27.05.1918
Neðri deild: 32. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 1040 í C-deild Alþingistíðinda. (2296)

53. mál, hækkun á verði á sykri

Fyrirspyrjandi (Einar Arnórsson):

Jeg get ekki látið hjá líða að minsta kosti að fara nokkrum orðum um svar hæstv. atvinnumálaráðherra. Það er reyndar erfitt, því að hann svaraði ekki spurningum mínum í þeirri röð eða í því kerfi, sem jeg bar þær fram. Fyrir því verða athugasemdir mínar dreifðari. Aðalatriðið er það, hvers vegna var verðið á sykrinum hækkað? Hæstv. atvinnumálaráðherra hefir svarað því frá sínu sjónarmiði, eða frá sjónarmiði þess starfsmanns, sem hann hefir bygt svar sitt á. Jeg veit, að hann getur með nokkrum rjetti sagt, að ástæða hafi verið til að hækka sykurverðið. Annað mál er það, að það var ekki ástæða til nærri svo mikillar hækkunar, sem raun varð á, og síst á þeim tíma, sem gert var. Jeg hefi hjer fyrir mjer skýrslu um sykurbirgðirnar, — hvernig þær voru til komnar og hve miklar þær voru þegar hækkunin var gerð. Þessa skýrslu hefi jeg úr sama stað og hæstv. atvinnumálaráðherra hefir fengið sínar upplýsingar, sem sje frá þeim manni, sem veitti landsversluninni forstöðu.

Eins og jeg tók fram áðan, voru alls til í landsversluninni 19. okt. 1917:

Af öllum sykri 1.507 smál.

Þar af steyttur 222 smál.

Högginn 695 smál.

eða 917 smál. eldri en Íslandsfarmurinn í sept. Þetta var svo selt á kr. 1,15 kg. steytti sykurinn og á kr. 1,35 kg. sá höggni. Nú geri jeg ráð fyrir, að verðið hafi verið lagt á eftir því, sem rjettmætt var og óhætt að selja sykurinn, með hæfilegum ágóða fyrir verslunina. Hins vegar hefi jeg líka kynt mjer kalkulation yfir einstaka sykurfarma, og verð jeg að segja það, að sykurfarmurinn, sem kom með „Íslandi“ í júlí, var skynsamlega seldur. Jeg tók það líka fram, að sá hluti birgðanna, sem kom með „Íslandi“ í september, varð töluvert dýrari. Það voru 590 smálestir, sem þurfti að hækka verð á, ef landsverslunin átti ekki að tapa. Þá rísa upp tvær spurningar, sem vænta mátti að landsverslunin hefði svarað áður en sykurverðið var hækkað. Hve mikið þurfti sykurinn, sem kom í september að kosta til þess, að ekki yrði tap á þeim farmi út af fyrir sig? Og hve mikið þurfti að hækka heildarverðið á öllum þeim sykri, sem til var, til þess að jafna þennan verðmun? Úr þessu átti að leysa. Það var hægt, og það hefir líka verið gert seinna. Í sykuráætlun þeirri, sem Hallgrímur Kristinsson hefir gert, er sett lágmarksáætlunarverð á sykurfarminn, sem kom í september, og það talið kr. 1,43 pr. kg. Nú hefi jeg heyrt frá ábyggilegri heimild, að þetta verð sje, eins og tekið hefir verið fram, áætlað lágmarksverð, og muni vera heldur lágt. Er mjer sagt, að fullgerlegt mundi hafa verið að selja þennan sykur á kr. 1,50 kg.

Nú átti þá verslunin þrennskonar sykur, sykurinn, sem kom með „Íslandinu“ í september. 590 smál. á kr. 1,50 kg., höggna sykurinn, sem til var áður, 695 smál. á kr. 1,35 kg., steytta sykurinn sem til var áður, 222 smál. á kr. 1,15 kg.

Ef nú verðinu er jafnað á þessum þremur tegundum, lækkað verðið á síðasta farminum, sem var dýrastur, en hækkað verðið á þeim, sem til var áður, þá kemur út það verð, sem sykurinn í heild sinni hefði þurft að kosta. Niðurstaðan verður sú, að eldri sykurinn hefði þurft að hækka um 6—7 aura, en lækka hinn um 8—9 aura. Verðið á höggna sykrinum hefði þá átt að vera kr. 1,41 til 42 aura kg. — Það kemur út brot, sem er nær 42, og er því sjálfsagt að hækka, svo að heildarverðið verður kr. 1,42 kg. af höggnum sykri og kr. 1,22 af steyttum sykri. Verðhækkunin á eldri birgðunum er því 6—7 aurar, en lækkunin á hinu rúmir 8 aurar. Að lækkunin er meira en hækkunin kemur af því, að það er minna af sykrinum, sem þarf að lækka verð á, heldur en hitt.

Þannig var þá sykurverðið 19. okt. Jeg veit ekki, hve mikið hefir verið selt á millibilinu frá því sykurinn kom í september og fram að þeim tíma. Sjálfsagt hefir það verið töluvert. Með þessari skýrslu, sem jeg hefi fyrir framan mig, er þá sýnt fram á það, að hækkunin var að minsta kosti 18 aurum of há á hvert kg. af höggnum sykri, og 28 aurum of há á hvert kg. af steyttum sykri. Sú hækkun, ef hún er reiknuð út, nemur um 300.000 kr. — Jeg verð því að telja það ábyggilega sannað, að ef miðað er við sykurverslunina eina saman, þá hafi nokkur hækkun verið rjettmæt, en svona mikil hækkun hafi ekki verið bygð á rökum. Jeg veit ekki, hvað kann að hafa verið lagt fyrir hæstv. ráðherra, eða þá tvo embættisbræður, sem ákvörðuðu þessa hækkun. En þeir hefðu átt að vera varkárari og athuga ástæðurnar betur, sjerstaklega hæstv. atvinnumálaráðherra, sem þessi grein heyrir algerlega undir.

Svarið við undirliðunum í fyrirspurn minni var mjög á reiki. Var það víst nokkuð af því, að hæstv. atvinnumálaráðh. tók þá ekki hvern fyrir sig, eins og best og æskilegast hefði verið, til þess að gera umræðurnar greinilegri. — Hvers vegna var sykurverðið ekki hækkað strax, þegar þessi farmur kom, sem gaf tilefnið til hækkunarinnar. Var það gert til þess, að kaupmenn gætu ekki farið í kjölfar landsverslunarinnar og hækkað verðið á þeim sykri, sem þeir höfðu til sölu? Jeg hefi sjeð þessari ástæðu haldið fram, bæði í Tímanum 10. nóv., og svo hefi jeg heyrt hæstv. atvinnumálaráðh. halda því fram, að sú hafi verið ástæðan. En það skýtur nokkuð skökku við, því að almenningur var við því búinn, að sykurverðið ætti að hækka. Jeg hefi það fyrir satt, að grun um það hafi verið mjög á lofti haldið hjer í bænum, og jeg veit um kaupmann, sem sagðist hafa vitað það með vissu, að til stæði að hækka sykurverðið, mánuði áður en það var gert. En fyrst kaupmenn vissu þetta, þá var ekki nein ástæða til að fresta hækkuninni vegna kaupmannanna. Fyrst þeir vissu, að hækkunin var í vændum, þá þurftu þeir ekki annað en draga að selja sínar sykurbirgðir þangað til hækkunin væri komin á. En stjórnin gat tekið annað bragð, til þess að sporna við því, að kaupmenn gætu hækkað sinn sykur. Ef hækkunin hefði verið gerð fyr og jafnað niður á meiri birgðir, þá þurfti ekki annað en að „exprópríera“ sykurbirgðir kaupmanna, — taka þær af þeim og gjalda þeim fyrir þær það verð, sem þeir höfðu sett á sykurinn.

Þegar hækkunin loksins kom, þá var ekki nein ábyggileg von og því síður vissa um það, að nokkur sykur myndi koma frá Danmörku. Það mátti því gera ráð fyrir, að þetta sykurverð mundi standa, og ef til vill hækka enn þá meira, þegar nýjar birgðir kæmu. Þegar hækkunin er gerð á þessum tíma, þá hlýtur hún að byggjast á því, að ekki muni landsverslunin fá neinn sykur með lægra verði. Þess vegna á að jafna verðinu yfir allar þær sykurbirgðir, sem til eru, svo samræmi verði á verðinu á þessum margumrædda „Íslands“sykri og sykurbirgðum landsverslunarinnar. Þetta veldur að vísu nokkru misrjetti, en þó hverfandi litlu í samanburði við það, að láta verðið á síðasta farminum ráða verðinu á öllu hinu.

Viðvíkjandi því, að sykurinn var seldur misjöfnu verði á ýmsum stöðum, voru svörin ekki fullnægjandi. Hæstv. atvinnumálaráðh. sagði, að hann gæti ekki gefið fullnægjandi svör við því. En eitt var það í þessu sambandi, sem jeg hjó eftir í ræðu hans. Hann sagði, að ekki hefði verið hægt að hækka verðið á þeim sykri, sem var í vörslum sýslumanna, því hann yrði að skoðast sem þegar seldur. (Atvinnumálaráðherra: Jeg sagði, að sá sykur hefði verið þegar afhentur). Jæja, þegar afhentur. Þetta get jeg ekki gengið inn á. Það segir sig sjálft, að þegar sýslumönnum eru sendar birgðir af vörum, sem lagðar eru inn hjá þeim til geymslu og afhendingar síðar, þá geta þær ekki skoðast afhentar af versluninni fyrir það. Þær eru, eins og aðrar vörur, í vörslum landsverslunarinnar, þó þær sjeu lagðar upp til geymlu í pakkhúsum, sem sýslumenn hafa útvegað víðs vegar um landið. Annað mál er það, ef sýslumenn voru búnir að lofa einhverju út úr birgðum, er í vörslum þeirra voru. Í vörslum sýslumanna voru þá rúmar 200 smálestir af sykri. Finst mjer, að verðhækkunin hefði átt að koma niður á því af þessum birgðum, sem ekki var búið að lofa eða gera samning um sölu á. Hefði þá átt að fá nákvæma skýrslu um það, hvað sýslumenn voru búnir að fá mikinn sykur frá versluninni, og hve miklu þeir voru búnir að lofa, því að sjálfsögðu var ekki hægt að selja það hærra verði, sem búið var að semja um sölu á.

Viðvíkjandi innkaupsverðinu á „Íslands“sykrinum, þá virðist svo, sem útreikningurinn á því hafi verið bygður á skökkum grundvelli. Gangverð dollarans var um þær mundir kr. 3,60, en er reiknað kr. 3,85. Þó það muni ekki nema 25 aurum á hverjum dollara, þá munar það miklu á öllum sykurfarminum.

Þá er jeg búinn að athuga það, sem mjer finst ástæða til, viðvíkjandi fyrri lið fyrirspurnarinnar, og kem þá að síðari liðnum: Hvers vegna var sykurverðið fært niður aftur? Hæstv. atvinnumálaráh. tilfærði ýmsar ástæður. Eina þeirra er jeg honum alveg sammála um. Umkvartanir fólksins hafa vafalaust átt talsverðan þátt í því, að verðið var sett niður, og er víst óþarfi að ræða um það.

Annars virtist mjer það helst koma fram í ræðu hæstv. atvinnumálaráðh., að hann hefði hugsað eitthvað á þessa leið: „Það var liðið langt fram á haust, þegar verðið var hækkað, svo að búast mátti við, að lítið yrði keypt af sykri það sem eftir var ársins.“ — Já, það er svo sem auðvitað, að þegar hækkunin er dregin svona lengi, þá var viðbúið að lítið yrði selt út um landið það sem eftir var af árinu, því flestir bændur kaupa sinn sykur, eins og aðra vöru, í kauptíðinni á haustin, og hún var afstaðin. En til hvers var að draga hækkunina? Fyrst hún átti að fara fram, þá var svo sem auðvitað, að hún mundi valda misrjetti. Enda sagði eitt blað, sem sumir kalla stjórnarinnar blað, að svo hlyti að vera. Það dró ekki dul á, að sykurhækkunin mundi valda misrjetti. En nú hugsar hæstv. ráðherra áfram: „Á næsta ári er hugsanlegt, að sykurverðið lækki aftur, og þá geta Reykvíkingar og þeir, sem hægt eiga með að ná í sykurinn, notið góðs af, en sveitamenn ekki. Hugsum oss, að sykurverðið lækki í janúar.“

Jú, það getur verið mikið rjett, en svona mátti stjórnin ekki hugsa, þegar hún hækkaði sykurverðið í haust, því þá vissi hún ekkert um, að hún gæti lækkað það aftur. Það voru ekki nokkrar líkur til, að hún gæti lækkað það, og hún varð að ganga út frá, að hún gæti það ekki. Þá var engin vissa fengin fyrir því, að hægt væri að fá nokkurn sykur frá Danmörku fyrir lægra verð. Nú hafa menn ekki fengið að vita, hve nær og á ;hvern hátt stjórnin fjekk þær upplýsingar, að sykurinn mundi koma. En maður gæti hugsað, að hún hefði fengið skeyti um það á tímabilinu frá 9.—16. nóv. Því á borgarafundinum, sem haldinn var hjer í Reykjavík 9. nóv., var ekki minst á það, og í Tímanum 10. nóv. er ekki getið um það, að neinar fregnir sjeu komnar um danska sykurinn. Það var haft eftir hæstv. fjármálaráðherra á nefndum fundi, að svo framarlega sem ábyggileg vissa fengist fyrir því, að sykur fengist með lægra verði, þá gætu menn gert sjer von um, að sykurverðið lækkaði þegar í stað. Það eru því allar líkur til, að skeytið hafi komið þessa kritisku daga, 9.—16. nóv. Ef skeytið hefði verið komið fyrir borgarfundinn, þá hefði fjármálaráðherrann ekki komist þannig að orði. (Atvinnumálaráðherra: Skeytið var ekki komið þá.) Jæja, þá er þetta alveg rjett, sem jeg segi. Skeytið hlýtur að hafa komið á þessu kritiska tímabili. Það er þá sýnt, að stjórninni hefir ekki verið hughaldið að láta háa verðið haldast, því verðið er lækkað jafnskjótt og líkur eru fengnar fyrir því, að danski sykurinn muni fást. Það hafa ekki liðið meira en í mesta lagi 6 dagar frá því fregnin kom og þangað til verðið er lækkað.

Nú veit jeg ekki, hvernig þessi fregn um danska sykurinn hefir verið, hvort tiltekin hefir verið nokkur skipsferð með hann. Líklega hefir íslenska stjórnin átt að sjá fyrir flutningi á honum. Þá má deila um það, og segja sem svo Ef verðhækkunin var nauðsynleg, var þá ekki teflt á tæpasta vaðið að lækka fyr en eitthvað var komið af þessum danska sykri til landsins, eða að minsta kosti fullvíst, hve nær hann muni koma? Enda talar „Tíminn“ um, að það geti verið djarft teflt. En það er vegna þess, að það blað trúir á það, að verðhækkunin hafi verið óhjákvæmileg.

Eins og kunnugt er, fór forsætisráðherrann utan um mánaðamótin september-október. Hann mun hafa látið í haf 30. sept. Þegar þessi ráðstöfun er gerð — hækkun sykurverðsins — þá er hann því erlendis. Hygg jeg, að hann hafi á einhvern hátt starfað að því að fá loforð stjórnarinnar þar um að fá þennan sykur keyptan, og að fá flutning á honum til landsins. Þá var talað um, að skip yrðu send með kjöt til Norðurlanda, og munu menn hafa hugsað, að eitthvað fengist flutt á þeim til baka. Enn fremur var þá von um, að Botnía færi að ganga. Nú er mjer spurn: Þar sem ráðherrarnir, sem hjer voru heima, munu hafa vitað, að forsætisráðherra ljeti sjer ant um kaup á nauðsynjavörum, og það var líka vitanlegt, að hann mundi láta sjer ant um flutninga til landsins, mátti þá ekki bíða með sykurhækkunina til þess er frjettist, hvað honum yrði ágengt? Það er ekki ólíklegt; að minsta kosti geta menn ímyndað sjer það, að þeir hefðu haldið spurnum fyrir um það af eigin hvötum. Og standi verðhækkunin í sambandi við líkindi eða vissu um þennan danska sykur, þá var óþarfi að hlaupa í að hækka verðið áður en einhver vissa var fengin. Má vel vera, að stjórnin hafi gert þetta; mjer er ekki kunnugt um það, og því segi jeg sem maðurinn forðum: Spyr sá, sem ekki veit.

Hæstv. atvinnumálaráðherra nefndi eitt atriði, er hann kvað hafa átt þátt í því, að verðið var lækkað aftur. Hann kvað um þessar mundir hafaverið ráðna breyting á stjórn landsverslunarinnar. Jeg ætla ekki að bera brigður á þetta. En hafi breytingin verið ráðin um þessar mundir, þá er mjer enn spurn: Hví var þá verðið hækkað? Hví gat það ekki beðið til nýárs, er hin nýja stjórn tók við forstöðu versluninnar, svo að hún gæti ráðið málinu til lykta? Það hefði verið rjetta aðferðin.

Jeg skal játa, að landsversluninni, eins og hún var rekin síðastliðið ár, var nokkuð erfitt að leggja á vöruna svo nákvæmlega, að alveg væri örugt fyrir tapi, og því nær óhugsandi að girða fyrir óviðráðanlegt og óvænt tap. Til þess liggja margar orsakir, tafir skipanna, er sumpart stafa af fyrirhyggjuleysi stjórnarinnar, en sumpart eru óviðráðanlegar, og auk þess ýmisleg skakkaföll önnur. Öllu þesskonar tjóni er ekki auðvelt að gera ráð fyrir. Um það geta verið skiftar skoðanir, hvort leggja beri á verslunina tjón af töfum skipanna og önnur skakkaföll, eða þá óvænt útgjöld, sem ekki er auðvelt að gera ráð fyrir. Þau geta numið allmiklu, ef það er t. d. salt, er jeg hefi ástæðu til að ætla, að einn sendimaður landsstjórnarinnar í Vesturheimi hafi krafist 60.000 kr. fyrir 10 mánaða dvöl, eða 6.000 kr. á mánuði. Fyrir þessu er tæplega hægt að gera ráð fyrirfram. (Atvinnumálaráðh.: Hver er maðurinn?). Maðurinn er Jón Sivertsen. Jeg sel þetta ekki dýrara, en jeg keypti. Jeg hefi spurt tvo menn að þessu, er við mál þessi eru riðnir og hafa þeir ekki vefengt, að rjett sje hermt frá þessu, en enga ábyrgð tek jeg á þessu, þar sem jeg hefi ekki enn sjeð reikninginn sjálfur. Sje hjer farið með rangt mál, vænti jeg þess, að hæstv. atvinnumálaráðherra leiðrjetti það. (Atvinnumálaráðh.: Það mun koma í ljós á sínum tíma). Jeg gat þess að eins til rjettlætingar stjórninni, að hún gæti ekki áætlað með fullri vissu, hve mikinn kostnað þyrfti að leggja á vöruna. Annað mál er það, hvort ástæða sje til að greiða umyrðalaust, ef svona hár reikningur kæmi.

Jeg vil leyfa mjer að draga saman í stuttu máli þá niðurstöðu er jeg hefi komist að. 6 aura hækkun á kg. hefði verið verjandi og nauðsynleg til þess að hafa vissu fyrir því, að verslunin skaðaðist ekki á sölunni. Svör hæstv. atvinnumálaráðherra finnast mjer eigi fullnægjandi, og mun það varla koma honum á óvart.

Enn er eitt atriði, er jeg vil víkja lítið eitt nánar að. Eins og kunnugt er, heldur hæstv. atvinnumálaráðherra því fram, að hækkunin hafi verið óhjákvæmileg. Sje þetta rjett, má menn ekki furða á því, þótt eigi lítið tap yrði á sykurversluninni frá þeim tíma, er verðið var lækkað aftur. Það munar um minna en 3—400.000 kr., en svo miklu nam verðhækkun á sykurbirgðum stjórnarinnar. Jeg er þó ekki hræddur um, að ýkjamikið tap verði á sykurversluninni. Enda skildist mjer á hæstv. atvinnumálaráðh., að forstjórar landsverslunarinnar vildu ekki segja neitt um þetta með vissu; má þó búast við, að þeir myndu gera aðvart, ef stórhalli yrði á sölunni. En það kalla jeg stórhalla, er nemur jafnhárri upphæð sem hjer um ræðir. En ef ekki verður stórhalli á sykurversluninni út af fyrir sig, þá er það besta sönnunin fyrir því, hversu órjettmæt verðhækkun stjórnarinnar á sykrinum hefir verið.

Mjer er ekki kunnugt um, hve miklu af dönskum sykri stjórnin á , von á. (Atvinnumálaráðh.: Það verður hjer um bil þriðjungur af þeim forða, er landsmenn þurfa að nota). Jeg vil leyfa mjer að spyrja hæstv. atvinnumálaráðherra, hvort nokkuð af þessum sykri sje komið hingað til landsins, svo að honum sje kunnugt um. (Atvinnumálaráðh.: Man ekki til þess; enda get jeg ekki svarað þessu viðstöðulaust). Mig furðar ekki á því, þótt hæstv. atvinnumálaráðherra sje óviðbúinn að svara þessu. En að landsverslunin og hæstv. stjórn sjer sjer fært að selja sykurinn sama verði, bendir í þá átt, að ábyggileg vissa sje, að hennar áliti, fyrir þessum danska sykurforða. En ábyggilega vissu geta menn ekki haft á þessum tímum fyr en varan er komin þangað, sem hún á að fara. Það var því, eins og blaðið „Tíminn“ tók fram, nokkuð djarflega teflt af stjórninni að lækka sykurverðið svo fljótt, ef hún var sannfærð um, að nauðsyn bæri til að hækka sykurinn.

Jeg sje ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta mál. Hingað til hefir það verið rætt í mesta bróðerni, þótt menn hafi ekki verið á sama máli. Hv. deildarmenn geta haft það fyrir satt í málinu, sem þeim sýnist, og nær það svo ekki lengra frá minni hálfu.