15.07.1918
Sameinað þing: 7. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 616 í C-deild Alþingistíðinda. (1993)

115. mál, heildsala

Sigurjón Friðjónsson:

Jeg skal ekki tefja hv. þm. með langri ræðu.

Jeg vil geta þess, að þegar jeg skrifaði nafn mitt við till. þessa, þá gat jeg þess strax, að mjer lítist till. svo, að hún hefði ekki mikla þýðingu. Jeg sagðist ekki sjá, að landsstjórnin hefði fje til að taka verslun landsins meir í sínar hendur en þegar hefir verið gert, og af þessu leit jeg svo á, strax í upphafi, að till. væri gagnslítil og meinlaus. Mig hefir því furðað mótblástur sá, sem fram hefir komið gegn till., og jeg hjelt, að hann væri sprottinn af misskilningi. Sumir líta og svo á till., þó stór orð sjeu, að hún sje „húmbúg“, og ef svo væri, er mótblásturinn enn þá kynlegri, og jeg fer því að halda, að meira sje spunnið í till. en mjer leist í öndverðu.

Gagn það, sem mjer sýndist vera af till., er tvent. Í fyrsta lagi, að með henni sýndi þingið lit eða vilja sinn í málinu, og þetta var aðalatriðið fyrir mjer, og hitt annað, að till. brýndi stjórnina til að taka meira af versluninni í sínar hendur en verið hefir; en jeg get ekki verið samþykkur því, að brýna stjórnina til að taka meiri lán til að reka verslunina en þegar er orðið nauðsynlegt. Jeg var því ráðinn í því að greiða ekki till. atkv., áður en nokkur mótblástur var hafinn gegn henni.

Hitt finst mjer ekki óviðeigandi, að þingið sýni lit í málinu, og það gerir það með dagskrá þeirri, er hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) las upp.

Jeg býst við því, að óróleikinn móti till. stafi af því, að Reykvíkingar haldi, að á bak við till. liggi það, að flutningsmennirnir vilji koma allri versluninni á eina hönd, landsins hönd, og útrýma öllum kaupmönnum með ofbeldi. En það hefir aldrei verið ætlun mín, hvað sem öðrum líður. Jeg tel nauðsynlegt, að þessar tvær stefnur, sem um er deilt, kaupfjelagsskapur og kaupmenska, haldi báðar áfram fyrst um sinn. Því reynslan hefir alls ekki sýnt enn þá til fulls, hvor stefnan er rjettari. Þær þurfa að keppa saman í lengri tíma til þess en enn þá er orðið.

Jeg lít því svo á, sem það geti ekki komið til greina, að landsverslunin að svo stöddu taki alla verslunina í sínar hendur, þó má ske væri gott meðan á stríðinu stendur, ef hún hefði fje til þess. Og jeg ætla, að flutningsmennirnir sjeu því ekki fylgjandi, nema þá mjög fáir.