23.05.1918
Neðri deild: 29. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 494 í C-deild Alþingistíðinda. (1904)

51. mál, námurekstur landssjóðs á Tjörnesi

Sigurður Stefánsson:

Áður var að minsta kosti einn af ráðherrunum viðstaddur þessar umr., en nú sje jeg, að enginn þeirra er hjer í deildinni; stjórnin mun þykjast hafa gert hreint fyrir sínum dyrum og álítur óþarft að hlýða á frekari umr. í þessu máli.

Mál þetta hefir verið allmikið rætt og| nákvæmlega. Þetta er nú 3. dagurinn, sem við erum í þessu Tjörnespensionati, og mun hv. þm. þykja fæðið svo gott, að þeir vilja ekki þaðan fara fyr en í fulla hnefana.

Jeg skal ekki endurtaka það, sem sagt hefir verið í þessu máli, en að eins víkja að hinni almennu hlið málsins og ummælum hæstv. forsætisráðh. um hana.

Hæstv. forsætisráðh. skildi svo till. nefndarinnar, á þgskj. 112, að með henni væri skotið slagbrandi fyrir allar frekari rannsóknir á Tjörnesnámunni. Jeg skil ekki, hvernig hæstv. forsætisráðh. getur lesið till. þannig. Þvert á móti er beint gert ráð fyrir því að halda áfram námurekstrinum, verði tekjuhalli hverfandi lítill í samanburði við þann halla, sem verið hefir undir stjórn landsstjórnarinnar. Að þessu leyti er till. fullskýr, eins og líka sessunautur minn, hv. þm. Dala. (B. J.), viðurkendi. Till. nefndarinnar og þær rökstuddu dagskrár, sem fram eru komnar, fara í sömu átt, nema hvað orðalagið í dagskrá hv. þm. S.-J. (P. J.) — verulegur halli — er óákveðnara en í till. á þgskj. 112. Að halda því fram, að með þessu sje loku skotið fyrir frekari framkvæmdir, get jeg ekki skilið. Nefndin gerir ráð fyrir því, að haldið verði áfram rekstri námunnar, en vill slá varnagla við því, að haldið verði áfram í öðru eins ráðleysi og hingað til hefir átt sjer stað. En hins vegar er það auðsætt af ræðu hæstv. forsætisráðh., að hann vill, að þingið hummi málið fram af sjer, tali sem minst um það, en gefi stjórninni óbundnar hendur eftirleiðis, sem hingað til. En þá hefði þingið skilið svo við þetta mál, að alveg hefði verið óverjandi. Því þó að það þyki barlómsbumbusláttur að tala um fjárhag landssjóðs hjer á þingi, þá verður það ekki varið að kasta í sjóinn fje, sem nemur hundruðum þúsunda kr., eins og stjórnin hefir gert, bæði í þessu kolanámi og öðrum fyrirtækjum, er hún hefir haft með höndum. Fjárhagurinn er nú ekki svo glæsilegur, að landið megi við því, þegar líka er litið til þess, hvernig stjórninni hefir hingað til tekist að fá hagkvæm lán fyrir landið, að lántökur hennar hafa verið líkastar lántökum gjaldþrota manns, til þess að forðast hengingu í bráðina.

Hæstv. forsætisráðh. kveður nefndina halda því fram, að stjórnin hafi átt að hætta námurekstrinum er hún sá, að tekjuhalli myndi verða. Þetta fæ jeg ekki lesið út úr skýrslu nefndarinnar. En hitt þykir nefndinni vítavert, að stjórnin skuli ekki hafa haft hugmynd um þennan halla fyr en um nýár. Það álit er ekki sett fram með svo mikilli frekju, að árás geti kallast eða hótfyndni. Auðvitað var það fyrsta skylda stjórnarinnar að fá vitneskju um, hvort reksturinn myndi borga sig. Fyr gat hún ekki gert ráðstafanir til þess að minka kostnaðinn og hallann. En er hún hafði fengið þessa vitneskju, var innan handar að haga svo til, að hallinn yrði minni. Við þetta ætla jeg að nefndin eigi í skýrslu sinni og ræða hv. frsm. (G. Sv.).

Þá þótti hæstv. forsætisráðh. þingið gera sig sekt í mótsögn, ef það vildi nú hætta við námuna á Tjörnesi, en styðja samt einstaka menn til þess að reka hana. Í þessu fæ jeg ekki sjeð neina mótsögn. það er á allra vitorði, að stórfyrirtæki fara hinu opinbera jafnan ver úr hendi heldur en einstökum mönnum. Þó að fyrirtækið bæri sig ekki undir landsstjórninni, gat það verið arðvænt undir stjórn annara. Dæmi þessa deginum ljósara er náma Þorst. kaupmanns Jónssonar, við hliðina á Tjörnesnámunni. Er því 2. liður till. alls ekki í mótsögn við fyrri liðinn. Það er að eins sjálfsögð bjargráðatilraun, að stjórnin styrki einstaka menn með ráðum og dáð til slíkra framkvæmda, þótt henni sjálfri færu þær illa úr hendi. Í þessu sambandi vil jeg minna á styrk þann, sem farið er fram á að þingið veiti til kolanáms í Gunnarsstaðagróf í Steingrímsfirði. Þar veit þingið hvað það er að gera. Í stað þess að tefla á tvær hættur, leggur það fram vissa upphæð til þess að styðja framtakssemi einstakra manna og tilraunir til að afla innlends eldsneytis.

Þótt jeg hafi hlustað hjer á varnir stjórnarinnar, get jeg ekki fundið, að skýrsla nefndarinnar sje í neinu hrakin minstu vitund. Í henni stendur alt sem stafur á bók, þrátt fyrir ummæli þeirra manna, sem finna sí og æ hvöt hjá sjer til þess að bera í bætifláka fyrir stjórnina. Mjer virðast menn þeir, sem verja gerðir stjórnarinnar í þessu, hafa tekið svo lausum tökum á málinu, að ræður þeirra hafi farið fyrir ofan garð og neðan.

Þá er að minnast á eitt atriði frá almennu sjónarmiði. Því hefir verið haldið fram af stjórnarinnar hálfu, að þingið beri eins mikla ábyrgð í þessu máli sem stjórnin. Þetta kemur mjer nokkuð kynlega fyrir. Að vísu er þetta gömul saga, að vilja koma sínum eigin ávirðingum á aðra; þar er saga Adams forföður okkar, er kendi konunni sinni um fyrsta glapræði sitt. Síðan hefir okkur Adamsniðjum verið tamt að skella skuldinni á aðra, þegar oss hefir orðið eitthvað á. Furðar mig þess vegna ekki á því, þótt stjórnin vilji skella skuldinni á Alþingi í þessu máli. Sá undirbúningur, er þingið hafði þessu máli, var að mínu áliti sjálfsagður og nægilegur til þess, að verkið mætti fara vel úr hendi. Því hefir að vísu verið haldið fram, að áskorun sú til stjórnarinnar um rannsókn á kolanámum, er samþykt var hjer í deild á aukaþinginu 1916, hafi ekki verið bindandi fyrir stjórnina, því að hún var svæfð í hv. Ed. En þó að svo hafi farið, þá álít jeg það skyldu stjórnarinnar að taka svo mikið tillit til vilja Nd., að hún hefði átt að byrja á að láta sjerfróðan mann rannsaka námuna, áður en byrjað var að vinna þar að kolanámi; það var sjálfsögð ráðstöfun frá stjórnarinnar hendi, jafnvel þó engin áskorun hefði um það fram komið.

Það var sjálfsögð bjargráðaráðstöfun af þingsins hálfu, að skora á stjórnina að gera alt, sem unt var, til þess að afla innlends eldsneytis og heimila fje til þess. Ábyrgð Alþingis getur því ekki talist þung. Alþingi gat að sjálfsögðu ekki haft fult eftirlit með málinu; það hlaut eingöngu að hvíla á herðum stjórnarinnar. Jeg áleit því, að hjer sje um enga ábyrgð þingsins að ræða; það hefir ekki gert annað í þessu máli en það, sem rjettmætt er og sjálfsögð skylda bar til, en þá fyrst hefði þingið bakað sjer ábyrgð, hefði það vanrækt þetta. Og þótt segja megi, að þingið beri ábyrgð á því, að byrjað var á námurekstrinum, þá má ekki rugla henni saman við þá ábyrgð, sem hvílir á atvinnumálstjórninni fyrir rekstur verksins. Er það á ábyrgð þingsins, að þeir menn voru ráðnir til verksins, sem ekki voru því vaxnir ? Er það á ábyrgð þingsins, að hærra kaupgjald hefir verið greitt en dæmi eru til? Að á verkinu var byrjað, án þess að nokkuð væri rannsakað hvort það myndi borga sig, og að stjórnin vanrækir — eins og hún hefir sjálf viðurkent — að hafa það eftirlit með fyrirtækinu, sem hana bar skylda til? Sje svo, þá horfir málið öðruvísi við og þá mætti margt tala um ábyrgð þingsins. (E. A.: Alt óbeinlínis á ábyrgð þingsins). Auðvitað má segja, að það sje á ábyrgð þingsins, ef það á frumkvæði til nokkurs skapaðs hlutar. En þingið gerir þó ráð fyrir að eiga stjórn, er framkvæmir það, sem fyrir hana er lagt, með einhverju viti. Stjórnin er að eins ráðsmaður þingsins, og það er skylda hvers ráðsmanns að fara svo með það, sem honum er trúað fyrir, að hann baki sjer eigi ábyrgð fyrir ráðdeildarleysi og trassaskap. Verði því svarað játandi, að öll ábyrgðin hvíli á Alþingi, þá er sjálfsagt að þingið iðrist, setjist í sekk og ösku og komi krjúpandi að fótum stjórnarinnar og biðji hana um að halda því áfram, er það hafi svo ráðdeildarlaust byrjað á.

En verði svarið neitandi, þá er jeg fyllilega á sama máli sem hæstv. forsætisráh., er hann brýndi nefndina og þingið á því, að nær væri að ganga hreint að verki heldur en að koma með aðra eins till. og þá, sem nefndin ber fram. Jeg hjó eftir því, að hann talaði um að ganga hreint að verki; í þeim orðum felst talsvert umhugsunar efni nú á tímum. Mjer skildist hann eiga við, að nær væri að losa stjórnina ekki einungis við öll afskifti af þessu máli, heldur og við öll stjórnarstörf yfirleitt. Getur verið, að jeg misskilji orð hans, en eins og þau fjellu, liggur næst að skilja þau á þennan veg. En hæstv. forsætisráðh. veit vel, hvar hann stendur á þessu þingi. Hann veit, að þær skjaldborgir eru ekki árennilegar, sem þingið hefir skotið um stjórnina þríhöfðuðu, nje heldur þeir útverðir og skjaldsveinar, er haldið hafa uppi vörnum fyrir hana í tíma og ótíma. Hefði hæstv. forsætisráðh. ekki vitað þetta, þá hefði hann varla hrækt svo hraustlega.

Jeg er einráðinn í því, að greiða till. nefndarinnar atkvæði mitt. Hinar rökstuddu dagskrár fara í líka átt, en jeg finn þeim það mest til foráttu, að í þeim er nefnt traust til stjórnarinnar. Í mínum augum hefir stjórnin farið svo að ráði sínu í þessu máli, að þingið getur varla nefnt traust til hennar í sambandi við það, og jeg get ekki greitt neinum þeim till. atkvæði mitt, sem bygðar eru á trausti til þessarar stjórnar.

Það fer svo fjarri því, eins og jeg þegar hefi sýnt fram á, að till. skjóti slagbrandi fyrir allar framkvæmdir í þessu máli, að hún vill þvert á móti láta reynsluna skera úr, hvort gerandi sje að vinna námuna með hverfandi litlum halla. Sje það ekki unt, hygg jeg að öllum komi saman um, að ekki sje rjett að halda áfram. Jeg hygg, að þingið baki sjer ekki neina ábyrgð, þótt það ljeti þá staðar numið.

Að endingu vil jeg leyfa mjer að skjóta einni spurningu til búandi manna hjer í hv. deild. Hvað myndu þeir gera við ráðsmann, sem hefði farist ráðsmenskan á búi þeirra álíka vel úr hendi og hæstv. stjórn hefir farist í þessu máli? Hvort myndu þeir ráða hann aftur eða reka hann í burt?