28.06.1918
Neðri deild: 58. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 793 í C-deild Alþingistíðinda. (2146)

105. mál, bráðabirgðalaunaviðbót til embættismanna o. fl.

Gísli Sveinsson:

Það er nú farið að koma í ljós, er ýmsir hv. þm., og þar á meðal jeg, ljetu um mælt á síðasta þingi, að sæmst mundi og óhultast að áætla dýrtíðaruppbótina, er þingið veitti, svo ríflega, að ekki þyrfti að koma til sjerstakra launabóta meðan stríðið og þar af leiðandi dýrtíð stæði, sjerstaklega þar sem jeg og aðrir hv. þm. — þar á meðal þeir, sem gætilegast vilja fara í launauppbótum — lítum svo á, að það væri rjett stefna að fara nú dýrtíðaruppbótarleiðina, í stað þess að ráðast í það að breyta launalöggjöfinni, meðan svona stendur, og hækka launin. Tímarnir eru svo nú, og ástand og peningagildi alt á reiki, að það gæti tæplega talist rjettmætt gagnvart starfsmönnum landsins, er launanna njóta, og þó því síður gagnvart landssjóði.

En nú er þó svo komið, að ekki þykir verða komist hjá að taka launamálið til nokkurrar meðferðar, af því að það var gert af alt of mikilli skammsýni á síðasta Alþingi, og þá ekki síst í þessari hv. þingdeild, að skera dýrtíðaruppbótina við neglur sjer. Að þetta mál er hjer fram komið að þessu sinni er því satt að segja að kenna þessum hv. sparsemdarmönnum, er mestu hafa ráðið í þessum málum á síðustu þingum, sparsemdarmönnum, sem jeg get fylgt í mörgu, en svo langt hafa farið í sínum sparnaði, að það er og verður óhyggilegt. Hygg jeg nú, að enginn þeirra vilji beita sjer gegn launabótum í einhverri mynd, er líkist því, sem farið er fram á í frv. því, er hjer liggur fyrir. En þá kemur þetta upp, sem þegar hefir látið til sín heyra, að það verður naumast hægt að gera öllum jafnrjett til, því að ýmsir eru ekki teknir með, sem eru starfsmenn landsins, og aftur aðrir teknir með, sem efamál er að komist til jafns við þá, sjerstaklega ef litið er til, hvernig ástæður hvers eins eru, þótt nú sumir þessir hv. þm., sem talað hafa, og þar á meðal t. d. hv. þm. Borgf. (P. O.), telji engan mun á embættismönnum landsins eða öðrum vinnumönnum —það sje t. d. engu meiri virðingarstaða að vera háyfirdómari en póstþjónn eða jafnvel almennur verkamaður—þá býst jeg við, að þetta þjóðfjelag verði þó, eins og önnur, ef það ætlar sjer að halda uppi lögum í landi, siðmenningu og reglu, að gera greinarmun á háyfirdómara og óbrotnum eyrarvinnumanni. Jeg sje ekki, að þjóðfjelagið græði neitt á því, þótt einhverjir vilji ekki gera greinarmun á þeim, sem einhver virðuleg eða ábyrgðarmikil störf hafa á hendi, og hinum, sem leysa af hendi almenn störf, er enga sjerstaka þekkingu krefja, eða leggja enga sjerstaka ábyrgð á þann, er starfið hefir með höndum.

Það er nú satt, að frv. þetta hefir ýmsa ágalla, og þar á meðal þann mikla ágalla, sem þegar hefir verið á bent, að ýmsum starfsmönnum hefir verið slept, úr því málið er kornið af stað. Jeg vildi helst, að teknar væru allar þær stofnanir, er standa í landsins þjónustu, og reynt að gera þeim öllum jafnhátt undir höfði. Jeg sje t. d. ekki ástæðu til að undanskilja starfsmenn póstmálanna nje heldur símamenn. Vildi jeg beina því til nefndarinnar að taka það aftur til athugunar, hvort ekki mætti leysa úr þessu með t. d. póstmeistara og landsímastjóra o. fl. þannig, að taka þá upp í þetta kerfi. Með því móti losna menn við þetta sjerstaka kerfi, sem menn virðast einkum vilja koma símastarfsmönnunum í. Jeg skal geta þess, að ýmsum finst sú upphæð, sem ætluð er símafólkinu, of há í hlutfalli við það, sem öðrum starfsmönnum landsins er ætlað, einkum þó ef till. símastjóra eigi að ráða, þannig, að þeir hæstlaunuðu fái tiltölulega miklu meiri launabót en hinir. Virðist þá rjett að koma símastjóra hjer inn í, svo að hægt sje að gera honum jafnhátt undir höfði og öðrum embættismönnum, en eigi meir. Nú er þess líka að gæta, að einn af hærri starfsmönnum landssímans, símaverkfræðingurinn, er farinn burtu, og enginn kominn í hans stað. Verður líka að taka tillit til þess.

Mjer er það óskiljanlegt, hvers vegna póstmeistari hefir ekki verið tekinn með, því að jeg veit ekki til, að laun hans hafi verið bætt svo, að alt sje þar felt og smelt, ef farið er að taka upp launabætur til annara starfsmanna landsins.

Þá er líka rjett, að taka tillit til þess, þegar verið er að ræða um launabætur til forstjóra einhverra stofnana, að undirmenn þeirra eru lágt launaðir og hafa farið fram á launabætur. Jeg skil ekki, hvers vegna þeir hafa verið teknir út úr, þar sem ekki verður um það deilt, að allir eiga jafna sanngirniskröfu til einhverrar launabótar, er starfa í þarfir landsins.

Þá sje jeg, að nefndin hefir ætlað prestum eina fúlgu til úthlutunar, er framkvæma skal eftir till. biskups. Þetta er líka í samræmi við þá stefnu, sem ofan á virðist orðin hjer í þingi og vill láta þá sitja á hakanum einkanlega, sem t. d. fyrir dugnað sinn komast af, með öðrum orðum, halda því til streitu, að þessi launabót skuli skoðuð sem fátækrastyrkur. Nú er ekki vafi á, að hjer á, eftir þessu frv., að bæta ýmsum þeim upp, er komast af, og því er ekki haldið við það, að þetta sje fátækrastyrkur? Þótt jeg hafi nú mína skoðun um þörfina af landsins hálfu til þess að halda uppi sjerstakri stjett í þjónustu kirkjunnar, jeg tel sem sje, að það eigi einstaklingarnir að gera, þá virðist mjer þó sýnt, að meðan prestar teljast til embættismanna, eiga þeir að fá rjett sinn eins og aðrir. Mjer dylst ekki, að á meðan þeim er haldið uppi af þjóðfjelaginu á ekki að sýna þeim rangsleitni. Það er sannarleg rangsleitni, ef þeim er gert rangt til, sem fyrir dugnað sinn geta talist meðal hinna nýtustu í þjóðfjelaginu. Það er alkunna, að prestar komast misjafnlega af. Sumir þeirra eru t. d. dugnaðannenn, lætur vel búskapur, og eru nytjamenn í sveit sinni. Öðrum gengur búskapurinn illa, m. a. af því, að þeim lætur ekki að reka sjerstaka „praktiska“ atvinnu, og eru þeir því fátækir. Það getur nú verið, að það sje gustuk að hlaupa undir bagga með þessum mönnum sjerstaklega, en rjettlátt er það ekki, frekar en verkast vill, ef strangt er í málið farið. Það kemur úr hörðustu átt, að Alþingi leggist á þá, sem eru nytjamenn í þjóðfjelaginu, ekki hvað síst á þessum tímum.

Jeg skal nú af skiljanlegum ástæðum leiða hjá mjer að tala um eina stjett, sem með öllu hefir verið slept í till. þessum, sem sje sýslumennina. En til glöggvunar fyrir hv. þingdeildarmenn skal jeg geta þess, að það er ekki rjett, sem hv. fjárveitinganefnd hefir látið um mælt, að sýslumenn muni bera upp tekjur af landsversluninni, sem bæti upp rýrnun og hvarf á tolltekjum umdæmanna. Það er kunnugt, að tolltekjur hafa minkað mjög, og sumstaðar algerlega horfið, og verður svo um þær meðan þetta ástand ríkir. Sumstaðar hafa komið í staðinn að nokkru leyti „prósentur“ af nokkrum vörum eða andvirði vara landsverslunarinnar, sem gengið hafa gegnum hendur sýslumanna. Hafa þær þó komið misjafnlega niður, og er spurning, hvort þær koma nokkuð þessu máli við. Afskifti sýslumanna af landsversluninni eru aukastörf, sem þessir menn bæta á sig. En svo er það tilviljun ein, hvort þeir hafa nokkuð upp úr því eða ekkert; það fer eftir því, hvort kaupmenn eða kaupfjelög vilja panta gegnum sýslumennina, eða þeir annast innheimtuna. Ef ekki er svo, þá fá þeir ekkert. Þessar tekjur eru þannig undir því komnar, hvort kaupfjelögin eða kaupmennirnir vilja nota aðstoð embættismannsins, eða landsverslunin æskir þess.

Jeg sje, að hv. frsm. (M. Ó.) hristir höfuðið. Þætti mjer gott að fá að vita, hvort hann efast um, að þetta sje rjett. (M. Ó.: Já!). Jæja. Það kemur þá fram, hjer sem oftar, að þessi hv. þm. (M. Ó.) veit ekki, hvers vegna hann hristir höfuðið. Hann þarf ekki annað en að spyrja forstjóra landsverslunarinnar. Jeg býst við, að hann vilji ekki bera fram ósannindi fyrir nefndina. Gæti hann því sparað sjer að bera slíkt fram hjer, og ef hann svarar þessu á þann veg, þá getur hann gert það í eigin nafni, svo að hneisan kæmi niður á honum, en ekki nefndinnni. Líka er það kunnugt, að í ráði er, að landsverslunin taki upp þá aðferð, sem nokkurskonar heildsali, er mjer raunar líst vel á, að selja vörurnar t. d. við skipshlið. Borga kaupmenn þær þá „kontant“ eða með víxlum, eins og gerist, og hverfur þá þessi milligöngumaður sjálfkrafa. Hins vegar skal jeg geta þess, að jeg læt mig litlu skifta afdrif þessa máls, og ætla mjer, eins og jeg gat um í þyrjun, ekki að leggja neitt til þeirra mála.

Þá vil jeg að lokum að eins geta brtt., er jeg ásamt öðrum hv. þm. hefi komið fram með. Það er brtt. á þgskj. 413 og er við brtt. á þgskj. 400, sem er um hækkun á þingfararkaupi þingmanna og er flutt af hæstv. dóms- og kenslumálaráðherra. Þar er gert ráð fyrir, að greiða skuli þingmönnum til viðbótar 50% af daglegri þóknun þeirra. Þetta þykir mjer of hátt, ekki ef það ætti að vega á móti verðfalli peninga, heldur af því, að jeg vil ekki, að þingmenn gangi á undan með að setja sig hærra, tiltölulega, í dýrtíðaruppbótum en aðra starfsmenn landsin. Dýrtíðaruppbót til embættismanna er, eins og kunnugt er, samkvæmt núgildandi lögum, hæst 40%, og því að eins veitt, að landssjóðsstarfið sje aðalstarf mannsins. Nú kemur ekki til mála, að hægt sje að hugsa sjer þingstarfið sem aðalstarf neins þm.; því mætti þegar segja, að þetta væri brot á dýrtíðarlögunum eða þeirri reglu, er þau fylgja. Dýrtíðaruppbót var veitt þm. í fyrra, mjer og ýmsum fleiri þm. algerlega óafvitandi. Fjárveitinganefndirnar töldu sig hafa fengið áskoranir um það frá ýmsum þm.; mjer er ókunnugt hverjum. En þessi uppbót í fyrra var þó ekki nema 30%.

Brtt. okkar fer nú fram á, að í stað 50% komi 30%. Það þótti mjer sanngjarnt í fyrra og þykir svo nú, ef þm. eiga nokkra slíka uppbót að fá. Í sambandi við þetta er komin fram sú brtt. frá hv. þm. N.-Ísf. (S. St.), að uppbótin skuli veitt einungis þm. utan Reykjavíkur, en ekki þeim, er búa í bænum. En þetta er ekki rjett, og mun jeg greiða atkv. móti þessari till., og get það vel, því að jeg bý nú utan Reykjavíkur. Liggja til þess þau efnisrök, að allir þm. eiga jafnan rjett til uppbótarinnar, hvort sem þeir eru Reykvíkingar eða ekki. Jeg vil sem sje ekki trúa því, að hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) ætli þetta sem sjerstaka hjálp sjer og öðrum þm. utan Reykjavíkur. Ef nokkuð væri því til málsbóta, þá er það ekki það, sem hv. þm. (S. St.) mælti till. til stuðnings. Það má segja, og er víst, að menn græða ekkert fjármunalega á þingsetu, en hver er kominn á þing til þess að græða á því? Jeg þekki það ekki og þætti gaman að heyra, hvort sá væri nokkur. Jeg held, að borgun til þm. sje miðuð við það, að það sje rjett og holt, að þm. fái einhverja þóknun fyrir störf sín, en alls ekki of háa. Það hefir líka þegar í löggjöfinni verið gerður munur á utanbæjar- og innanbæjarþingmönnum, því að hinir síðarnefndu fá 2 kr. lægri dagpeninga. Það getur vel verið rjettmætt. En ef svo á að gefa dýrtíðaruppbót af þessu kaupi, þá á að gefa hana á þeim grundvelli, sem lagður er, að hún skuli vega sem jafnast upp á móti verðfalli peninganna, og það jafnt hvort sem menn búa hjer í Reykjavík eða annarsstaðar, og fá þá utanbæjarþm. sjálfkrafa nokkru meira í sína uppbót. Þess mætti annars geta í þessu sambandi, að þeir af þm., sem búa úti á landi og eiga þar góð bú, geta þá meira að segja farið að komast undir þá „rúbrikku“ að heita framleiðendur, sem sumir hafa viljað skilja út úr og telja betur stadda. En jeg álít óviðkunnanlegt, ef ekki alveg óviðurkvæmilegt, að bera slíkt fram í þessu máli. Þar á móti vil jeg engan veginn, að þm. ætli sjer hærra en aðrir þeir, er hafa landssjóðsstarfið að aðalstarfi. Tel jeg 30% alveg nægilegt.