18.05.1918
Neðri deild: 26. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 992 í C-deild Alþingistíðinda. (2261)

39. mál, framkvæmdir fossanefndarinnar

Sveinn Ólafsson:

Jeg verð að segja það, að það voru mestmegnis köpuryrði, sem hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) hafði um nefndina. Þetta vil jeg þó ekki segja um alla fyrirspyrjendurna; hjá þeim flestum mun hafa ráðið eðlileg fróðleiksfýsn. En það hefir þó líka komið fram í umr., að menn halda, að hjer sje um miklu minna starf að ræða en í raun og veru hvílir á nefndinni.

Það er áreiðanlegt, að nefndin hefir orðið að skifta sjer af mörgu, sem ekki er tekið fram í þessum 4 greinum þingsályktunar síðasta þings, en er beinlínis óaðskiljanlegt frá þeim. Ef ganga hefði átt inn á það að skýra frá því, sem fossanefndin hefir gert alt til þessa dags, þá hefði ekki verið annað að gera en að fá mönnum þá lausu drætti, sem hún hefir tekið saman, en jeg held, að enginn maður hefði kunnað við að láta heimta slíka frumdrætti að vandasömu verki og leggja undir þjóðardóm. Eða hvernig hefði annars átt að leysa úr spurningunni nú? Jeg veit satt að segja ekki til, að slíkt hafi nokkru sinni áður verið heimtað af nokkurri milliþinganefnd í þessari hv. deild.

Jeg tek mjer það til inntekta, sem hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) sagði í niðurlagi ræðu sinnar, að hann hefði alls ekki búist við því, að við hefðum lokið störfum fyrir þennan tíma, en hvað átti þá allur þessi mokstur að þýða, sem á undan fór?

Út af því, sem hv. fyrirspyrjandi (G. Sv.) sagði viðvíkjandi vali manna í nefndina, vildi jeg benda á, að 3. og 4. atriði þingsályktunarinnar gefa ekkert tilefni til að líta svo á, að þar eigi eða þurfi verkfróðir menn með að fara Hvað skyldi verkfróður maður frekar geta kveðið það, hvort tiltækilegt sje, að landið kaupi vatnsafl og starfræki það, heldur en aðrir? Alveg sama er að segja um 4. atriðið. Jeg vil auk heldur segja um 1. atriði till., að verkfræðingar standi engu nær en aðrir til að bera fram breytingar á fossalöggjöf. En um 2. atriðið kannast jeg við, að það er verkfræðilegt, enda fyrir því sjeð af stjórninni að nefna verkfróðan mann í nefndina.

Það er eigi mitt verk að dæma um hæfileika einstakra nefndarmanna, og þá síst um sjálfan mig. En furðanlegt er að heyra sleggjudóma hv.fyrirspyrjanda (G. Sv.) um nefndina að óreyndu.

Þá hefir heilmikið verið talað um utanför nefndarmanna. Jeg get nú skýrt frá því, að það er með öllu óvíst, hvort nokkuð verður af henni, en það má áreiðanlega segja það, að slíkar nefndir, sem starfað hafa í öðrum löndum, hafa ekki sett sig úr færi með það að sjá alt, sem þeim hefir getað að gagni komið, og jeg er í engum vafa um það, að þeir, sem starfa að svona málum hjer, myndu einnig græða á því. „Sjón er sögu ríkari“, og myndi verða það hjer, sem endrarnær. Jeg vil leyfa mjer að taka það fram, af því að það hefir verið lögð sjerstök áhersla á, að þessu verki hefði átt að vera lokið fyrir næsta þing, að milliþinganefndir í þessum málum hjá öðrum þjóðum hafa oftast verið að verki árum saman, jafnvel 5—6 ár; en sumar sitja á rökstólum enn, eftir margra ára starf. Þó mun óvíða eins erfiðlegt við þessi mál að fást sem hjer.

Aðrar þjóðir hafa tekið vatnalöggjöf sína til meðferðar á hentugri tíma. Hjer hefir þetta verið dregið í ótíma og þess vegna alt komið í sukk og tvísýnu, fossar í stórhópum seldir og lönd nærri þeim.

Noregur á ítarlega vatnsrjettindalöggjöf frá 1887 og Svíar enn þá eldri lög um það efni, en hjer er ekkert til af því tægi. Fossalög vor frá 1907 eru að eins glepsur úr vatnsnotalögum Norðmanna frá 1906 og hafa enga almenna vatnsrjettindalöggjöf að byggja á.

Hjer hefir því alt þetta mál verið í óreiðu fram að þessum tíma, og nær engri átt að ætlast til þess, að nefndin geti afgreitt það í hendingskasti, svo illa sem henni er í hendur búið og svo ilt sem það er orðið viðfangs.

Hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) tók það tvisvar fram í ræðu sinni, að nefndin hefði ekkert gert, en hvað veit hv. þm. (S. St.) um það? (S. St: Jeg sagði ekkert um það). Jú, hv. þm. (S. St.) tvítók það, jeg skrifaði það hjá mjer í bæði skiftin, og jeg vona, að almenningur fái á sínum tíma að sjá það. á er það ekki heldur rjett, að nefndin hafi vitað það fyrir, að þingið hafi átt að koma saman á þessum tíma, allra síst þegar hún tók til starfa í fyrra, og ólíku betur hefði nefndin staðið að vígi með álit um 1. atriði þingsályktunarinnar frá síðasta þingi, ef hún hefði mátt halda áfram störfum til venjulegs þingsetningartíma, 1. júlí, en ekki þurft að leggja niður störfin 9. apríl, eins og nú varð að vera vegna þingsetningar.

Þá er nú kostnaðurinn við þessa nefnd. Það átti áreiðanlega að gera sjer mat úr honum. Hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) var eitthvað að tala um 10.0000 krónur. (S. St.: Já, með 5 ára starfstíma). Já, hann vildi „pótensera“ upphæðina af auðskildum ástæðum, og kostnaðurinn vex mönnum náttúrlega í augum. En jeg skal nú geta þess, hv. þm. (S. St.) og öðrum til hugarhægðar, að talsvert af honum eru bækur, rit og tæki, sem nefndin þurfti að hafa, afskriftir skjala, skýrslur og skeyti úr ýmsum áttum, sem óumflýjanlegt var að fá, og að enn fremur liggur dálítið af fje þessu geymt og óeytt. Þess vegna eru heldur ekki óyggjandi þessar ágætu heimildir fyrirspyrjanda (G. Sv.) um eyðsluna.

Að öðru leyti mega þessir hv. fyrirspyrjendur gera sjer svo mikið úr málinu, sem þeir vilja og geta. Jeg ann þeim vel allrar ánægju af því og skal ekki æðrast, þótt þeir lýsi vantrausti á nefndinni.