01.06.1918
Neðri deild: 37. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 885 í C-deild Alþingistíðinda. (2188)

80. mál, dýrtíðaruppbót af aukatekjum

Flm. (Gísli Sveinsson):

Þessi tillaga er, eins og menn geta ráðið í, komin fram vegna þess, hvernig málinu um hækkun á taxta lækna er komið. Við, sem berum þessa tillögu fram, og auk þess ýmsir aðrir hv. þingmenn, erum þeirrar skoðunar, að þegar öll kurl koma til grafar, þá sje nú hætta orðin á, að síðari villan sje að verða verri hinni fyrri, eða með öðrum orðum, að verra sje að hækka hin föstu laun lækna heldur en að deildin hefði fallist á taxtahækkunina. Jeg var þeirrar skoðunar, að sjálfsagt væri að gefa læknum heimild til þess, eins og sakir standa, að hækka taxtann, og ýmsir vildu fara meðalveg í þeirri hækkun og komu með brtt. í þá átt, að taxtahækkunin yrði ekki jafnmikil og frv. fór fram á, en sú brtt. kom ekki til atkvæða, heldur var svo að segja í þagnarþei ákveðið að drepa frv. En slíkri óbilgirni gátu menn ekki unað, og síst af öllu læknar, og því er nú frv. um hækkun á launum lækna komið fram. En um þetta hefir áður verið rætt, svo að jeg skal ekki þreyta hlustir hv. þm. með því að rifja það upp aftur.

Jeg lýsti því þegar yfir við 1. umr. um hækkun á föstum launum lækna, að mjer væri ekki um, að málinu hefði verið hleypt inn á þá braut, og mjer er illa við það enn þá, og það meðal annars af þessum ástæðum.

Í fyrsta lagi virðist það alt til þessa hafa verið þegjandi samkomulag hjer í þinginu að ákveða ekki á þessum tíma föst laun neinna embættismanna til frambúðar, heldur bæta þeim upp að einhverju leyti verðfall peninganna í öðru formi, eða með dýrtíðaruppbótinni svo nefndu. Og í öðru lagi finst mjer það hljóti að verða bein afleiðing þess, ef föst laun lækna verða hækkuð, að aðrir embættismenn, sem ekki eru betur settir, komi á eftir og krefjist launahækkunar, og þeir eiga eins heimtingu á því, að verða teknir til greina.

En þó að jeg geti ekki aðhylst þetta frv., sem hjer hefir legið fyrir, þá tel jeg það með öllu rjett, að læknar eigi kröfu á meiri launauppbót heldur en þeir hafa nú, og hygg jeg, að allir hv. þm. sjeu mjer sammála um það. Þess vegna er þá líka þessi tillaga komin fram, og fer hún í þá átt, að veita læknum ekki að eins dýrtíðaruppbót af föstum launum, heldur líka af aukatekjum, og til þess að eitthvað muni um þessa uppbót, ekki af aukatekjunum og föstu laununum samanlögðum, heldur hvoru í sínu lagi. Það er kunnugt, að dýrtíðaruppbótin getur orðið á 800 kr., en verður það ekki hjá læknum nú; en ef við bætist uppbót á aukatekjunum, þá getur upphæðin alls orðið allveruleg. Auk þessa er manni kunnugt um það, að margir læknar fara nú þegar hærra í því, sem þeir taka fyrir verk sín, en heimilað er í reglugerðinni um taxta lækna. Þá er það enn eitt atriði, sem gerir þessa tillögu aðgengilegri heldur en hækkunina á föstu laununum, og það er, að hjer bera læknar laun sín úr býtum fyrir unnin verk sín. Hjer er ekki þeim ljelega og ónýta gert jafnhátt undir höfði og þeim góða og nýta, heldur fær sá læknirinn, sem mest er sóttur og mest hefir að gera, mestu uppbótina, því að hann hefir með því meiri aukatekjur eða borgun fyrir störf.

Þessi tillaga er því miklu rjettlátari heldur en frv. þessi stefna er þá líka í fullu samræmi við taxtahækkunina, þar sem þeir einir njóta uppbótarinnar að nokkru ráði, sem erfiða mest og bestir eru eða mest sóttir hjeraðslæknanna. Jeg hygg því, að öllu vel athuguðu, að þetta verði happasælasta leiðin út úr málinu, eins og það er nú komið, en ef einhver skyldi geta bent á aðra leið betri og sanngjarnari, þá sje jeg enga ástæðu til að spyrna við henni, heldur mundi það miklu fremur gleðja mig.

Jeg býst við, að þessari tillögu verði vísað til fjárveitinganefndar, og jeg geri það beint að tillögu minni, að svo verði gert, og sömuleiðis býst jeg við, að frv. verði líka vísað þangað. Jeg tel því víst, að þessari umræðu verði frestað þangað til fjárveitinganefnd hefir farið um málið sínum höndum, því eins og kunnugt er, hefir sú nefnd fengið sjerstaka „skikkun“ til þess af deildinni að fjalla um slík mál sem þessi.

Jeg finn svo ekki ástæðu til fleiri orða út af þessu máli.