12.06.1918
Neðri deild: 47. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 951 í C-deild Alþingistíðinda. (2231)

95. mál, dýrtíðarvinna

Flm. (Sigurður Sigurðsson):

Jeg hefi leyft mjer að koma með þessa till. til þingsál. um dýrtíðarvinnu, á þgskj. 327, og skal jeg vera stuttorður um hana. Aðaltilgangur hennar er sá, að heimila landsstjórninni verkefni til dýrtíðarvinnu, ef nauðsyn krefur og ef á slíkri vinnu þurfi að halda. Till. þessi á að geta afstýrt vandræðum meðal fólks í bæjum sunnanlands. Heimild til slíkrar dýrtíðarvinnu, ef nauðsyn krefur, er í lögum þeim, er nú gilda, og sömuleiðis í frv. því um almenna hjálp vegna dýrtíðarinnar, 6. gr., sem nú liggur fyrir hv. Ed.

Það er reyndar alls ekki víst, að til þess komi, og færi í rauninni miklu betur, að ekki þyrfti á því að halda, að stjórnin yrði að ráðstafa fólki í dýrtíðarvinnu, eins og hjer er gert ráð fyrir. En „allur er varinn góður“, og sje jeg því fullkomna ástæðu til þess, að stjórnin hafi slíka heimild, þótt aldrei þurfi til hennar að taka. Hjer er um verk að ræða, sem er, eins og jeg hefi áður látið í ljós, hentugt til dýrtíðarvinnu. Þetta verkefni liggur ekki langt frá Reykjavík, og þar má vinna, ef þörf gerist, seinni hluta sumars og enda fram eftir vetri. Hvort mikið eða lítið af verkinu verður tekið fyrir, er einungis samkomulagsatriði milli landsstjórnarinnar og stjórnar Flóaáveitufjel. Komið hefir einnig til tals, að gerð yrði tilraun með vatn til áveitu úr Hvítá, áður en ráðist yrði í að framkvæma þetta áveitufyrirtæki. Ef það yrði ofan á hjá þeim, sem hlut eiga að máli, að í slíkar tilraunir væri ráðist, þá er það mitt álit, að það starf, sem til þess útheimtist, myndi einkar hentug dýrtíðarvinna. Gera má ráð fyrir, að það verk myndi naumast kosta minna en 70—80.000 krónur. Yrði það þá svipuð upphæð og varið var í vetur af hálfu landsstjórnarinnar til dýrtíðarvinnunnar í Öskjuhlíðinni. Hins má hjer geta, að verk þetta kemur að fullum notum, þegar ráðist verður í þessa áveitu til fullnustu.

Hvort nokkur nauðsyn sje á þessari tilraun, áður en ráðist verður í sjálft fyrirtækið, skal jeg ekki ræða um að svo stöddu, en benda að einsr á þetta í sambandi við till. Jeg vænti þess, að till. verði vísað til síðari umr. og því næst til bjargráðanefndar. Myndi till. þá síðar, ef bjargráðanefnd litist vel á hana, verða látin ganga til fjárveitinganefndar, er svo fengi að segja álit sitt um hana. Það er þess vegna engin hætta að leyfa henni að fara til 2. umr., með því að hún verður að ganga í gegnum tvo hreinsunarelda, áður en hún verði aftur tekin til meðferðar hjer í deildinni.

Jeg lít svo á, að þetta mál sje kann ske miklu þýðingarmeira en sumir hv. þm. gera sjer í hugarlund. Þess vegna eru það tilmæli mín, að ekki verði hrapað að því að fella till. þegar við 1. umr., heldur lofa henni að ganga til nefnda þeirra, sem jeg hefi talað um. Það væri í raun og veru fljótræði að fella till. óathugaða. Einnig skal jeg láta þess getið, að jeg hefi flutt hana með vitund bjargráðanefndar, og býst nefndin því við, að hún fái málið til meðferðar. Vona jeg því, að till. fái að ganga sína leið, svo að þessi nefnd fái að segja álit sitt um hana, í samráði við stjórnina.