01.07.1918
Neðri deild: 60. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 905 í C-deild Alþingistíðinda. (2199)

80. mál, dýrtíðaruppbót af aukatekjum

Jörundur Brynjólfsson:

Hv. þm. Stranda. (M. P.) beindi þeirri spurningu til mín, hvort heilbrigði hjer í bænum mundi hafa versnað síðan læknarnir hækkuðu taxta sína. Þessari spurningu get jeg ekki svarað og býst við, að læknarnir gætu ekki einu sinni svarað henni heldur, meðal annars af þeirri ástæðu, að svo stutt er síðan þetta var gert, að ekki er fengin nein ábyggileg reynsla um það enn. Það mun hafa verið á síðastliðnu ári, eða þá síðla á árinu 1916, sem þessi hækkun var gerð, og sjá allir, að ekki er hægt að fá mikla reynslu á svo skömmum tíma. En hitt veit jeg, að sjúkrasamlagið veit af því, að þessi hækkun var gerð. Það hefir ekki getað bjargað sjer síðan, nema bæjarstjórn hlypi undir bagga með því. Það bendir til þess, að erfitt muni hafa orðið fyrir þá, sem leita þurfa læknis, að rísa undir þessum hækkuðu gjöldum. Og það er líklega ekki að ástæðulausu, að víða erlendis eru menn farnir að tala um að afnema öll gjöld fyrir læknisverk. Jeg býst við, að það sje vegna þess, að menn álíti það ekki óheppilegra fyrir heilbrigðina í löndunum, og því sjeu nú raddirnar um það enn háværari en þær hafa nokkurn tíma áður verið.

Viðvíkjandi ræðu hv. 1. þm. N.-M. (J. J.) skal jeg taka það fram, að jeg hefi aldrei sagt, að læknar hefðu hærri taxta en þeim er heimilað. Það er stjórn læknafjelagsins, sem færir þetta fram sem rök fyrir sínu máli. Ef jeg hefði álitið, að þessi rök væru rjett, þá hefði jeg ekki fundið eins mikla ástæðu til að vinna gegn þessari gjaldskrárhækkun. En það liggur í augum uppi, hverjum augum jeg mundi líta á það, ef læknar hjeldu sjer ekki við gjaldskrána, þar sem jeg vildi alls enga hækkun á henni gera. Vitanlega vildi jeg, að læknar fylgdu þeirri gjaldskrá, sem þeim hefir verið sett, og jeg efast ekki um, að þeir geri það, allflestir að minsta kosti, enda álít jeg, að það, sem nú verður gert til að bæta úr kjörum lækna, sje einmitt gert til þess að forða almenningi frá þungum útgjöldum til læknishjálpar. Og það er gert í því trausti, að þeir taki ekki hærra gjald af sjúklingum en gjaldskráin heimilar.