01.07.1918
Neðri deild: 60. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 903 í C-deild Alþingistíðinda. (2198)

80. mál, dýrtíðaruppbót af aukatekjum

Jón Jónsson:

Það eru að eins fáein orð, sem jeg ætla að segja. Hv. 1. þm. Reykv. (J. B.) var að tala um, hve mikil fjarstæða það væri að koma nú með hækkunarfrv. á taxta læknanna, þar sem vitanlegt væri, að læknarnir hækkuðu taxtana án þess. Hv. þm. (J. B.) veit það að sjálfsögðu, að læknar hafa ekki heimild til að hækka gjöld fyrir læknisverk sín fram yfir þann taxta, sem lögákveðinn er. Þegar þingið er að veita læknum uppbót á launum þeirra, þá ætlast það auðvitað til, að þeir haldi sjer við þann taxta, sem þeim hefir verið settur. Að vísu segja ýmsir, að sumir læknar að minsta kosti muni koma á hjá sjer taxtahækkun, þó hún verði ekki heimiluð með lögum. En þó ýmsir haldi þessu fram, þá er það hin mesta fjarstæða, að þingið geti lagt nokkuð upp úr því. Það má ganga út frá því sem gefnu, að ef gjaldendur kvarta undan slíku framferði læknanna, þá helst þeim það ekki uppi. Það er því alveg óþarfi að ganga út frá, að slíkt eigi sjer stað. Um leið og þingið samþykkir launauppbót handa læknunum gefur það þeim með því beinlínis í skyn, að þeir eigi að halda sjer við þá taxta, sem settir hafa verið. Hv. þm. (J. B.) gaf í skyn, að hækkun taxtanna væri rjettmæt, með því að segja, að læknarnir hækkuðu án þess, að fá til þess löglega heimild. Mjer finst þetta nokkuð í mótsögn við skoðun hans að öðru leyti, nema hann ef til vill haldi því fram, að þetta sje ranglega gert af læknunum og að það sje vítavert. Þá væri hann samkvæmur sjálfum sjer.

Hv. þm. (J. B.) sagði, að læknar hefðu tæplega komið hæversklega fram í kröfum sínum. Jeg get nú látið mjer í ljettu rúmi liggja það, sem forstöðumenn læknafjelagsins hafa skrifað í Læknablaðið. Jeg skifti mjer yfirleitt ekkert af þeim hnútum, sem skrifaðar eru í opinber blöð. Þær eru á þeirra ábyrgð, sem þær skrifa, en koma mjer ekki hið allra minsta við. En hitt verður ekki sagt með sanni, að kröfur læknanna í landinu hafi verið of háar eða miður hæverskar að því leyti. Um það geta að vísu verið skiftar skoðanir, hvort þetta sje rjettasta leiðin til að bæta úr þeim, en varla hafa menn ástæðu til að finnast of langt gengið. — Hv. þm. (J. B.) hjelt, að eftir því, sem læknar gefa upp aukatekjur sínar, mundi þessi uppbót ná þeim kröfum, sem læknar hafa gert. Jeg ímynda mjer nú, að þessi uppbót verði varla neðan við 500 kr. að meðaltali á hvern lækni. Það getur að vísu verið nokkuð misjafnt, hve mikið hver læknir fær, en jeg geri ráð fyrir, að landssjóður sleppi ekki betur en þetta. Þá eru læknarnir búnir að fá þá launahækkun, sem jeg tel líklegt að þeir muni vel við una. Jeg lít því svo á, að ef frv. um launauppbót embættismanna verður samþykt og ef þessi till. verður samþykt, þá verði allir ánægðir. En jeg verð að álíta, að læknarnir verði að halda sjer við þá taxta, sem þeim eru settir, ef svona er til þeirra gert á þingi. Ef jeg bæri ekki það traust til þeirra, að þeir haldi sjer við gildandi taxta, þá væri jeg ósamþykkur því að hækka nokkuð laun þeirra að þessu sinni frá því, sem verið hefir.