18.05.1918
Neðri deild: 26. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1009 í C-deild Alþingistíðinda. (2270)

39. mál, framkvæmdir fossanefndarinnar

Bjarni Jónsson:

Jeg ætla ekki að lengja umr. að þessu sinni, en sú næsta getur orðið nokkuð löng.

Þessi fyrirspurn getur auðvitað ekki haft neinar afleiðingar, vegna þess, að það væri svo óheillavænlega ráðið, ef ætti að fara að skipa stjórninni að stöðva verk, sem er hálfunnið og stjórnin hefir kostað miklu til. Þetta starf nefndarinnar er mjög svo vandasamt, og svo þegar hún hefir starfað í 5 mánuði, koma nokkrir menn fram og vekja voðalegan gný út af því, hversu hún sje lengi að vinna, og út af þeirri ósvífni, að hún skuli taka kaup fyrir verk sitt. Þá bera menn henni á brýn, að hún hafi ekkert unnið, vegna þess að hún hafi ekki komið með svör eða lagt fram álit sitt um tvö atriði, sem nefnd eru í þingsályktunartill. frá í fyrra. En þetta er hin mesta ósvinna. Því að það er til einkis að ætlast til, að nefndin hafi lokið rannsóknum sínum, jafnvel þó einhver orð hafi fallið um það í fyrra á þinginu. Það lítur því svo út, sem menn sjeu hjer að gera að gamni sínu, en slíkt á illa við um jafnmikið stórmál og fossamálið er.