28.06.1918
Neðri deild: 58. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 791 í C-deild Alþingistíðinda. (2144)

105. mál, bráðabirgðalaunaviðbót til embættismanna o. fl.

Jörundur Brynjólfsson:

Menn hafa nú drepið á svo margt í þessu máli, að jeg get verið næsta fáorður um það.

Svo er nú orðið ástatt um þetta mál, að ef til vill hefði verið hagkvæmara að taka alt launamálið til meðferðar, í stað þess að gera að eins þessar bráðabirgðabætur á launakjörum nokkurra starfsmanna landsins, sem verða ekki annað en kák. En jeg skal ekki fara frekar út í þá sálma, heldur minnast lítið eitt á frv. sjálft.

Eins og vikið hefir verið að áður, verða allmargir starfsmenn landsins út undan og fá enga uppbót á launum sínum. Einkum virðast mjer póstmenn hart leiknir. Þeir hafa 1.000—1.800 kr. í laun allflestir; hreinasta undantekning, að þeir hafi hærra kaup. Þeir vinna altaf jafnt og þjett frá morgni til kvelds, og oft einnig helga daga, og geta því á engan hátt bætt kjör sín með aukavinnu. Það hefir verið drepið á, að þeir hafi fengið hækkuð laun sín í fyrra, og því sje ekki ástæða til að hækka þau nú. Jeg verð að líta öðrum augum á þetta. Hjer er að ræða um heimilisfeður, fjölskyldumenn, er hafa 1.000 kr. í kaup, eða litlu meira, og getur hver sagt sjer, hvert sældarbrauð það muni vera að þurfa að bjargast með fjölskyldu við þessi laun, þó að þeir fái að vísu dýrtíðaruppbót á þessum launum.

Það sýnist heldur engin ástæða til þess að setja þá hjá, þó að þeir hafi ekki sent umkvartanir til þingsins, eins og einhver drap hjer á áðan. Ef þingið bætti kjör þeirra, myndi það að eins sýna, að því væri engu óljúfara að bæta kjör þeirra, þó að þeir hefðu ekki kvartað, svo framarlega, sem því væri kunnugt um, hve bág kjör þeir ættu við að búa.

Hygg jeg, að flestir hv. þm. viti þetta, og vona, að þeir verði svo sanngjarnir að ljá lið sitt til þess að bæta á einhvern hátt kjör þessara starfsmanna. Mætti hafa á því svipað fyrirkomulag og lagt er til að hafa á uppbót til prestanna. Jeg ætla nú að vænta þess, að hv. frsm. (M. Ó.) upplýsi deildina um, hvort þetta hafi ekki borið á góma í nefndinni og hvort nefndin mundi vilja styðja að því. Ef fjárveitinganefndin tekur ekki þessa starfsmenn með, mun jeg bera fram brtt. um þá við 3. umr. Jeg álít, að svo sje ástatt um þessa starfsmenn, að þinginu sje ekki sæmilegt að ganga fram hjá þeim og líta ekki á þörf þeirra.

Sje jeg svo ekki ástæðu til að fara frekar út í þetta, enda hygg jeg, að málið græði ekki býsna mikið á þessum umr. Út í einstakar brtt. mun jeg ekki fara, en sýni með atkv. mínu, hvernig jeg lít á þær.