því að nærri liggur, að hver undirtylla, sem stjórnin hefir ráðið í þjónustu sína upp á síðkastið,hafi hærra kaup en alment er greitt þeim föstum embættis- og starfsmönnum landsins, er ábyrgðarmiklum stöðum eiga að gegna. Annars væri vel hægt, til þess að sanna, að tilgáta nefndarinnar muni vera rjett, að lesa upp áætlun um, hversu mikið fæði, húsnæði, ljós og hita o. s. frv. mundi kosta með því verði, sem nú tíðkast, en það ætla jeg þó ekki að gera að þessu sinni, því að hver þingm. getur reiknað það á fingrum sjer.

Hæstv. atvinnumálaráðherra kom mjög inn á það í síðari hluta ræðu sinnar, sem hann hafði talað um í fyrri hluta hennar, sem sje að aðdragandanum að því, að hafin var kolavinna á Tjörnesi, og afleiðingum hennar. Taldi hann, að þingið hefði gefið tilefni til þess og ætti því sök að máli. Jeg ætla mjer ekki nú að fara að skýra afstöðu þingsins til þessa máls, fremur en jeg hefi áður gert, en það getur á engan hátt borið ábyrgð á því, sem nú er orðið. Jeg býst sem sje við, að þingið hafi yfirleitt trúað því, er það samþykti að kolavinsla skyldi hafin, að landsstjórnin gæti ráðið fram úr því á viðunandi hátt, en það hefði landsstjórninni átt að vera ljóst, að það var hún ekki á eigin spýtur fær um, og: hefði hún því þegar átt að fá sjer þá menn til aðstoðar, er þeim vanda voru vaxnir.

Vjer vitum, að því mun vanalega vera svo varið, að menn, sem skuldbinda sig til að selja eitthvað við ákveðnu verði, gera það ekki fyr en þeir hafa gert sjer einhverja hugmynd um, hversu mikið varan muni kosta þá. En svo er þessu ekki farið með hæstv. landsstjórn. Hún býður út kolin á 35 kr. smál., án þess að hún viti, hvað kostar að vinna þau, eftir að hún hefir ráðist í að kaupa námuna, án þess að hafa rannsakað hana nokkurn hlut. Hún lætur vinna hana á kostnað landssjóðs, bæði sumar og vetur, án þess að hafa athugað það nokkuð, hvernig það mundi borga sig, og það hefir þá líka komið á daginn, að vetrarvinnan, alt til 9. mars a.m.k., hefir verið til sáralítils gagns, en aftur á móti afarkostnaðarsöm. Það sjá því allir, að landsstjórnin hefir rent blint í sjóinn í þessu máli og hefir í reiðileysi ráðist í þessa vetrarvinnu, svo að ekki sje meira sagt. Hæstv. ráðherra vildi taka til samanburðar ýmislegt, sem gerst hefir, er ráðist hefir verið í einhver fyrirtæki í fyrsta sinni, og nefndi hann til „Vestu“-útgerðina, sem leitt hefði til þess, að nú væri risinn hjer upp innlendur skipastóll. Þessu mun fljótsvarað, því að sú útgerð var andvana fædd þegar í upphafi, og þá var og sá munur á, að landsstjórninni mun þá varla hafa komið til hugar að reka skipaútgerð yfirleitt á kostnað landsins. Og skipastóllinn okkar er ekki kominn fyrir tilstilli landsstjórnarinnar, heldur miklu fremur einstaklinga, nú að síðustu, einkum Eimskipafjel. Íslands.

Þá mintist hæstv. atvinnumálaráðherra á mótakið hjer í Reykjavík og tók fram, hversu mikið tap hefði orðið á því fyrir bæinn. En hjer er talsvert öðru máli að gegna en um kolanám landsstjórnarinnar norður á Tjörnesi. Því hjer var um það að ræða, hvort bærinn ætti að fara að ráðast í móvinnu hjer í námunda, í sínu eigin landi, og svo ræðst bæjarstjórnin í þetta, með það fyrir augum að afla bænum eldsneytis, en líka með það vísvitandi fyrir augum, að það muni ekki bera sig á fyrsta ári, og ef hæstv. landsstjórn vill halda því fram, að hún hafi vitað það, að þessi kolavinsla mundi ekki bera sig, þá veit hún meira, og hefir vitað frá byrjun, en hún hefir viljað láta uppi við þingið, og meira en komið hefir fram í ræðu hæstv. atvinnumálaráðherra. — Nei, munurinn er sá, að landsstjórnin ræðst í kolanámið og heldur því áfram, án þess að sjeð verði, að hún hafi haft nokkra hugmynd um, hvort það beri sig eða ekki. Eins og háttv. þingm. hafa nú sjeð og heyrt, þá hafa við þetta atriði ekki komið fram neinar skýringar frá hæstv. atvinnumálaráðherra, er nokkur skapaður hlutur sje á að græða.

Jeg verð nú að skýra ofurlítið nánar frá kaupum námunnar. (Atvinnumálaráðherra: Það hefir verið skýrt.) Þingið hefir engar fullnægjandi skýringar um það fengið. (Atvinnumálaráðherra: Það var betra að kaupa heldur en að leigja). Ef skaði er að námunni, þá borgaði sig betur að leigja hana, því að þegar þetta var skoðað sem tilraun, þá var það ekki ráðlegt að kaupa, heldur átti að nota leiguheimildina til þess að sjá, hvort þarna væru nokkur kol fyrir, er borgaði sig að eiga við. Jeg skal nú ekki segja um það, hversu mikil kol eru þarna fyrir hendi, en ef tilefnið var einhver laus sögusögn hlutaðeigenda fyrir norðan um það, að betur mundi borga sig að kaupa af þeim heldur en leigja, þá hafa kaupin sannarlega verið bygð í lausu lofti.

Þá er það líka með öllu óskýrt, hvernig á því stóð, að verkinu var haldið áfram, þó að það bæri sig svona illa, því jeg tel það enga skýringu, sem er fjarstæða, að halda hefði þurft áfram vetrarvinnu til þess að komast að því, hvort „tilraunin“ mundi borga sig; að þeirri niðurstöðu hefði stjórnin átt að vera komin eftir sumarvinnuna. Þess vegna verður ekki hjá því komist, að hæstv. atvinnumálastjórn ber alla ábyrgðina á þessari vetrarvinnu og útkomu hennar. Náttúrlega kemur mjer það ekki á óvart, þó að hæstv. stjórn láti sjer þessa ábyrgð í ljettu rúmi liggja, en á henni hvílir hún þó. Sumir vilja auðvitað líta svo á þetta mál, að ekki sje það svo stórfelt, að gerandi sje veður út af, en jeg tel víst, að þeir muni fleiri, sem telja þessu ráðlagi öllu ekki bót mælandi.

Að lokum klykti hæstv. atvinnumálaráðherra út með því, að það mundu vera forlög þessarar stjórnar, að henni yrði borið á brýn, að hún hefði allajafna valið óheppilega menn til að standa fyrir verkum sínum. En jeg tel það litla bót í máli, því að ef eitthvað er til í þessu, þá er það skylda hennar að reyna að afstýra þeim forlögum, nema ef hæstv. stjórn vill gera það að trúarsetningu sinni í þessum málum, að enginn megi sköpum renna. En samt er það ekki sem best við eigandi að telja þetta alt af óviðráðanlegum eða jafnvel yfirnáttúrlegum ástæðum til komið. Ef hæstv. stjórn hefir komist að þeirri niðurstöðu, að hún hafi verið óheppin í mannavali, þá vona jeg einmitt, að hún sjái nú að sjer og lofi því og efni, að velja framvegis ekki óhæfa, heldur hæfa menn, til að standa fyrir framkvæmdum landsins, og hætti algerlega að láta reka á reiðanum.

Það er ýmislegt og margt fleira í þessu máli, sem full ástæða væri til að minnast nokkuð frekar á, til skýringar, og getur verið, að maður komi inn á það síðar meir, en þar sem ræða hæstv. atvinnumálaráðherra hefir ekki gefið tilefni til þess, læt jeg það ósagt að þessu sinni.