01.07.1918
Neðri deild: 60. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 892 í C-deild Alþingistíðinda. (2194)

80. mál, dýrtíðaruppbót af aukatekjum

Jón Jónsson:

Jeg hefi skrifað undir nefndarálitið með fyrirvara, af því að jeg vildi sjá, hvernig færi með launafrv., áður en tillagan kæmi fram.

Það er satt, sem sagt hefir verið, að nú er komið í óvænt efni með launamálið. Það hefir verið vikið frá þeirri stefnu, sem ómótmælanlega er rjett, að bæði landssjóður og sjúklingar greiði hlutfallslega launaviðbót handa læknum. Jeg og fleiri hafa viljað fara milliveg, sem sje þann, að uppbótin kæmi ekki að eins frá sjúklingunum, heldur og einnig úr landssjóði. En svo fór, að þessi till. var feld, og jeg verð að segja, að það var illa farið; því að jeg veit, að margir vilja ekki ganga þá braut, að læknar fái uppbótina einvörðungu úr landssjóði. En nú er í raun og veru ekki hægt að verða við kröfu lækna, úr því, sem komið er, nema með því móti, að gjalda þeim uppbótina úr landssjóði, annaðhvort með launaviðbót eða uppbót af aukatekjum, eða hvorttveggja. Nú heyri jeg á hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.), að hann álítur eigi þörf á að samþykkja tillöguna, þar sem læknum eru ætlaðar 500 kr. hverjum í launahækkun. Jeg veit eigi, hvort aðrir hv. þm. eru sömu skoðunar.

Vjer verðum að sýna þessari stjett fulla sanngirni, því að hún er mjög virðingarverð og hefir mikið og vandasamt verk að vinna. Er ekki ofsagt þó sagt sje, að hún sje með þörfustu stjettum þessá lands.

Jeg skal játa það, að mjer var illa við að samþykkja þessa tillögu, eftir að jeg sá, að sú leið var farin, að bæta föst laun lækna og annara embættismanna með sjerstökum lögum, og mjer er enn illa við að greiða henni atkvæði mitt. Jeg álít það ekki skyldu okkar, sem voru með taxtahækkuninni, að svara fyrir æfilok þessa frv. Það er hinna sök að bæta fyrir gerðir sínar í því máli. En jeg geri ráð fyrir, að læknar verði óánægðir með málalokin, ef ekki verður bætt úr fyrir þeim frekar en gert er í frv. Og það er mjög leitt, ef læknar verða svo óánægðir og taka gerðir þingsins svo illa upp, að þeir ef til vill segja af sjer embætti. það er leiðinlegt að geta ekki gert þessari stjett manna til hæfis, því að jeg tel þá alls góðs maklega, eins og raunar hverja aðra stjett embættismanna, en það verð jeg þó að játa, að þessir menn eru einhverjir þörfustu embættismenn þjóðarinnar. Þá ber þess að gæta, að þeir hafa ekki hingað til farið fram á eða heimtað launabætur, heldur hafa þeir sýnt mikla hæversku og hógværð. Jeg verð því að greiða tillögunni atkvæði mitt, þó mjer sje það móti skapi, bæði af því að jeg tel þá leið ranga, sem greiða vill alt úr landssjóði, og svo er fjárhagur landsins svo erfiður, að ilt er að þurfa að ganga þessa leiðina.

Ekki er hægt að segja með vissu, hversu miklu þessi dýrtíðaruppbót næmi, en jeg get hugsað mjer, að hún nemi alt að 20 þús. kr., eða einhversstaðar milli 10 og 20 þús. kr. í fjárveitinganefndinni óaði okkur við að hækka laun lækna um 1.000 kr., ekki af því að læknar ættu það ekki skilið, heldur af því að okkur fanst þetta vera svo mikil og há upphæð; þess vegna lögðum við það til, að föstu launin yrðu hækkuð um 500 kr., og svo yrði læknum leyft að hækka taxtann um 50%. Ef þessi tillaga verður samþykt, býst jeg við, að læknar muni líta svo á, að þingið hafi viljað taka fult tillit til óska þeirra, og það mun þá líka láta nærri, að þeir fái þær bætur, sem þeir fóru fram á að fá. Jeg verð að álíta það virðingarvert hjá læknum, að fara fram á, að gjaldskráin yrði hækkuð, því að svo lít jeg á það mál, að þeir hafi vitað, að þröngt var í búi hjá landssjóði og hafi því ekki viljað íþyngja honum með frekari kröfum.

Hefði jeg verið viss um, að þeir menn, sem greiddu mótatkvæði taxtahækkunarfrumvarpinu, greiddu atkvæði með þessari tillögu, þá hefði jeg greitt atkv. móti henni, en jeg get ekki verið viss um, að þeir fari svo að ráði sínu, og síst af öllu eftir að hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.), sem bæði er meðflutningsmaður að þessari till., og þar að auki var einn þeirra manna, sem veittu taxtafrv. banasárið, hefir lýst yfir því, að hann muni snúast í móti þessari tillögu. En jeg vil ekki verða meðal þeirra, sem vilja útiloka lækna frá allri frekari hækkun, og verð jeg því að brjóta odd af oflæti mínu og greiða till. atkvæði; því það er eina leiðin til þess að greiða úr málinu, úr því sem komið er.

Hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) drap á, að uppbótin kæmi niður þar, sem síst skyldi, en það get jeg ekki talið rjett hjá hv. þm., því jeg verð að telja það rjett, að þeir læknar fái mesta uppbótina, sem verða altaf að vera út um hvippinn og hvappinn og fara verða yfir fjöll og firnindi, til þess að berjast gegn sjúkdómunum. Enda er það ekki rjett, að þeir læknar fái mest launin, sem sitja í erfiðustu hjeruðum, svo erfiðum, að þeir slíta sjer út langt fyrir tímann, til þess að geta rækt sína erfiðu köllun. Einmitt þessir menn eiga uppbótina best skilið, því að verður er verkamaðurinn launanna.