21.05.1918
Neðri deild: 27. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 424 í B-deild Alþingistíðinda. (228)

63. mál, dýrtíðar- og gróðaskattur

Magnús Pjetursson:

Þá er það loksins fætt þetta frv, sem mig minnir að hæstv. stjórn boðaði þegar í þingbyrjun. Má það heita rösklega af sjer vikið að koma nú loks með það eftir 6 vikur, og ætti að sýna vel frjósemi þessa stjórnarheila.

Annars ætlaði jeg að beina nokkrum athugasemdum til þeirrar nefndar, sem væntanlega fær málið til meðferðar. Í sjálfu sjer er jeg alls ekki mótfallinn þeirri stefnu, að leggja á einhverskonar dýrtíðar- og gróðaskatt. En þetta frv. finst mjer athugavert. Sjerstaklega finst mjer nokkuð langt gengið, þegar farið er að taka 1/3 af tekjum manna, eða 30%, eins og hæstv. fjármálaráðherra skýrði frá. En þó væri það nú sök sjer, ef það væri sá eini skattur, sem lagður væri á gróðamennina. En nú virðist það stefna þessa þings í dýrtíðarmálunum, að hvert sveitarfjelag taki innan síns umdæmis sem mest af því, er það þarf til þess að ljetta þeim dýrtíðina, sem verst eru staddir. Af því leiðir þá, að hvert sveitar- og bæjarfjelag verður að ná sem mestu fje hjá íbúum sínum, og má þá búast við, að stórgróðamennirnir yrðu allra þyngst úti. Útsvör þeirra yrðu hlutfallslega miklu meiri en annara. Það gæti vel hugsast, að í einu sveitarfjelagi, sem hefir þung dýrtíðarútgjöld, og því verður að leggja þung útsvör á menn, sem að sjálfsögðu yrðu mishá, eftir efnum og ástæðum, þá yrði lagt á einstöku stórgróðamenn útsvör í hreppnum, sem svaraði 30% af tekjum þeirra. Þetta er hugsanlegur möguleiki, og yrði þá skattar á slíkum mönnum 30% + 30% = 60% af árstekjum þeirra. Þetta vildi jeg benda nefndinni á, því að jeg geri ráð fyrir, að hún athugi málið mjög ítarlega. Jeg held, að eins og nú er komið dýrtíðarhjálpinni, sje mest undir því komið, að sveitarfjelagið nái í þessa menn til þess að skatta þá, en að hitt geri minna til, þótt landssjóður taki ekki af þeim fje þeirra, því að hann muni lítið leggja til hjálpar almenningi í dýrtíðinni.