18.05.1918
Neðri deild: 26. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1000 í C-deild Alþingistíðinda. (2263)

39. mál, framkvæmdir fossanefndarinnar

Sigurður Stefánsson:

Það er dálítið undarlegt að heyra nokkurn þann mann, sem til þessarar nefndar þekkir, vitna það og ræða um það, að skipun hennar hafi ekki verið pólitískt flokkamál, því að á það benti einmitt hv. fyrirspyrjandi (G. Sv.) með skýrum orðum, að það hefði verið meiningin að taka menn úr hverjum flokki. Hjer er um ,historiskan“ viðburð að ræða, og því undarlegra, að menn skuli standa upp hver um annan þveran, — og sömuleiðis hæstv. ráðherrar, — og vitna það, að stjórnin hafi haft alveg óbundnar hendur og ekkert tillit þurft að taka til flokkanna.

Um hv. þm. Dala. (B. J.) er það að segja, að oft hefi jeg heyrt honum illa takast að færa röksemdir og sannanir fyrir máli sínu, en sjaldan eins hörmulega og nú, og þar seildist hann vissulega um hurð til loku, er hann fór að tala um hlutdrægni Valtýskunnar í sambandi við þetta mál. En það verður víst lítill árangur af slíkri röksemdafærslu, vegna þess, að sú hlutdrægni snertir ekki þm. N.-Ísf. (S. St.) minstu vitund, því að jeg veit ekki til, að hann hafi nokkum tíma haft ráð á að útbýta vinnu nje nokkrum gæðum til sinna vina eða flokksmanna. þessi orðræða sýnir því ekkert annað en röksemdaleysi hv. þm. (B. J.).

Hæstv. fjármálaráðherra talaði af fjálgleik miklum og andagift og sagði, að menn yrðu að tala um þetta með sannri og einlægri alvöru, og er þetta fagurlega mælt, sem honum oft er lagið, en það eru margir, því er ver fyrir hæstv. fjármálaráðherra, svo gerðir, að þeir vilja hafa meira en orðin ein. Og jeg verð að segja, að þetta lítur ekki út fyrir að vera alvörumál landsstjórnarinnar, þar sem hún á að skipa 5 manna nefnd til að yfirvega málið, en skipar að eins einn mann, sem að dómi alþjóðar er hæfur til nefndarstarfanna. Það er hægur vandi að halda langar ræður um ljettúð, en það er þá óneitanlega betra að sýna ekki jafnmikið hirðuleysi og ljettúð sjálfur eins og hjer hefir verið gert, og jeg verð að segja það, að jeg ber fullkomið vantraust til nefndar þessarar og tel, að hún sje alls ekki fær um að leysa starf sitt af hendi. Þó að það sjeu sæmdarmenn, sem nefndina skipa, þá vantar þá alla nema einn þekkingu og nauðsynleg skilyrði til að leysa slíkt verk vel af hendi.

Um spakmæli hæstv. fjármálaráðh. um „naglaskapinn úr Vigur“ skal jeg geta þess, að það hitti ekki þann nagla, heldur fjármálaráðherranaglann, á höfuðið.