23.05.1918
Neðri deild: 29. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 518 í C-deild Alþingistíðinda. (1909)

51. mál, námurekstur landssjóðs á Tjörnesi

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg hefi því miður ekki getað verið við umræðurnar í dag, og hefi því ekki getað heyrt þær athugasemdir, er komið hafa út af þeim vænti þess, að þeir hv. þingm., sem kunna að hafa mótmælt því, sem jeg sagði, hafi gætt þess, að jeg fór alls ekki inn á aðfinnigar hv. frsm. (G. Sv.), að því leyti sem þeir snertu framkvæmd verksins, því um það fann jeg mjer ekki skylt að segja neitt. Jeg talaði alment um málið sem lið í hinum almennu dýrtíðarráðstöfunum, sem gerðar hafa verið, og í sambandi við það hjelt jeg því fram, að í því væri engin skynsamleg meining að taka nú fyrir kverkar á öllu kolanámi á Tjörnesi, einkum ef svo mætti álíta, að námureksturinn væri nú kominn í það lag, er alment væri álitið hyggilegt. Þóttist jeg þar hafa fyrir mjer það, sem þingið sjálft hefir að gert undanfarið, og jafnvel annars nú, og stefnir í þá átt, að nú stæði svo á hjer, að menn ættu að reyna að bjargast sem mest af sínu eigin. Um það hefir verið deilt, hvort till. hv. fjárhagsnefndar taki fyrir kolanám af hálfu landsstjórnarinnar. Skal jeg ekki fara út í þá deilu, því að það atriði kemur mjer ekki við, nema að því leyti, sem allri stjórninni koma við almennar bjargráðaráðstafanir. En jeg vil segja, að ef þetta mál heyrði undir mína deild, þá mundi jeg láta hætta kolavinslu á Tjörnesi, ef tillagan væri samþykt, þar sem það er lagt stjórninni á herðar að sjá svo um, að enginn halli verði af þessum rekstri. Það er krafa, sem að minni skoðun, ekki er hægt, eftir atvikum, að gera gagnvart neinni stjórn, enda virðist þingið í fyrra ekki hafa látið sjer detta slíkt í hug. Hitt er annað mál, að það er auðvitað á ábyrgð stjórnarinnar, ef framkvæmdir í málinu eru óforsvaranlegar. Það, sem jeg fann að, var það, að blandað væri saman fyrirtækinu í heild og hinu, hvort framkvæmdirnar væru óforsvaranlegar eða ekki.

Jeg heyri sagt, að hv. þm. N.-Ísf. (S. St.), hafi lagt þann skilning í orð mín, að stjórnin hefði haft óbundar hendur til að fara ráðlauslega að. Það er ósannað, að svo hafi verið, en það er misskilningur hans, að jeg hafi sagt nokkuð um það. Jeg sagði beint hið gagnstæða.

Hv. þm. (S. St.) sagði, að jeg mundi ekki hafa talað svo borginmannlega, ef jeg hefði ekki treyst því, að hafa fylgi hjer í hv. deild. Jeg skil nú ekki þennan útúrdúr, enda hefir hann líklega ekki verið til annars en koma að setningu, er honum hefir fundist hnittileg. Annars get jeg sagt hv. þm. N.-Ísf. (S. St.), að jeg er ekki svo fjarskalega smeykur, þótt jeg hefði ekki stóra skjaldborg um mig. Við erum báðir komnir á þann aldur, jeg og hv. þm. N.-Ísf. (S. St.), að við ættum að taka með stillingu því, sem að höndum ber.

En þar sem jeg heyrði ekki ræðu hv. þm. N.-Ísf. (S. St.), get jeg ekki svarað henni frekar, en býst annars ekki við að þurfa að tala mikið um málið framar, einkum eins og það horfir nú við.

Jeg veit ekki, hvað hv. þm. Stranda. (M. P.) hefir sagt, en hefi heyrt, að hann hafi farið þeim orðum um málið, að það þyrfti að sýna og sanna þjóðinni, að það væri stjórninni að kenna, hve illa hefði farið með Tjörnesnámureksturinn. Sje svo, þá er þetta ekki nema rjett. Ef þessi hv. þm. (M. P.) getur sannað deildinni, að það sje að eins stjórninni að kenna, að námureksturinn á Tjörnesi hafi ekki borgað sig, þá ætti hún sannarlega að greiða atkvæði á móti þessari till., því að þá er bótin ekki í því, að hætta við námureksturinn, heldur í því, að breyta til um umsjón og framkvæmd verksins.

Mjer er sagt, að einhver hv. þm. hafi tekið til athugunar útreikning minn á kolaverðinu. Jeg held, að það sje samt nærri lagi, sem jeg hefi sagt um gildi kolanna og verð það, sem mátt hefði selja þau við á staðnum og í nærliggjandi sýslum. En jeg vil þó segja, að þetta, sem jeg sló fram um gildi kolanna gagnvart útlendum kolum, sje ekki svo fjarri lagi. Það hefðu verið ca. 150.000 kr., er kolin hefðu átt að borga, ef alt hefði átt að jafna sig. Nú segir nefndin, að unnin hafi verið 1.430 smál. þá hefði tonnið orðið að kosta 105 kr. á staðnum, til þess að borga kostnaðinn.

Auðvitað þurfti að flytja nokkuð af kolunum í burtu, og legðist þá flutningskostnaður á þau. En jeg geri ráð fyrir því, að 3 næstu sýslur myndu geta tekið um 1.500 smál. og sparað útlend kol að sama skapi. Á þeim kolum hefir ekki orðið mikill flutningskostnaður, svo að smál. myndi ekki hafa þurft að kosta kaupendur meira en um 120 kr. Hafi íslensku kolin nú hitagildi að 2/5 hlutum á við bresk kol, myndi þetta svara til 300 kr. verðs á þeim. Svo þótt jeg slægi því lauslega fram, að námureksturinn hafi ekki verið þjóðarskaði, móts við það að kaupa erlend kol, þá ætla jeg að standa við það, einkum þegar þar við bætist, að verð erlendra kola fer svo að segja alt út úr landi, en hitt er í landinu sjálfu. Jeg bar þetta verð á kolunum ekki heldur saman við kostnaðinn við að vinna annað innlent eldsneyti; einnig að þessu leyti er reikningur minn óaðfinnanlegur. Jeg lagði áherslu á það, að rangt væri að taka málið á þann hátt, sem nefndin hefir gert, í stað þess að greina það í sundur, sem greina átti og óskylt er.

Mjer þótti miður, að mjer fanst umr. lýsa því, að menn vildu ekki hallast á þá sveifina að nota alt, sem landið getur látið í tje. Jafnvel þótt það kosti fult svo mikið, sem að kaupa vörurnar frá útlöndum, er stórhætta í því fólgin að kaupa vörur afarverði erlendis og geta ef til vill ekki borgað þær með innlendum afurðum. Það steypir löndum í skuldir, og væri það stórhætta fyrir okkur, eins og nú stendur á.

Jeg vona, að mjer gefist seinna kostur á að ræða þetta mál nákvæmlegar við nefnd þá, sem hlut á að máli, og hv. Alþingi. Mig langar til að vita, hvort mönnum getur ekki skilist, að ástandið í heiminum er ískyggilegt, og það getur komið meir við okkur en hingað til. Það getur að því komið, að við spyrjum ekki um, hvort það borgi sig, er við tökum hjá sjálfum okkur, heldur reynum að nota uppsprettur landsins sem mest, hvað sem það kostar.

Þá gat forseti þess, að þessir þm. hefðu óskað umr. slitið og að gengið væri til atkv. tafarlaust:

Sv. Ó., P. O., E. J., St. St., Þorst. J., og B. St.