04.06.1918
Neðri deild: 39. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 924 í C-deild Alþingistíðinda. (2215)

82. mál, landsverslunin

Björn Kristjánsson:

Enda þótt hv. frsm. (P. J.) hafi nú skýrt till. á þgskj. 275 og gert það rjett og vel, langar mig þó að segja fáein orð um hana, einkanlega fyrir þá sök, að mjer finst, að þeir hv. þm., sem talað hafa, hafi ekki áttað sig á aðalatriði því, er tillagan fer fram á. Till. markar sem sje nýja, ákveðna stefnu frá því, sem nú er, eins og sjá má. Stefnan er að láta þá menn í landinu fara með verslunina, sem besta hafa þekkinguna og mestan máttinn til þess, sem sje verslunarstjettina. Það er lagt til, að haldið sje sömu stefnu og á venjulegum tímum, og hún er, að kaupmenn og kaupfjelög í landinu annist verslunina, helst að öllu leyti, því að þau standa langbest að vígi til að reka þessi störf í þjóðarinnar þarfir.

Það er öllum vitanlegt, að fjárhagur landsins er þröngur, og það mátti heyra á ræðu hæstv. forsætisráðherra, að það liggur ekki á lausu að fá fje til að reka verslun þessa. Jeg held, að með þeim lánskjörum, er landið hefir, hafi það ekki ráð á að reka verslun landsins að öllu leyti, jafnvel ekki kornvöru- og sykurverslunina eina. Þess vegna álít jeg, að geri þingið eða stjórnin hið minsta til að draga úr því, að verslunarstjettin fari með verslunina, eða geri henni það ókleift, þá geti það bakað landinu stórtjón. Jeg álít þetta því fremur, sem jeg er búinn að athuga fjárhag landsins allrækilega, og þegar tekið er tillit til þess, hve stutt er til gjalddaga á mjög miklum lánum, sem landið hefir tekið, álít jeg, að landið verði að nota alt afl verslunarstjettarinnar, hús, fjármagn, vinnuafl og lánstraust, ef nokkur trygging á að vera fyrir því, að landið geti borgað skuldir sínar á rjettum tíma. Þess vegna er mjer illa við, nú eins og í fyrra, að stjettapólitík komist að á þessum tímum; á venjulegum tímum er hún þó hættuminni, þó altaf sje hún eitur í hverju þjóðfjelagi.— En nú mega menn ómögulega vera að horfa í það, hvort þessi stjett eða hin fer með verslunina og þó að einhver stjett hafi einhvern hag af henni, öðrum fremur.

Jeg held, að það sje viðurkent af öllum þroskuðum mönnum, að verslunarstjettin, hvort heldur eru kaupmenn eða kaupfjelög, sje stór og nauðsynlegur liður í framleiðslustarfi landanna, alveg eins og t. d. kaupamaðurinn, vinnumaðurinn eða vinnukonan eru nauðsynlegir liðir í búskapnum. Og vitanlegt er, að þetta fólk fær há laun fyrir sína hluttöku í framleiðslunni, og því þá ekki eins kaupmaðurinn, sem starfar að sama verki? Jeg segi þetta til þess að slá á þann ýmugust, er jeg heyri víða á landinu anda gegn kaupmannastjettinni yfir höfuð.

Og ef nú þessi liður er nauðsynlegur í framleiðslunni á venjulegum tímum — hvernig getum vjer þá án hans verið einmitt nú? Jeg álít þess vegna, að alt, sem gert er, hjer í deildinni eða annarsstaðar, til að hindra verslunarstjettina í því að birgja landið, sje til tjóns, og meira að segja þarf að eyða þeim gömlu skýjum, sem verið hafa á milli þings og stjórnar og verslunarstjettarinnar og hafa gert mikið ilt. Til þess miðar tillagan, og það er vitanlegt, að ef tillagan verður feld, er þingið búið að lýsa yfir, að það æski ekki að nota styrk verslunarstjettarinnar til þess að birgja landið.

Í raun og veru ætti tillagan að ganga lengra, ef menn vissu, hve mikið það er, sem hjer veltur á.

Hafa menn gert sjer glögga grein fyrir fjárhagnum? Jeg hefi gert mjer þá grein fyrir honum, að ef ekki þarf að leggja meira fje í landsverslunina en í henni stóð 31. des. 1917, og voru um 5.660 þúsund kr., þá mun landið komast af án þess að taka ný lán á þessu ári. Og það liggur í því, að sum lán, sem kalla má eftir hve nær sem er, t. d. botnvörpungalánið og lán það, er ríkissjóður hefir leyft að standa megi fyrst um sinn, 2½ miljón kr., eru lán, sem ætla má að ekki verði kipt burtu á þessu ári. Þar af leiðandi held jeg, að landið gæti komist af. En það er mjög sennilegt, að landsverslunin geti ekki komist af með það fje, er hún hafði 31. des. 1917, og verður þá að taka ný lán. En hvar á að taka þau nýju lán? Eða er ekki rjett að reyna að komast hjá því, ef hægt er?

Jeg hefi líka nokkuð athugað, hvernig fjárhagurinn mundi verða næsta ár, ef landsverslunin hjeldi áfram með líkum hætti og nú. Telst mjer svo til, að ef jeg geri ráð fyrir sennilegum tekjuhalla og reikna vexti og afborganir af lánum utan fjárlaga, þá nemur það, sem landið á að borga um nýár 1920, hjer um bil 14 milj. kr. — Og ef nú landsverslunin heldur áfram með að nota það fje, er hún hefur, og bætir við, — með hverju á þá að borga?

Nú hefur hæstv. forsætisráðherra skýrt frá því, að erfitt yrði að fá lán til lengri tíma; treysti jeg honum, engu síður en öðrum, til að fá lán, ef upphæðin er innan skynsamlegra takmarka.

Eigi ætti að vera vonlaust að geta fengið lán, ef sæmilegt samkomulag getur haldist við það land, sem við getum vænst lánstrausts hjá; annars tel jeg það vafasamt. Jeg sje ekki, hvar við getum tekið vísa peninga til þess að borga með þessar 14 miljónir kr., um eða fyrir annað nýár hjer frá, ef danska lánslindin lokast, sem getur orðið af ýmsum ástæðum. Og allra síst meira, ef landsverslunin heldur áfram í sama stíl og nú, og kann ske í stærri stil. Þess vegna er það, að mjer finst bráðnauðsynlegt fyrir landið að tryggja sjer alt afl verslunarstjettarinnar, og að stjórnin og þingið megi ekki gera nokkurn skapaðan hlut, sem geri verslunarstjettina leiða á að hafa viðskiftin á hendi. Jeg álít, að landið hafi ekki ráð á því að láta þetta afl vera ónotað, láta verslunarstjettina hafa fjeð í handraðanum, hvort sem það er innlent fje eða útlent. Það skiftir engu, og yfir höfuð finst mjer, að á þessum tveggja mánaða tíma, er við höfum setið hjer, höfum við hugsað mest um, hvers við þörfnuðumst, og að okkur vantaði ekki nokkurn skapaðan hlut, en að við höfum minna hugsað um, með hverju við eigum að borga allar þarfir okkar. En þannig hugsa ekki gætnir kaupmenn. Fyrst gera þeir nákvæma áætlun um fjármagn sitt, og svo leggja þeir út í fyrirtækið.

Það er kaupmannagróðinn, sem menn óttast svo mjög, en nú er það vitanlegt, að eins og nú stendur, verður sá gróði ákveðinn og vitanlegur. Sömuleiðis er hægt að ákveða hann svo lágan, að það sje rjett svo, að kaupmaðurinn vilji vinna til að kaupa vöruna og selja hana, og einmitt fyrir þann kaupmannagróða, sem menn líta svo þungum augum til, vilja menn skella allri verslunarbyrðinni á landssjóð, en það tel jeg mjög hættulegt, vegna fjárhagsástæðnanna. Við höfum tvo útvegi; annar er sá, að ýta undir kaupmannastjettina að beita lánstrausti sínu og fje til þess að birgja landið, gegn hæfilegum ómakslaunum, og við skulum segja, að við verðum að unna þeim að fá svo sem 6% eða jafnvel 10% arð af fje sínu, sem mundi að mestu lenda í landinu sjálfu. Hin leiðin er að leita nýrra lána hjá þjóð, sem við eigum í höggi við um sjálfstæði vort, og láta hana skamta lánstímann úr hnefa og borga svo þessi 6% eða meira út úr landinu, í staðinn fyrir að halda þeim inni í landinu hjá þeirri stjett, sem þjóðin getur ómögulega án verið.

Það eru þessar tvær leiðir, sem við eigum að velja um, og ef tillagan, sem er til umr. í dag, verður feld, álít jeg, að við veljum þá leiðina, að fara til Dana og gefa þeim vextina, í staðinn fyrir að halda þeim í landinu, og um leið verður þeim pólitíska heiðri, sem við erum nú að berjast fyrir, gert afarþungt undir fæti. En þann kostinn vil jeg ekki velja, ef mögulegt er að komast hjá því. Nei, þess vegna, ef litið er á tillöguna frá þessu sjónarmiði, verð jeg að álíta, að hún sje ekki eins þýðingarlítil og hæstv. atvinnumálaráðherra og hinir ráðherrarnir og fleiri, sem talað hafa, álíta; — jeg álít, að hún sje einmitt þýðingarmikil, þegar hún er skýrð eins og jeg hefi gert.

Jeg hefi svo ekki meira um þetta að segja. Vildi að eins segja þessi orð, ef þau gætu orðið til þess að skýra afstöðu háttv. deildar til tillögunnar.