04.06.1918
Neðri deild: 39. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 912 í C-deild Alþingistíðinda. (2209)

82. mál, landsverslunin

Atvinnumálaráðherra (S. J.):

Jeg hefi hvorki getað sannfærst um það af sjálfri till. nje af ræðu hv. frsm. (P. J.), að sjerstaklega brýn þörf sje á því, að till. þessi nái fram að ganga. Það má segja, að till. spilli engu, en bráðnauðsynleg er hún ekki. Það er alkunna, að úthlutun á vörum landsverslunarinnar hneigist nú mjög í þessa átt. Nú sem stendur eru vörur afgreiddar til kaupmanna og kaupfjelaga og einnig til sveitarfjelaga. Það kemur og fyrir, að vörur eru afgreiddar til sýslumanna, og þá oftast eftir ósk sveitarfjelaganna sjálfra.

Mjer þykir eðlilegt, þar sem forstjórum landsverslunarinnar er trúað fyrir landsversluninni, og menn treysta þeim alment, að þeir hefðu þá óbundnar hendur um úthlutun varanna. Tímarnir breytast, og ýms atvik geta komið fyrir, er raska þeim áætlunum, er gerðar hafa verið. Ættu forstjórar verslunarinnar þá að hafa vald á að haga sjer eins og best á við í hvert skifti.

Kunnugleiki þeirra á högum manna er nú orðinn allmikill og fer vaxandi. En það gæti fyrir komið, að lánstraust þeirra manna og fjelaga, sem nú er gott, yrði athugavert er tímar líða. Að minsta kosti hafa menn spáð miklu hjer í hv. deild í þá áttina, að meir og meir kunni að sverfa að fyrir einstaklingum, sveitarfjelögum og þjóðinni í heild.

Hv. frsm. (P. J.) kvað þingsályktunartill. munu verða til stuðnings fyrir forstöðumenn landsverslunarinnar. Þetta má vel vera, en þá er það líka hið eina, sem unnið er við till., þó jeg líti svo á, að þeir geti vel komist af án hennar.

Fyrri liðinn í brtt. hv. þm. Borgf. (P. O.) tel jeg til bóta, sem sje að landsverslunin skuli einnig selja vörur beint til sveitarfjelaga. Það kemur heim við það, er nokkuð hefir tíðkast í landsversluninni, þar sem svo hefir staðið á, að sveitarfjelög hafa haft góða aðstöðu til að taka á móti vörum. Sje jeg og ekkert því til fyrirstöðu, að þetta sje heimilað, ef till. annars nær fram að ganga.

Aftur get jeg ekki fallist á seinni liðinn í brtt. hv. þm. (P. O.). Jeg er á þeirri skoðun, að ekki sje rjett að banna sýslumönnum að hafa vöruúthlutun á hendi. Það gæti komið fyrir, að forstöðumönnum landsverslunarinnar þætti eitthvað athugavert við að afgreiða vörur til kaupmanna eða kaupfjelaga, er þeir vissu engin deili á. Gæti þá verið öruggara að fela sýslumanni að annast úthlutun varanna, og einkum þá um leið innheimtu andvirðisins.