22.05.1918
Neðri deild: 28. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 481 í C-deild Alþingistíðinda. (1899)

51. mál, námurekstur landssjóðs á Tjörnesi

Einar Árnason:

Þetta er að eins stutt athugasemd, í sambandi við orð háttv. þm. Stranda. (M. P.).

Hann gat þess, að að skýrslunni stæðu menn úr öllum þingflokkum. Jeg skal þess vegna skýra afstöðu mína til málsins.

Þegar jeg sá uppkastið að skýrslunni hjá skrifara nefndarinnar, var mjer strax ljóst, að blærinn á henni var ekki sem viðkunnanlegastur. En það þóttu mjer svo miklir smámunir, að jeg vildi ekki gera það að ágreiningsefni og skrifaði því undir fyrirvaralaust. Það eitt var mjer aðalatriði, að skýrslan væri að efni til rjett; og jeg hafði fyrirfram enga ástæðu til að ætla, að svo væri ekki, hafði heldur engin gögn til þess að sanna það gagnstæða. Enda mundi þá koma fram í umræðunum í deildinni, ef rangt væri farið með einhver atriði. En jeg hafði orð á því, að mjer fjelli þingsályktunartillagan ekki alls kostar í geð, — þótti viðurhlutamikið, ef nú þegar yrði hætt kolanáminu, og það af tveim ástæðum. Í fyrra lagi af því, að hjer hafði verið lagt mikið í kostnað með áhöld og byggingar til starfrækslunnar, og því óhyggilegt að hætta vinnunni á besta tíma ársins. Og í síðara lagi virtist hjer vansjeð, hve miklum eldivið þjóðin hefði úr að spila á næsta vetri. En skrifari nefndarinnar skýrði mjer frá, að eigi bæri að skilja tillöguna á þann veg, að vinnunni skyldi hætt nú þegar, heldur skyldu gerðar frekari tilraunir nú fyrst um sinn. Og með þetta fyrir augum ljet jeg óátalið, að tillagan yrði borin framínafni allrar nefndarinnar. Ella mundi jeg ekki hafa ljeð henni fylgi mitt.

En nú er fram komin rökstudd dagskrá, sem er algerlega í samræmi við skoðun mína á málinu. Og ef dagskrá þessi verður feld, getur stjórnin ekki skilið tillögu nefndarinnar á annan veg en hætta skuli kolanáminu þegar í stað. Því það kom ekki nógu skýrt í ljós í ræðu hv. framsm. (G. Sv.), hvers nefndin ætlaðist til um vinnuna framvegis.

Eins og jeg þegar hefi tekið fram, fann jeg ekki ástæðu til að skorast undan að skrifa undir skýrsluna. En hins vegar vil jeg taka það fram, að jeg hvorki get nje vil bera ábyrgð á öllu því sem hv. framsm. (G. Sv.) hefir sagt um þetta mál hjer í deildinni.